04.02.1987
Efri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2723 í B-deild Alþingistíðinda. (2556)

316. mál, flugmálaáætlun

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Hér er um afar gott mál að ræða og ég fagna því að þessi áætlun er komin fram. Þetta mál er það gott að ég get ekki stillt mig um að segja örfá orð við 1. umr. málsins þó að ég eigi sæti í samgn. og fái tækifæri til þess að fjalla um málið í nefndinni.

Það er ljóst að þessi áætlun, ef hún verður samþykkt sem vonandi verður gert, er góður grundvöllur fyrir sókn í flugmálum hér á landi. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum að því hvað þörfin er brýn í þessum málum. Þessi málaflokkur hefur legið eftir í uppbyggingunni á undanförnum árum og ástand flugvalla og flugmannvirkja um landið hefur engan veginn haldist í hendur við þá tækniþróun sem orðið hefur í flugflota landsmanna og er í mörgum tilfellum orðinn hemill á þá þróun. Það hefur engin áætlun verið til að vinna eftir og þessi málaflokkur hefur verið í algjörri óvissu um fjárframlög ár hvert gagnstætt því sem hefur verið um vegáætlun þó að réttilega hafi verið á það bent að menn hafi ekki getað staðið við þau markmið sem menn hafa sett sér í þeim efnum. Ég má þó fullyrða að vegáætlun sem slík hefur gjörbreytt andrúmsloftinu í kringum vegaframkvæmdir í landinu.

Það er nú svo með vegáætlun að hún byggist að mjög miklu leyti á mörkuðum tekjustofnum þar sem tekjur eru innheimtar af umferðinni í landinu. Það hefur að vísu verið deilt um það og deilt mjög á það að allar tekjur af umferðinni gangi ekki til vegamála en við höfum orðið að taka hluta af þeim tekjum í ríkissjóð til annarra verkefna. Hins vegar er það mál sem ég ætla ekki að orðlengja um enda ekki ástæða til undir þessari umræðu.

Ég var á þeirri ráðstefnu sem hefur verið gerð að umræðuefni um þessa áætlun og þar voru nokkrar deilur um þá mörkuðu tekjustofna sem gert er ráð fyrir til flugsins. Því er ekki að neita að ýmsir flugrekstraraðilar voru með fyrirvara þar á og deildu á áætlun nefndarinnar að þessu leyti. Ég er þeirrar skoðunar að þessi flugmálaáætlun verði að byggjast upp að einhverju leyti á mörkuðum tekjustofnum til þess að hún verði eitthvað meira en orðin tóm. Ég geri þá fyrirvara á því að þeir mörkuðu tekjustofnar renni til flugsins. Ég held að a.m.k. í innanlandsfluginu muni menn greiða þá skatta sem hér hafa verið lagðir til af farmiðum sínum með glöðu geði ef þeir vita að þeir peningar renni til flugsins. Ég veit reyndar af viðtölum við fjölmarga að menn munu sætta sig við það. Það er að sjálfsögðu ekki vinsælt að hafa í frammi skattheimtutal og allra síst á viðsjárverðum tímum svona rétt fyrir kosningar en ég lýsi því yfir að ég er reiðubúinn að standa að slíkri skattheimtu.

Ég get ekki látið þessa umræðu hjá líða án þess að minnast aðeins á flugsamgöngur í mínum landshluta þar sem Austurland er sá landshluti sem ásamt Vestfjörðum er hvað háðastur þessum samgöngumáta, fluginu, til annarra landshluta sökum vegalengda og landshátta. Það er brýnt verkefni fyrir okkur Austfirðinga að fá framkvæmdir í flugmálum og það ber sérstaklega að fagna því að það forgangsverkefni sem nefndinni var gert að athuga, framkvæmdir á Egilsstaðaflugvelli, hefur verið tekið út úr og er ætlunin að ráðast þar í framkvæmdir. Verkefnið þar er brýnt eins og hefur komið fram hvað eftir annað og er óþarft að endurtaka það í þessari umræðu. Það hefur mikið verið rætt um ástandið á þessum aðalflugvelli okkar Austfirðinga undanfarið í fjölmiðlum og þarf ekki að bæta neinu við um það. Það er ánægjuefni að lagt hefur verið til að ráðast í framkvæmdir og í tekjuöflun eða lántöku í því skyni.

Það er flogið reglulega til sjö flugvalla á Austurlandi annarra en Egilsstaðaflugvallar. Öll aðstaða við þessa flugvelli auk flugbrautanna sjálfra þarfnast nú endurbóta og uppbyggingar. Samkvæmt áætluninni mundi kosta um 250 millj. kr. að koma þessu í nokkuð gott horf ef frá er talin flugbrautin á Egilsstöðum sem kostar um 200 millj. kr. Þess vegna er málið brýnt fyrir okkur Austfirðinga, ég undirstrika það við þessa umræðu. Flugsamgöngur innan fjórðungsins eru okkur afar mikilvægar, ekki síður en milli landshluta, vegna þess hvernig Austurland er landfræðilega séð. Vegalengdir eru þar miklar og fjallvegir margir og einangrun ýmissa byggðarlaga mikil. Hv. 4. þm. Vesturl. nefndi áðan ýmis byggðarlög sem svo háttar til um. Ég get t.d. nefnt byggðarlag eins og Borgarfjörð eystri sem er afar háður flugi. Þó að flutningarnir séu kannske ekki mjög miklir um þann flugvöll er hann afar mikilvægur. Reyndar verð ég að segja það að flugmálastjórn og flugmálayfirvöld hafa sýnt t.d. þessum stað skilning og farið þar í framkvæmdir.

Ég hlýt að vona að skilningur á mikilvægi flugsamgangnanna vaxi í kjölfar þeirrar umræðu sem nú hefur verið um flugmál. Ég vænti þess að það þing sem nú situr beri gæfu til að samþykkja þessa löggjöf um flugmálaáætlun og marka henni þá tekjustofna sem duga til þess að vinna eftir henni. Ég mun a.m.k. ekki liggja á liði mínu í samgn. til þess að svo megi verða og nefndin megi skila sínu verkefni fljótt og vel og ég veit að aðrir nefndarmenn eru sama sinnis.

Ég held að hugarfarsbreyting þurfi að verða í landinu varðandi framkvæmdir í flugmálum. Það er nú þannig einhvern veginn í vegagerðinni að það hefur verið mjög mikill þrýstingur frá almenningi að bæta vegina. Það er kannske vegna þess að menn reyna ástand vegamannvirkja á sjálfum sér en í fluginu er hinn almenni farþegi kannske ekki í eins nánum tengslum við ástand flugmannvirkja op flugleiðsögutækja nema aðeins þegar flugvellir fara á kaf í drullu. Þá rísa menn upp. Ég held að í þessu efni þurfi að verða hugarfarsbreyting því að flugið hér á Íslandi, þar sem veðurfar er margbreytilegt og allra veðra von og náttúrufarið sömuleiðis margbreytilegt, flugið hér er flókið fyrirbrigði og það þarf að búa vel í haginn á allan hátt fyrir öryggi í flugi hér á landi.

Flugið er líka ómissandi öryggisþáttur í okkar samgöngukerfi og það er ómissandi öryggisþáttur í heilbrigðiskerfinu einnig. Það hníga þess vegna öll rök að því að vinda þurfi bráðan bug að úrbótum.

Ég vona að sú áætlun sem við erum að ræða í dag marki tímamót í þessum málaflokki.