04.02.1987
Efri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2735 í B-deild Alþingistíðinda. (2565)

316. mál, flugmálaáætlun

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er rétt að umræðan hefur farið út um víðan völl. Meginmálið er að samþykkt verði flugmálaáætlun sem skipuleggi hvar eigi að bera niður við framkvæmdir og líka að gert verði átak í þessum efnum. Það er ekki ástæðulaust þrátt fyrir það að ræða ýmsa þætti eins og byggingu Reykjavíkurflugvallar. Það segir í fskj. frv. að uppbygging í Reykjavík muni kosta um 400 millj. Mér fannst ástæða til þess að nefna það og tel rétt að a.m.k. áætlunarflug verði flutt til Keflavíkurflugvallar og bendi á það í framhaldi af því sem ég sagði áðan að öryggið er hvergi meira en á Keflavíkurflugvelli og það er mjög sjaldgæft ef flogið er ekki þaðan einn dag, þ.e. ef flug fellur niður einn dag á ári. Það er mjög sjaldgæft ef svo verður. En því er öðruvísi farið með Reykjavíkurflugvöll. Það er vegna þess að öryggistæki og aðbúnaður er allur mikið betri á Keflavíkurflugvelli og snjóruðningur betri en á nokkrum sambærilegum flugvelli í heiminum hvar snjóar mikið.

Ég tel ástæðu til þess að því fjármagni sem ætlað er til þessara verulegu framkvæmda verði beint í þann farveg að byggð yrði ný akrein við Reykjanesbraut og þá er fleira sem kemur til. Það er öryggi allra farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll, þeirra sem þurfa að fara til utanlandsflugs m.a. Það má ekki skilja orð mín svo að ég ætlist til að þetta verði að veruleika í fyrramálið, en menn hafa talað þannig. Og mér þykir undrum sæta hvað menn eru óhressir þegar nefndar eru róttækar breytingar. Ég tel tilefnið ærið, tilefnið til þess að horfa fram á veg, og þrátt fyrir að ákveðið verði strax í dag að fara þessa leið mundi taka nokkur ár að koma því í framkvæmd.

Mig langar að spyrja hæstv. samgrh. að því hvort í 3. gr. frv. sé ætlað að áætlunarflugvellir verði teknir fyrst sem forgangsverkefni, þ.e. flugvellir með 1800 m flugrein og lengri, eða hvað er hugsað í þeim efnum. Reyndar er sagt að Alþingi skuli ákveða árlega hvernig með skuli fara, en áætlunarflugvellir af þessari stærð eru nefndir fyrst í frv.

Annað í frv. er að mestu leyti fjáröflun til framkvæmda í flugmálum og verða sjálfsagt deilur um hvernig með það skuli fara.

En ég fagna þessu frv. og endurtek að ég tel að menn eigi að horfa fram á við, enn framar en hér er gert, og þá á þann veg að forða þeim hættum sem fylgja því að hafa innanlandsflug í Reykjavík og það þurfi að treysta öryggið mun meir en verið hefur.