04.02.1987
Efri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2741 í B-deild Alþingistíðinda. (2570)

316. mál, flugmálaáætlun

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Þá veit maður að það er hættulegt að hvísla að hv. 11. landsk. þm. án þess að láta fylgja ærlegar skýringar með svo að hann skilji hvað átt er við. Það lá nefnilega ágætlega á mér í ræðustólnum áðan öfugt við það sem var með hv. 11. landsk. þm. sem hafði allt á hornum sér. Svo að ég skýri þetta út fyrir hv. 11. landsk. þm., með leyfi virðulegs forseta, var ég að gera góðlátlegt grín að grobbi hæstv. menntmrh. í Morgunblaðinu. Síðan kom hv. 11. landsk. þm. upp og endurtók þetta grobb með svolítið öðrum orðum og það var út af fyrir sig allt í lagi. En sárindi hjá mér voru engin því að ég fagnaði einmitt að þetta skyldi fram komið hverjum svo sem það var að þakka.

Ég veit hins vegar ekki hvað hv. 11. landsk. þm. á við með því þegar hann er að tala um að það liggi ekki meining á bak við brtt. sem menn flytja við fjárlög. Mér hefur aldrei flogið í hug að það væri ekki full alvara á bak við tillögur okkar þm. Austurlands í sambandi við fjárlagaafgreiðslu alla og að okkur væri full alvara með að vilja nýja flugbraut á Egilsstöðum. Mér hefur aldrei flogið það í hug. En nú kemur í ljós að hv. 11. landsk. þm. hefur þær grunsemdir að ég hafi aldrei meint neitt með því að vilja flugbraut á Egilsstöðum. Ég hef aldrei og mun aldrei ásaka hann um að hafa ekki haft áhuga fyrir slíkum málum.

Varðandi nafnakallið vil ég leiðrétta hv. þm. Nafnakallið var ekki um aðaltillöguna. Það var um varatillögu sem þarna var nafnakall.

Síðan segir hann að ég hafi afsannað þetta og þá gleymdi hann „restinni“. Ég sagði vissulega að til þess að fá framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll þyrfti sérframlag miðað við þau framlög sem hefðu verið til flugmála á undanförnum árum. Og hver skyldi nú hafa ráðið þeim framlögum? Hæstv. samgrh. var að tala áðan og hv. 11. landsk. þm. var að minna á gæsku hans og ágæti í þessu efni. Ég dreg ekkert úr því. En ansi kemur gæskan og ágætið seint eftir þennan langa valdatíma því að hver hefur ráðið þessum framlögum annar en hæstv. samgrh. með dyggri aðstoð hv. 11. landsk. þm.? Þar af leiðandi sagði ég að til þess þyrfti sérfjármagn. Hæstv. samgrh. hefur gert það.

Af því að hann talaði um málgagn Alþb. á Austurlandi, þá er það nú svo sanngjarnt að það setur upp - ekki kannske með flennifyrirsögn - í síðasta blaði: 60 millj. til Egilsstaðaflugvallar. Reiknað með að þessi tillaga verði samþykkt, segir Matthías Bjarnason samgrh.

Þannig er nú farið með mál á þeim bæ ólíkt því sem hv. 11. landsk. þm. vill greinilega vera láta.