04.02.1987
Neðri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2746 í B-deild Alþingistíðinda. (2580)

124. mál, skipan opinberra framkvæmda

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Mig langar að hafa nokkur orð í 1. umr. um þetta frv., frv. til l. um opinber innkaup. Það eru nokkrar athugasemdir sem ég vildi koma með, en ég hygg að þetta mál fari síðan í fjh.- og viðskn. þar sem gefst tóm til að gaumgæfa það betur.

Í fyrsta lagi er ég sammála því að það er sjálfsagt að tryggja hagkvæmni í rekstri ríkisins hvað varðar kaup á vörum og þjónustu til rekstrar og framkvæmda, eins og stendur í 1. gr., en hins vegar er ég ekki viss um að þessi fámenna stjórn sé heppilegust til að gegna því hlutverki að veita þessari stofnun forustu. Það er spurning hvort stjórnin er of fámenn, hvort það þyrftu ekki að vera fleiri. Hins vegar er það til bóta að hún er einungis skipuð til tveggja ára í senn. Ég vil enn fremur fagna því að forstjóri stofnunarinnar er skipaður til fjögurra ára í senn. Það er greinilega góð ráðstöfun og mætti gera að meginreglu að ráðningar í stjórnsýslustöður væru tímabundnar þannig að vald dreifðist milli manna og fleiri ættu völ á að gegna slíkum stöðum en menn væru ekki æviráðnir.

Í 5. gr. er ákvæði sem segir: „Stofnunin ráðstafar eigum ríkisins sem ekki er lengur þörf fyrir.“ Mig langar til að inna eftir því hvað átt er við með þessu, ef hæstv. fjmrh. vildi leggja við hlustirnar. Verður þetta ekki í samráði við stjórn þeirra stofnana sem ráða yfir þessum eigum eða viðkomandi ráðuneyta eða er það alfarið á valdi Innkaupastofnunar að ráðstafa eigunum? Mig langar til þess að inna eftir því hvað er átt við með þessu orðalagi í 5. gr.

Þá er líka vert að velta því fyrir sér hvort eigi að lögbinda útboð með þeim hætti sem gert er í 6. gr., hvort ekki eigi að hafa örlitið opnara ákvæði sem gæti jafnframt tryggt hagkvæmni, en lögbindi ekki útboð með þeim hætti sem hér er gert.

Að lokum, því að ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í þessari umræðu, tel ég verulega ámælisvert að það skuli vanta í þetta frv. öll ákvæði um að leggja áherslu á heimakaup eða að kaupa innlendar iðnaðarvörur. Það hafa margir reynt að beita sér fyrir þessu á undanförnum árum til að styrkja íslenskan iðnað og það er afleitt að hið opinbera skuli ekki ganga á undan með góðu fordæmi. Og ég tek undir þá spurningu sem hér var fram borin áðan. Við vinnum hér í húsi sem er verið að endurnýja að því leyti til að það er verið að kaupa nýjan húsbúnað, teppi, gluggatjöld o.fl. Eftir þeim upplýsingum sem mér hafa borist er ekkert af þessu keypt hérlendis. Þetta er allt keypt að utan. Þetta er erlend iðnaðarframleiðsla. Og ég verð að segja að mér finnst það hreinlega skammarlegt að hér skuli ekki vera íslenskur húsbúnaður. Ég vil inna eftir því hver ákvað þetta. Hvernig voru þessar ákvarðanir teknar? Og við hverja ráðfærðu þeir sig sem tóku þessar ákvarðanir? Var það við einhverja sem vinna í þessu húsi eða var það einungis við þá sem ekki vinna í þessu húsi?