04.02.1987
Neðri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2748 í B-deild Alþingistíðinda. (2583)

125. mál, opinber innkaup

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um opinber innkaup, sem er 125. mál Ed., og þakka þeim hv. þm. sem gerðu frv. að umtalsefni undir síðasta dagskrárlið.

Meginefni þessa frv. er að það er gert ráð fyrir að skipuð verði þriggja manna stjórn yfir öll opinber innkaup sem jafnframt yrði stjórn Innkaupastofnunar ríkisins. Tilgangurinn með þeirri skipan er að samræma starfsaðferðir um opinber innkaup, hvort sem Innkaupastofnun ríkisins annast þau eða einstakar stofnanir. Frv. gerir ráð fyrir því að unnt sé að hafa þann hátt á einnig að einstakar stofnanir annist innkaup á eigin vegum. Það fer eftir eðli máls og atvikum hvort hagkvæmara þykir að stofnanir flytji inn vörur sjálfar eða annist innkaup eða feli það Innkaupastofnun ríkisins. Um það verða ekki settar almennar reglur sem gilda fyrir alla þætti ríkisstarfseminnar og því þykir eðlilegt að hafa þann hátt á að hér geti verið um mismunandi skipan að ræða.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að útboð verði á opinberum framkvæmdum og í þriðja lagi er lagt til að forstjóri Innkaupastofnunar verði skipaður til ákveðins tíma í senn og er það í samræmi við hugmyndir sem uppi hafa verið á undanförnum árum um að ráða opinbera starfsmenn til takmarkaðs tíma.

Frv. er samið af þeirri nefnd sem fyrrv. fjmrh. skipaði 1984 og fjallaði bæði um skipan opinberra framkvæmda og fyrirkomulag opinberra innkaupa og er í fullu samræmi við tillögur nefndarinnar. Í frv. er ekki kveðið á um, eins og hér var vikið að, með hvaða hætti skuli taka tillit til íslensks iðnaðar eða íslenskrar framleiðslu við kaup á vörum og þjónustu. Eðlilegt þykir að slíkar ákvarðanir séu teknar hverju sinni og þótti ekki rétt að hafa ákvæði um það efni í þessum lögum. Þar koma auðvitað mörg sjónarmið til greina, bæði það sem hér hefur verið vikið að, að ríkið að öðru jöfnu beini kaupum sínum til innlendra framleiðenda í því skyni að styrkja innlenda framleiðslu, en að hinu leytinu verður ríkið að huga að hagsmunum skattborgaranna og haga innkaupum á þann veg að kaupa inn vörur og þjónustu með sem ódýrustum hætti og kostnaðar minnstum fyrir skattgreiðendur. Til beggja sjónarmiða þarf að horfa.

Varðandi þá fyrirspurn hvort Innkaupastofnun ríkisins geti upp á eigin spýtur ráðstafað eignum ríkisins, þá er það engan veginn svo. Það eru viðkomandi stofnanir eða ríkisfyrirtæki eða ráðuneyti sem taka ákvarðanir um það og fela síðan Innkaupastofnun að annast framgang þeirra mála. Að þessu var spurt þegar mál þetta kom til meðferðar í hv. Ed. og þar,gefin skýr svör við því.

Herra forseti. Ég hef þegar svarað nokkrum athugasemdum sem fram hafa komið við mál þetta í umræðum við hið fyrra mál, en legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.