04.02.1987
Neðri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2752 í B-deild Alþingistíðinda. (2589)

125. mál, opinber innkaup

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er full ástæða til þess að fara ofan í saumana á því, hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur staðið að opinberri innkaupastefnu og hvernig sú stefna hefur raunar verið jarðsett í tíð þessarar ríkisstjórnar. En ég ætla ekki að fara að ganga eftir því undir þessum dagskrárlið frekar en orðið er. Ég vildi hins vegar, vegna þess að það hafa engin svör komið frá virðulegum forseta og hann er kannske ekki fær um að veita svör við því sem snertir innkaup í þágu Alþingis á búnaði hér, óska eftir því að það verði upplýst við fyrstu hentugleika, hvernig að þeim ákvörðunum hefur verið staðið og hvað hafi ráðið þeim ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar.