04.02.1987
Neðri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2752 í B-deild Alþingistíðinda. (2592)

181. mál, Kennaraháskóli Íslands

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Frv. þetta kemur frá Ed. þar sem það hlaut einróma samþykki. Það er lítið í sniðum og einfalt.

Í núgildandi lögum um Kennaraháskóla Íslands segir svo í 15. gr., með leyfi forseta:

„Vísindalegu starfi Rannsóknarstofnunar uppeldismála stjórnar forstjóri kjörinn til skiptis úr hópi fastra kennara í uppeldisskor Kennaraháskóla Íslands og fastra kennara við heimspekideild Háskóla Íslands í sálarfræði, uppeldisfræði og félagsfræði.“

Lagabreytingin sem hér er lögð til er að í stað þess að forstjóri skuli fortakslaust til skiptis kjörinn úr hópi fyrrgreindra aðila verði reglu þessari að vísu viðhaldið, en hún verði ekki fortakslaus heldur skuli skotið inn í orðunum „að jafnaði“ kjörinn. Þetta eru allir aðilar sem hlut eiga að máli alveg sammála um vegna einstaklega góðrar reynslu af þeim aðila sem gegnt hefur forstjórastarfi undanfarin ár.

Að breyttu breytanda er talað í þessari lagabreytingu um félagsvísindadeild Háskólans og er það í samræmi við breytingu sem orðið hefur á deildaskipun Háskóla Íslands frá því að þessi lög voru sett.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að að umræðu þessari lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og menntmn.