04.02.1987
Neðri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2773 í B-deild Alþingistíðinda. (2599)

318. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Ég vil geta þess hér, eins og fram hefur raunar komið hér í umræðunum, að ég hef lagt fram nokkrar skýrslur hér, m.a. skýrslu um álit milliþinganefndar og skýrslu um starfsemi ráðgjafarstofnunar Húsnæðisstofnunar á s.l. ári. Umræður um þessar skýrslur hafa þegar verið ákveðnar og verða að öllu forfallalausu. Eftir því sem forseti Sþ. hefur tjáð mér gætu þær umræður farið fram n.k. þriðjudag. Miklar umræður um málið út af því geta þá farið fram í sambandi við þessar skýrslur og þá er hægt e.t.v. að skýra málið frekar en við umræðu um þetta mál.

Í sambandi við frv. á þskj. 560 vil ég endurtaka að hér er fyrst og fremst um að ræða nauðsynlegar lagfæringar á lögunum. Fyrst og fremst að því er varðar lánsrétt til að auðvelda framkvæmdina á lögunum hjá Húsnæðisstofnun og sníða af agnúa sem hafa komið þegar í ljós, bæði við meðferð á umsóknum og einnig þegar var farið að setja vinnureglur í sambandi við málið í heild.

Ég mun að sjálfsögðu gera ítarlegri grein fyrir þessum málum í heild við þessar umræður ekki síst um milliþinganefndina og eins í sambandi við skýrsluna um ráðgjafarþjónustuna. Í sambandi við það mál vil ég aðeins geta þess um greiðsluerfiðleikalánin sem lögð var áhersla á á s.l. ári að þar var gert ráð fyrir fjármagni að upphæð um 500 millj. Það var búið í byrjun október, eins og kemur fram í skýrslunni, að afgreiða lán upp á 574 millj. Það hefur komið í ljós síðan að það er fullkomin þörf á að halda þessari starfsemi áfram og í samráði við ríkisstjórnina er nú verið að vinna að því þessa dagana að tryggja framhald á þessum þætti mála. Vona ég að það skýrist núna næstu daga. Á því er mjög mikil þörf.

Ég ætla ekki að fara mikið út í þessar umræður sem hér hafa farið fram, ég mun geyma mér hluta af þeim, en ég vil aðeins segja að menn mega ekki gleyma því í þessum umræðum að ákvörðun um lagasetningu á s.l. ári byggðist á samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um ákveðnar aðgerðir sem byggjast fyrst og fremst á innkomu lífeyrissjóða landsins í miklu meiri mæli en áður hefur þekkst og jafnframt var það skilyrði aðila vinnumarkaðarins í sambandi við þetta að þessi lagabreyting hefði þá þýðingu fyrst og fremst að landsmenn áttuðu sig á því að þeir yrðu að verða þátttakendur í lífeyrissjóðakerfinu. Eins og allir hv. alþm. vita hefur sú ákvörðun verið tekin að hækka framlög til lífeyrissjóðanna sem eru stighækkandi á næstu árum frá síðustu áramótum, þannig að enn eykst það fjármagn sem lífeyrissjóðirnir hafa til ráðstöfunar og þar með sjálfkrafa það fjármagn sem rennur samkvæmt þessum lögum inn í húsnæðiskerfið.

Þetta hefur hins vegar valdið því að nokkrir agnúar hafa komið fram á stöðu þess fólks sem ekki hefur verið nema takmarkað í lífeyrissjóðunum. Frv. sem hér er til umræðu bætir nokkuð úr þessu og eins samningurinn sem hefur verið gerður við Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda fyrir íslenska námsmenn frá 1. september s.l. sem er ákaflega mikilvægt atriði.

Það hefur komið fram í umræðunum og ég þarf ekki að endurtaka það að auðvitað sjáum við ekki enn þá fyrir endann á því hvernig reynslan verður af þessum lögum. Umsóknir um lán samkvæmt þessu kerfi komu inn á tiltölulega stuttum tíma, þ.e. í september, október og nóvember fyrst og fremst, og það hefur verið lögð á það gífurleg áhersla í Húsnæðisstofnuninni, þrátt fyrir ýmsa erfiðleika á að framkvæma það, því að það þurfti að tölvusetja þetta allt saman, að ljúka útskrift á þessum umsóknum og einnig umsóknum sem komu í desember. Þessu er nú langt komið. Þetta er allt farið út og farin að koma inn svör við ýmsum atriðum sem þurfti að fá upplýsingar um, þannig að það er allt í fullum gangi í afgreiðslu á þessum málum. Að sjálfsögðu er ég fús til þess áður en langt um líður að gefa Alþingi skýrslu um hvernig mál standa í Húsnæðisstofnun. T.d. síðar í þessum mánuði. Þá verða þessi mál farin að verða ljósari, bæði í sambandi við gildar umsóknir og fjármagnsskiptinguna eins og lánsloforðin hafa verið gefin út.

Hv. þm. hafa spurt að því hvort ríkisstjórnin og ekki síst félmrh. hafi gert sér grein fyrir hvernig fjármagnið yrði í sambandi við þessi nýju lög, hvort fjárþörfin væri tryggð o.s.frv. Það er hægt að vísa í grg. með frv. eins og það lá fyrir til afgreiðslu á síðastliðnu ári hér á þingi. Ef fjármagnið yrði ekki nægjanlegt í þeirri óvissu sem lá þá fyrir um hvað yrðu miklar umsóknir kæmi það fram í lengri biðtíma. Það er alveg ljóst. En aðalatriðið í þessum málum er að fólk fái svar um sinn lánsrétt og þó það dragist eða lengist tíminn er það miðað við það fjármagn sem fyrir er. Það er ekkert leyndarmál að auðvitað hefði ég kosið að það fjármagn sem kom frá ríkinu í fyrstu lotu þessa máls hefði verið meira en lá fyrir við afgreiðslu fjárlaga, en ég held að allir geti áttað sig á því að það var ekki hægt að ganga lengra.

Fjárlög eru afgreidd með gífurlegum halla eins og allir vita og það var útilokað að ætla meira fjármagn í fyrstu lotu þessa máls en þar var gert. Ég held að því verði ekki á móti mælt að það var ekki verið að fara á bak við eitt eða neitt. Þetta kom fram í grg. með frv. þegar það lá fyrir Alþingi miðað við það áform, sem þá lá fyrir að yrði samkomulag um, að það yrði 1 milljarður sem kæmi sem beint framlag frá ríkissjóði í Byggingarsjóð ríkisins.

En ég ætla ekki að ræða þetta meira að þessu leyti til. Ég er fús til að gefa upplýsingar um það hér á þingi þegar þetta liggur betur fyrir.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var með upplýsingar eftir framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar.

Ég veit ekki hvernig hann hefur gefið þær upplýsingar því þær upplýsingar er ég ekki búinn að fá enn af þeirri einföldu ástæðu að Húsnæðisstofnun getur það ekki enn þá sem er ekki von. Það er svo margt sem er eftir að fá upplýst í þessu, bæði í sambandi við gildar umsóknir, afföll í umsóknum o.s.frv. sem er að skýrast dag frá degi.

Ég ætla ekki að ræða sérstaklega álit fasteignasalanna. Það má sjálfsagt heimfæra það að með nýjum lögum, hækkuðum lánum hækki hús á fasteignamarkaðnum. En ég verð að segja það að með fullri virðingu fyrir fasteignasölum í landinu er alveg ljóst að þeir hafa ekki komið í veg fyrir að á þeirra sviði hafi verið gerðir sölusamningar og kaupsamningar í mjög miklu magni áður en þessi nýju lög, sem samþykkt voru í fyrra, tóku gildi. Þar er fólk bókstaflega látið skrifa undir samninga um kaup og sölu áður en umsóknarfrestur er útrunninn um lán. Auðvitað geta allir séð hvaða afleiðingar þetta hefur ef það er í stórum stíl verið að gera kaupsamninga og sölusamninga á fasteignamarkaðnum þar sem fólk er beinlínis látið skrifa undir með því fororði að það eigi rétt á lánum án þess að vita það. Það hefur verið farin mjög ítarleg auglýsingaherferð á vegum Húsnæðisstofnunarinnar, bæði í öllum tegundum fjölmiðla, með bréfum og öðru slíku, til að vara við þessu. Ég tel að þetta sé kannske erfiðasta málið sem Húsnæðisstofnun þarf að glíma við næstu mánuði, að reyna að leysa vanda sem fólk er þegar komið í vegna þess að það er látið gera samninga á forsendum sem eru ekki fyrir hendi. Þetta er kapítuli út af fyrir sig sem er erfitt að fást við og allar aðvaranir sem gefnar hafa verið út hafa gengið út á að allir slíkir samningar væru réttlausir gagnvart lánakerfinu ef þannig er á haldið.

Það kemur að vísu fram í bréfi fasteignasalanna til stofnunarinnar að það hafa verið haldnir fundir með þeim og Húsnæðisstofnun og ég hef gert ráðstafanir til þess að það yrði haldinn fundur núna aftur með fasteignasölum um þessi mál til að reyna að ná samkomulagi um skynsamleg vinnubrögð í sambandi við þetta allt saman. Ég vona að það verði mjög fljótlega. Þeir segja sjálfir að þetta jafnist út, þetta taki sinn tíma. Þar með viðurkenna þeir þörfina á því að nýja húsnæðiskerfið verði a.m.k. að eiga ársafmæli áður en verður farið að dæma það algerlega í rúst.

Ég segi það í sambandi við þessar ræður sem hér hafa verið haldnar að auðvitað dettur engum í hug að Húsnæðisstofnun ríkisins eigi að hafa ótakmarkað fjármagn til umráða í sambandi við húsnæðismálin almennt og það sé hægt að byggja eins og hver vill og hver óskar. Við höfum ekki efni á því. Ástandið í opinberum fjármálum er ekki þannig að það leyfi slíka bjartsýni. Þess vegna er alveg ljóst að það verður að stýra fjármagni inn á þetta svið eins og önnur og þannig reyna að draga úr óheppilegum áhrifum. Þess er kannske ekki síst þörf ef við göngum út frá því sem hv. 5. þm. Austurl. sagði um ástand markaðarins úti um land. Þá væri viss öfugþróun í því ef við stuðlum að því jafnhliða að fjármagn á þenslusvæðum væri ótakmarkað í sambandi við þessi mál. Ég hygg að allir séu sammála um að það þarf að hafa vissa stjórn á þessu og að því þarf að vinna.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í það sem hér hefur komið fram. Það væri hægt að ræða lengi um þetta allt saman. En ég lýsi því yfir aftur að ég mun gera frekari grein fyrir þessum málum þegar skýrslurnar, sem ég gerði hér að umtalsefni, verða lagðar fram til umræðu hér eftir helgina. Einnig er ég fús til þess strax og Húsnæðisstofnun er tilbúin með grg. til mín um fyrstu framkvæmd þessara laga að gefa Alþingi skýrslu í Sþ. um þau mál þannig að það verði ekki neitt vafaatriði hvað um er að ræða í þessum efnum.

En ég legg mikla áherslu á að leiðréttingar sem felast í frv. sem liggur fyrir á þskj. 560 nái afgreiðslu á þessu þingi. Það leysir ótrúlega mörg vandamál sem liggja fyrir í umsóknarkerfinu fyrir stofnunina og fyrir fólkið.