05.02.1987
Sameinað þing: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2781 í B-deild Alþingistíðinda. (2606)

317. mál, Egilsstaðaflugvöllur

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þá till. sem hér er fram komin. Ég fagna því að hún hefur komið fram því að með henni er tekið á mjög alvarlegu vandamáli í samgöngum okkar Austfirðinga og um leið þjóðarinnar allrar því að öllum kemur þetta til góða.

Ég ætla ekki að rifja upp ástæðurnar fyrir því að hér er þessi framkvæmd tekin sérstaklega fyrir. Þær ástæður hafa komið svo greinilega fram í fjölmiðlum undanfarið að það þarf ekki þar um að bæta. Egilsstaðaflugvöllur, sem þarna er um að ræða, er miðstöð flugs á Austurlandi. Um hann fara yfir 50 þús. farþegar árlega. Hann er miðstöð sjúkraflugs í heilum landsfjórðungi og hann er miðstöð áætlunarflugs innan fjórðungsins og frá honum er stundað reglulegt millilandaflug til Færeyja.

Það er einmitt af þessum ástæðum, þessu mikla hlutverki Egilsstaðaflugvallar, sem við höfum lagt áherslu á endurbyggingu hans sem nú hefur verið ákveðið að hefja. Við höfum lagt áherslu á að fá upp byggðan góðan flugvöll sem nýtist innanlandsfluginu og þeirri miklu umferð og vonandi vaxandi sem þar er um að ræða. Einnig viljum við ekki loka fyrir þá möguleika að þarna verði stundað millilandaflug í auknum mæli, en ég leiði hjá mér allar varavallarumræður í þessari umræðu um þetta mál. Innanlandsflugið er fyrir okkur númer eitt og að hafa möguleika til þess að taka á móti flugvélum erlendis frá og stunda áfram það Færeyjaflug sem stundað hefur verið.

Ég vona að þetta verk fái góðan framgang og ég hef ekki ástæðu til þess að ætla að landeigendur hvar í flokki sem þeir standa, hvort sem þeir eru varaþm. eða óbreyttir bændur, sýni þessu ekki fullan skilning í þeirri samningagerð sem fram undan er. Auðvitað verður gengið frá samningum við þessa menn eins og lög gera ráð fyrir, en ég hef ekki ástæður til að ætla að það tefji framgang málsins að neinu leyti.

Við þm. Austurlands höfum verið rækilega minntir á þetta mál á undanförnum árum því að þrýstingurinn heima fyrir er mikill og í réttu hlutfalli við hvað þetta er áríðandi samgöngumannvirki í okkar landshluta. Við höfum hins vegar gert okkur grein fyrir því að þarna er um sérverkefni að ræða. Miðað við þær fjárveitingar sem verið hafa til flugmála er þetta dýrt verkefni og verður ekki framkvæmt miðað við núverandi fjárveitingar nema með sérstakri fjáröflun. Við gerðum okkur grein fyrir að það þyrfti að afgreiða þetta mál í tengslum við flugmálaáætlun sem nú hefur verið lögð fram.

Það ber að fagna því að þetta mál er nú fram komið og ég vona og veit reyndar að þm. munu taka þessari till. vel og sjá þá nauðsyn að hún verði afgreidd áður en þingi lýkur.