05.02.1987
Sameinað þing: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2782 í B-deild Alþingistíðinda. (2608)

272. mál, samningur um stofnun norræns þróunarsjóðs fyrir Fæeyjar, Grænland og Ísland

Frsm. utanrmn. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Till. þessi til þál. um staðfestingu samnings um stofnun norræns þróunarsjóðs fyrir Færeyjar, Grænland og Ísland er auðvitað kunn öllum hv. alþm. Till. þessi hefur verið rædd í utanrmn. og mælir nefndin í heild með samþykkt hennar. Hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir sat fund nefndarinnar og er samþykk þessu áliti.

Mönnum kann að virðast við fyrstu sýn að hér sé ekki um stórt mál að ræða, en ég hygg þó að það muni geta sannast sem fyrr að mjór sé mikils vísir og vissulega er það mikið ánægjuefni fyrir okkur Íslendinga að þessi sjóður komist á stofn og samband okkar og samskipti við nágrannana, Færeyinga og Grænlendinga, aukist.

Það er raunar svo að allar þjóðir frá Noregsströndum til Kanada þurfa að efla sitt samstarf, ekki síst á sviði hafréttarmála. Þar er ör þróun eins og menn vita. Við höfum náð merkum samningum við Norðmenn og erum nú að sækja rétt okkar bæði á Reykjaneshrygg og eins á Hatton-Rockall-svæðinu, en um það svæði verða einmitt umræður síðar í þessum mánuði með Dönum og Færeyingum. Kannske kemur til þess áður en langt um líður að við tökum líka upp viðræður við Breta og Íra.

Þetta er einn liðurinn í aukinni samvinnu þjóðanna við hin nyrstu höf og ég þykist vita að þessi till. verði samþykkt af öllum viðstöddum hv. alþm.