05.02.1987
Sameinað þing: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2783 í B-deild Alþingistíðinda. (2610)

215. mál, staða og þróun jafnréttismála

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Í desember s.l. var dreift til hv. þm. þremur skýrslum um jafnréttismál. Hér er um að ræða þskj. 231, um mat á heimilis- og umönnunarstörfum til starfsaldurs, þskj. 230, skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála, og síðast en ekki síst þskj. 229 sem er skýrsla félmrh. um framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna.

Það hefur orðið að samkomulagi að þskj. 229 og 230 verða tekin til umræðu í Sþ. í dag. Það fer vel á því að ræða þessi mál um svipað leyti og sá félagsskapur sem hvað mest hefur barist fyrir réttindum kvenna á Íslandi hefur haldið upp á 80 ára afmæli sitt. Hér er um að ræða Kvenréttindafélag Íslands sem átti 80 ára afmæli 27. jan s.l. Vil ég nota þetta tækifæri til að endurtaka heillaóskir til Kvenréttindafélag Íslands í tilefni afmælisins og þakkir fyrir brautryðjendastarf í 80 ár.

Herra forseti. Í inngangi skýrslunnar á þskj. 230 er vísað til 22. gr. laga nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þar er að finna ákvæði um skyldu félmrh. til að leggja á tveggja ára fresti skýrslu fyrir Alþingi um stöðu og þróun á sviði jafnréttis kvenna og karla hér á landi. Þetta ákvæði er eitt af nýmælum laganna. Það er á grundvelli þessa ákvæðis sem skýrsla sú sem hér er gefin hefur verið tekin saman. Við gerð hennar var höfð hliðsjón af samantekt Jafnréttisráðs sem studdist við upplýsingar úr bókinni „Konur hvað nú?" sem kom út á vegum '85-nefndarinnar og Jafnréttisráðs, „Könnun á stöðu íslenskra kvenna“ sem Jafnréttisráð gaf út 1985 og „Staðreyndir um stöðu kvenna á vinnumarkaðnum“ sem framkvæmdanefnd um launamál kvenna gaf út árið 1985. Auk þess er leitað fanga í hagskýrslum Framkvæmdastofnunar, Hagstofu Íslands og Þjóðhagsstofnunar.

Skýrslunni er skipt í nokkra kafla sem fjalla um afmörkuð svið. Fyrst er gerð grein fyrir löggjöf sem snertir stöðu kynjanna, næst fjallað um menntun, atvinnumál, stjórnmál, forustu og félagsleg atriði. Einnig er gerð stutt grein fyrir afskiptum félmrn. af jafnréttismálum og starfsemi Jafnréttisráðs.

Þar sem hér er um að ræða fyrstu skýrsluna af þessu tagi er í sumum tilvikum nauðsynlegt að gera grein fyrir þróuninni á vissum sviðum undanfarin ár og jafnvel s.l. áratugi. Í framtíðinni er þó hugmyndin að gera einungis grein fyrir helstu breytingum sem orðið hafa frá því skýrsla var síðast gefin út.

Í 2. kafla skýrslunnar er að finna yfirlit um þróun löggjafar hvað varðar jafnrétti kvenna og karla. Þar kemur fram að fyrstu heildarlögin um launajöfnuð kvenna og karla voru sett árið 1961. Í þeim var kveðið á um að laun kvenna í ákveðnum starfsstéttum skyldu hækka til jafns við laun karla á sex árum. Árið 1973 voru samþykkt lög um jafnlaunaráð. Þar voru tvær meginreglur lögfestar: Um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf og um að atvinnurekanda væri óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði. Þessi lög voru undanfari laga nr. 78/1976, um jafnrétti kvenna og karla. Í þessu sambandi má minna á að Alþingi hefur heimilað ríkisstjórninni að fullgilda ýmsar samþykktir sem snerta jafna stöðu kynjanna, svo sem mannréttindasáttmála Evrópu frá 1950, samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 100, um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf, og samþykkt nr. 111, um misrétti með tilliti til atvinnu og starfs. Loks er að nefna samning Sameinuðu þjóðanna frá 1979, um afnám allrar mismununar gagnvart konum, sem Ísland fullgilti árið 1985.

Árið 1985 voru þáttaskil í sambandi við löggjöf á sviði jafnréttismála. Alþingi samþykkti ný lög um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla. Í nýju lögunum er að finna mörg nýmæli frá eldri löggjöf.

Sem dæmi má benda á ákvæði 1. gr. Í eldri löggjöf var talað um að tilgangur laganna væri að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Í lögum nr. 65/1985 er komist skýrara að orði og talað um að tilgangur laganna sé að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Lögin fela í sér mikilvæga breytingu hvað varðar skipun Jafnréttisráðs. Samkvæmt 13. gr. er gert ráð fyrir að félagasamtök sem hafa jafnréttisbaráttu á dagskrá tilnefni fulltrúa í ráðið auk þeirra aðila sem áttu fulltrúa í Jafnréttisráði samkvæmt eldri lögum. Þessi breyting ætti að tryggja að í ráðinu sitji ævinlega fulltrúar sem hafa sérstakan áhuga á að vinna farsællega að þessum málum.

Um menntun er fjallað í 3. kafla skýrslunnar. Í honum kemur fram að menntun kvenna hefur aukist hröðum skrefum undanfarin ár. Þessu til stuðnings er bent á nokkur dæmi. T.d. kemur fram að meiri hluti þeirra sem skráðir eru í almennt nám á framhaldsskólastigi eru konur en í sérhæfðu námi á framhaldsskólastigi eru karlar í meiri hluta. Á undanförnum árum hafa þannig hlutfallslega fleiri konur en karlar útskrifast úr menntaskólum.

Árið 1944 útskrifuðust alls 114 stúdentar, 90 karlar og 24 konur. Í hlutfalli við tölu tvítugra voru karlarnir 7,5% en konur 2,1%. Tveimur áratugum seinna útskrifuðust samtals 333 stúdentar, 201 karl og 132 konur. Í hlutfalli við tölu tvítugra voru karlarnir 12,7% en konurnar 9%. Skólaárið 1983-1984 brautskráðust samtals 1591 stúdent, 634 karlar og 957 konur. Í hlutfalli við tölu tvítugra voru karlarnir 27,9% og konurnar 41,3%.

Sama þróun á sér stað hvað varðar innritun í Háskóla Íslands og lokapróf frá þeim skóla. Sem dæmi má benda á að árið 1974 luku samtals 169 lokaprófi frá Háskóla Íslands, 131 karl og 38 konur. Skólaárið 1982 luku samtals 391 lokaprófi frá Háskóla Íslands, 251 karl og 140 konur. Síðastliðið skólaár 1985/1986 luku samtals 546 lokaprófi frá Háskólanum, 313 karlar og 233 konur. Þessar tölur bera með sér að konum með háskólapróf hefur fjölgað verulega á síðustu árum og nálgast þær óðfluga það mark að vera helmingur þeirra sem ljúka lokaprófi frá Háskóla Íslands. Þótt þessi ánægjulega þróun hafi átt sér stað í Háskólanum þegar á heildina er litið segir hún ekki alla söguna um þróun jafnréttismála í einstökum deildum eða námsbrautum. Á síðustu árum hefur stór hluti kvenna útskrifast frá nýjum námsbrautum, t.d. námsbraut í hjúkrunarfræðum, sjúkraþjálfun og félagsráðgjöf, svo að dæmi séu nefnd. Þessar námsbrautir virðast því vera „kvennanámsbrautir“ og leiða til starfs í „kvennastarfsgreinum“

Skipting nemenda Kennaraháskóla Íslands eftir kynjum undanfarin 10 ár hefur verið mjög ójöfn. Árið 1977 hófu 39 karlar nám við skólann. Konur voru 115. Fimm árum síðar höfðu hlutföll kynjanna litið breyst. Karlar á fyrsta ári voru 25 og konurnar 104. Árið 1986 eru karlar á fyrsta ári 15 en konurnar 107. Þessar tölur úr Kennaraháskólanum staðfesta þá þróun sem átt hefur sér stað undanfarna áratugi að kennarastarfið er að verða eingöngu „kvennastarf“. Það þarf ekki að taka fram að með tilliti til jafnréttis kynjanna er þessi þróun óæskileg og brýnt að leita leiða til að breyta henni.

Heildartala þeirra kvenna sem stunda iðn- og tækninám hefur einnig aukist. Ef litið er til þeirra námsgreina á sviði iðn- og tæknimenntunar sem konur leggja stund á blasir við mynd hins kynskipta vinnumarkaðar. Í Tækniskóla Íslands heyrir það til undantekninga ef konur leggja stund á aðrar námsgreinar en meinatæknanám. Sömu sögu er að segja af iðnskólanámi. Það heyrir til undantekninga ef konur sækja inn í aðrar deildir en þær sem kenna iðngreinar sem leiða til hefðbundinna „kvennastarfa“ á vinnumarkaðinum. Þeir aðilar sem haft hefur verið samband við vegna samningar þessarar skýrslu telja að á undanförnum árum hafi orðið lítil breyting hér á. Skýringarnar á því hvers vegna erfitt hefur reynst að breyta þessu mynstri eru margar. Vafalaust felst ein af þeim veigameiri í ríkjandi hefðum í þjóðfélaginu. Einnig er starfsfræðsla í grunnskólum takmörkuð og að margra áliti ómarkviss að því er varðar jafna stöðu kynjanna. Þá hefur verið bent á að aðstæður á vinnustöðum, einkum verkstæðum í málmiðnaði, séu þröskuldur sem konum reynist erfitt að stiga yfir. Tækni til að flytja til þunga hluti sé ákaflega frumstæð og því reyni enn mikið á líkamsburði starfsmanna. Enn fremur verki annar aðbúnaður starfsmanna og umgengni letjandi á konur að leita sér vinnu í hefðbundnum karlaiðngreinum.

Þessi mynd úr iðnaðinum er síður en svo einsdæmi fyrir Ísland. Það sama er uppi á teningnum i öðrum löndum sem eru skyld Íslendingum í menningarlegu tilliti, t.d. Norðurlöndunum. Í því skyni að leita leiða til að breyta hefðbundnu starfsvali kvenna samþykktu jafnréttisráðherrar Norðurlanda að stofnað yrði til norræns samstarfsverkefnis á þessu sviði. Þetta verkefni hófst í desember 1985 og verður gerð nánari grein fyrir því síðar í þessari skýrslu.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að haustið 1983 skipaði ég nefnd fulltrúa aðila vinnumarkaðarins til að kanna áhrif nýrrar tækni á vinnumarkaðinn. Nefndin tók til sérstakrar umfjöllunar áhrif nýrrar tækni á stöðu kvenna í atvinnulífinu í næstu framtíð. Í áliti nefndarinnar er m.a. talin sérstök ástæða til að hyggja að stöðu kvenna. Þær gegni í ríkari mæli en karlar einhæfum störfum sem líklegt sé að leggist af eða breytist. Til að bæta stöðu kvenna þurfi að stuðla að því að atvinnuþátttaka þeirra verði fjölþættari og hvetja konur til að haga menntun sinni í samræmi við það.

Enn fremur segir í skýrslunni að mikilvægt sé að möguleikar nýrrar tækni verði nýttir til þess að gera vinnutímann sveigjanlegri þannig að foreldrar eigi þess kost að skipta með sér tekjuöflun og umönnun barna, eftir því sem best hentar hverju sinni. Einnig vekur nefndin athygli á því forskoti á vinnumarkaði sem karlmenn fá við brotthvarf kvenna af vinnumarkaðinum vegna meðgöngu og barnauppeldis á árum sem karlmenn fá tíðum mikilvæga þjálfun á vinnustað. Þessu vandamáli megi m.a. mæta með því að tryggja örugga uppeldisaðstöðu barna og jafna þátttöku foreldra í því starfi og aðstoð til endurþjálfunar.

4. kafli skýrslunnar fjallar um atvinnumál. Í honum er gerð grein fyrir hlutfalli þeirra kvenna sem eru á vinnumarkaðinum. Fram kemur að árið 1984 fengu 77,7% kvenna á aldrinum 20-60 ára einhverjar launatekjur. Árið 1960 var þetta hlutfall 31,4%.

Eitt af því sem mikið hefur verið til umræðu í þjóðfélaginu er launamunur kynjanna. Allt frá árinu 1961, þegar lög um launajöfnuð kvenna og karla voru sett, hefur verið unnið að því að jafna laun kynjanna. Sérstakir launataxtar fyrir konur heyra sem betur fer sögunni til. Hins vegar er ljóst að ekki hefur tekist að koma á fullum launajöfnuði kynjanna. Á þessu sviði hafa verið gerðar afmarkaðar rannsóknir sem fela í sér vísbendingu um verulegan mun á tekjum kynjanna. Brýna nauðsyn ber til að gera sem fyrst heildarúttekt á stöðu þessara mála. Rétt er að geta þess að forsrh. fól Þjóðhagsstofnun árið 1985 að framkvæma slíka úttekt. Því miður liggur niðurstaða hennar enn ekki fyrir. Ýmsir örðugleikar eru á slíkum samanburði, t.d. hvernig meta skuli vinnutíma, ábyrgð og fleira þess háttar. Í könnun sem kvennaársnefnd framkvæmdi 1976 kom fram að meðallaun kvenna reyndust vera 78,2% af meðallaunum karla á unna klukkustund. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að ársverk segir ekkert til um lengd vinnuviku fram yfir dagvinnu, en í skýrslunni kemur fram að vinnuvika karla er að meðaltali lengri en kvenna. Flestir sem hafa athugað þessi mál eru sammála um að þetta skýri ekki að öllu leyti þann mun sem er á launum karla og kvenna. Í könnunum hefur komið fram mikill launamunur kvenna og karla. Launamunur getur stafað af ýmsu, svo sem menntun, vinnutíma, starfsaldri o.fl., en ekki virðist hægt að skýra launamun kynjanna eingöngu á þann veg.

Ljóst er að hlutfallið á milli launa kvenna og karla hefur nær ekkert breyst á undanförnum árum og sýna kannanir að lítill munur virðist vera á stéttum hvað þetta varðar. Sem dæmi má nefna að verkakonur höfðu 13% lægra dagvinnutímakaup en karlar árið 1983. Á sama ári voru háskólamenntaðar konur í níu BHM-félögum með 17-32% lægri heildarlaun en karlar í starfi hjá hinu opinbera. Samkvæmt skattframtölum fyrir árið 1983 voru meðaltekjur kvenna 64,9% af meðaltekjum karla á ársverk. Meðallaun kvenna í bönkum voru árið 1984 75,1% af launum karla. Þetta eru einungis nokkur dæmi.

Meiri hluti kvenna starfar í ófaglærðum þjónustustörfum eða almennum skrifstofustörfum. Þær eru fáar í ábyrgðarstöðum sem veita framavonir. Kannanir sýna enn fremur að verkaskipting á heimilum hefur lítið sem ekkert breyst. Vinnuálag þar er mest hjá konum. Þessar niðurstöður segja að tvöfalt vinnuálag sé hlutskipti kvenna.

Þátttaka kvenna í atvinnulífinu þarf að verða fjölbreyttari samhliða endurnýjuðu mati á hefðbundnum störfum kvenna.

Í 5. kaflanum er fjallað um stjórnmálaforustu. Þar kemur fram að á stjórnmálasviðinu hefur þó nokkuð áunnist. Árið 1980 var Vigdís Finnbogadóttir kosin forseti Íslands sem væntanlega hefur breytt ímynd þjóðarleiðtoga í augum uppvaxandi kynslóða.

Hlutfall kvenna á Alþingi og í sveitarstjórnum hefur breyst á síðustu árum. Samanburður á hlutfallstölum eftir alþingiskosningar árið 1979 og 1983 sýna að hlutur kvenna hefur aukist úr 5% í 15%.

Hlutfall kvenna af heildarfjölda frambjóðenda í hlutbundnum sveitarstjórnarkosningum hefur farið stighækkandi frá árinu 1974. Þær voru það ár 16% af frambjóðendum, en samkvæmt nýjum bráðabirgðatölum voru þær 38% af frambjóðendum fyrir sveitarstjórnarkosningar árið 1986.

Hlutfall kvenna af kjörnum fulltrúum í kaupstöðum og kauptúnahreppum hefur einnig hækkað frá árinu 1974. Það ár voru þær 8,9% af kjörnum fulltrúum í kaupstöðum. Eftir sveitarstjórnarkosningar árið 1986 er hlutfall þeirra 28,8%. Sama þróun hefur átt sér stað í kauptúnahreppum. Árið 1974 voru konur 5% af kjörnum fulltrúum, en eftir sveitarstjórnarkosningar árið 1986 er hlutfalið 24,2%.

Þrátt fyrir meiri áhrif kvenna á Alþingi og í sveitarstjórnum er enn langt í land að konur hafi eðlileg áhrif á opinberar ákvarðanir í landinu. Reynslan sýnir að prófkjör stjórnmálaflokka hafa ekki megnað að auka að neinu marki hlutdeild kvenna í stjórn þjóðfélagsins.

Varðandi önnur forustustörf má nefna að konur í Stjórnarráði Íslands voru árið 1976 43% starfsmanna en árið 1984 hafði þeim fjölgað í 53%. Konum sem gegna ábyrgðarstörfum í stjórnarráðinu hefur fjölgað og nýlega var kona skipuð hæstaréttardómari.

Á hinum almenna vinnumarkaði er nánast sömu sögu að segja en erfiðara er að fá um það greinargóðar upplýsingar. Sem dæmi má nefna að konur veittu fyrirtækjum í Félagi ísl. iðnrekenda forstöðu í 5% tilvika árið 1985 og í Háskóla Íslands eru prófessorar 82, þar af tvær konur.

Í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkisins voru konur árið 1983 u.þ.b. 9%. Í 12. gr. laga nr. 65 1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir: „Leitast skal við að hafa sem jafnasta tölu kynjanna í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka þar sem því verður við komið.“ Hér er augljóslega átaks þörf. Konur eru fjölmennastar í nefndum á vegum heilbr.og trmrn., félmrn. og menntmrn. Í nefndum á vegum annarra ráðuneyta er að finna mjög fáar konur.

Í hagsmunasamtökum hefur konum í stjórnum og öðrum ábyrgðarstöðum fjölgað til muna en hlutfall þeirra er engan veginn í samræmi við heildarhlutfall þeirra innan samtakanna. Sem dæmi má nefna að í BSRB eru konur um 61% félagsmanna um áramótin 1983-1984 en í stjórn samtakanna árið 1982 voru konur einungis 36% stjórnannanna.

6. kaflinn er um ýmsa félagslega þætti sem snerta jafnréttismál. Í honum er vakin athygli á ýmsum breytingum sem orðið hafa í þjóðfélaginu og hafa áhrif á jafnrétti kynjanna. Helsta breytingin er fólgin í aukinni menntun og atvinnuþátttöku kvenna samfara tæknivæðingu og ýmiss konar sérhæfingu. Þjóðfélagið verður því að laga sig að breyttum aðstæðum.

Aukin atvinnuþátttaka kvenna hefur gert það að verkum að börn þurfa gæslu utan heimilis. Uppbygging dagvistarstofnana hefur verið hægari en þörfin gefur tilefni til og mörg sveitarfélög eiga langt í land með að anna eftirspurn. Enn er rými á leikskóla algengast. Í stærstu sveitarfélögunum geta einungis forgangshópar, þ.e. einstæðir foreldrar og námsmenn, komið börnum sínum í heilsdagsvist á dagvistarheimilum. Ástæða er til að ætla að skortur á heilsdagsvist sé ein af ástæðum þess hversu algeng hlutastörf eru meðal giftra kvenna, sem svo aftur háir þeim við stöðuveitingar.

Brýna nauðsyn ber til að komið verði á samfelldum skóladegi í grunnskólum landsins með skólamáltíðum og aðstöðu til heimanáms innan veggja skólans. Útivinna beggja foreldra er staðreynd og því mikilvægt að litið verði á grunnskóla landsins sem eðlilegan starfs- og leikvettvang barna yfir daginn með nauðsynlegri gæslu. Menntmrh. skipaði 12. júlí 1983 vinnuhóp til að athuga „tengsl fjölskyldu og skóla og gera tillögur um hvernig bæta megi þau tengsl“. Hópnum var falið að athuga hvernig samræma mætti betur vinnutíma foreldra og skólabarna og skynsamlegt fyrirkomulag nestismála. Vinnuhópurinn hefur skilað tveimur álitum. Menntmrn. gaf álitin út, það fyrra í október 1984 og það síðara í janúar 1986. Meginniðurstaða hópsins er sú að stefnt skuli að samfelldri viðveru nemenda í grunnskólum.

Barneignum hefur fækkað mjög á undanförnum árum. Á árunum 1966-1970 gat hver kona búist við að fæða á ævi sinni 3,1 lifandi börn. Árið 1983 hafði talan lækkað í 2,2 og 1985 í 1,9. Eftir tvo til þrjá áratugi mun minnkuð fæðingartíðni valda fækkun í árgöngum fólks á barneignaaldri, 20-30 ára, en samtímis mun fjöldi roskins og aldraðs fólks fara hlutfallslega vaxandi og þar af leiðandi einnig tala þeirra sem deyja á ári hverju. Það gefur auga leið að þessi þróun hefur margvísleg áhrif á þjóðfélagið, t.d. á stöðu lífeyrissjóða. Augljóslega helst þessi þróun í hendur við skilyrði kvenna til að fæða börn, þegar þær eru auk þess virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Þriggja mánaða fæðingarorlof er allt of stuttur tími fyrir foreldra með nýfætt barn. Sveigjanlegur vinnutími er auk þess æskilegur í þessu sambandi. Ákvæði laganna um fæðingarorlof eru nú á lokastigi endurskoðunar.

Í 7. kaflanum er fjallað um afskipti félmrn. af jafnréttismálum. Þau hafa farið vaxandi á þessu kjörtímabili. Sérstök ástæða er til að vekja athygli á því sem segir um aðild Íslands að norrænu samstarfsverkefni sem hefur það að markmiði að stuðla að fjölbreyttari atvinnuþátttöku kvenna og hamla gegn þeirri þróun að störf skiptist í kvenna- og karlastörf og nefnist sú athugun „Brjótum múrana“. Um er að ræða þriggja ára verkefni og er það framkvæmt samtímis í einu sveitarfélagi í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Á Íslandi ákváðum við að Akureyri yrði fyrir valinu. Norræna ráðherranefndin greiðir stærsta hluta kostnaðarins við framkvæmd þess, þar með talin hálf laun verkefnisstjóra, en félmrn. greiðir hálf laun til viðbótar þannig að verkefnisstjóri er í fullu starfi. Íslenskur verkefnisstjóri var ráðinn frá og með 1. des. 1985 til að sjá um framkvæmdir og athuganir hér á landi. Fyrir valinu varð Valgerður H. Bjarnadóttir sem hefur sýnt mikinn dugnað og útsjónarsemi í starfinu. Rétt er að geta þess að bæjarstjórn Akureyrar hefur með ýmsum hætti lagt þessu máli lið, m.a. séð verkefnisstjóranum fyrir vinnuaðstöðu og veitt annan beinan og óbeinan stuðning. Ráðuneytið hefur skipað sérstaka ráðgjafarnefnd verkefnisstjóranum til aðstoðar. Ráðgjafarnefndin gegnir einnig því hlutverki að skapa tengsl milli verkefnisstjórans og þeirra aðila sem samkvæmt eðli málsins tengjast framkvæmd verkefnisins. Formaður ráðgjafarnefndarinnar er Ólöf Pétursdóttir, formaður Jafnréttisráðs. Auk hennar eiga sæti í ráðgjafarnefndinni fulltrúar frá félmrn., menntmrn., Akureyrarbæ og aðilum vinnumarkaðarins. Einnig situr Elsa Þorkelsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisráðs, í nefndinni en hún á sæti í norrænu jafnréttisnefndinni sem hefur yfirumsjón með framkvæmd verkefnisins í öllum löndunum. Ég vil geta þess að framkvæmd þessa verkefnis hér á landi hefur vakið verðskuldaða athygli á hinum Norðurlöndunum til fyrirmyndar.

Á árinu 1985 átti félmrn. hlut að því að senda sendinefnd á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Nairobi í Kenýa. Ráðuneytið kostaði för fjögurra fulltrúa af fimm. Meginverkefni ráðstefnunnar var að gera áætlun um framhald þeirra verkefna sem hafist var handa um á kvennaárinu. Lögð var fram viðamikil framkvæmdaáætlun í 373 greinum sem gilda skal til aldamóta. Samþykkt var að halda aftur ráðstefnu um stöðu kvenna að 15 árum liðnum, á árinu 2000. Sendinefnd Íslands skipuðu Sigríður Snævarr, formaður, Esther Guðmundsdóttir, Gerður Steinþórsdóttir, Guðríður Þorsteinsdóttir og María Pétursdóttir.

Félmrn. hefur átt aðild að fleiri verkefnum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem snerta jafnréttismál. Benda má á fullgildingu Íslands í júní 1985 á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Í honum eru ákvæði sem skylda stjórnvöld til að koma á jafnri stöðu kynjanna í reynd. Þar er einnig að finna ákvæði sem heimilar sérstakar tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna. Ráðuneytið átti einnig aðild að samþykkt sérstakrar ályktunar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um jafnréttismál sem tekin var til afgreiðslu á 71. alþjóðavinnumálaþinginu í Genf í júní 1985. Gerð er grein fyrir ályktuninni í skýrslu um vinnumálaþingið sem félmrn. gaf út í mars 1986.

Hinn 4. mars 1986 var haldinn fyrsti fundur evrópskra jafnréttisráðherra. Evrópuráðið var fundarboðandi og var fundurinn haldinn í húsakynnum ráðsins í Strasbourg. Viðfangsefni fundarins var aukin hlutdeild kvenna í stjórnmálum og ákvarðanatöku í þjóðfélaginu. Félmrh. sat þennan fund fyrir hönd Íslands. Auk hans sat fundinn Gylfi Kristinsson, deildarstjóri í félmrn. Fulltrúar frá öllum aðildarríkjum Evrópuráðsins tóku þátt í ráðherrafundinum. Auk þeirra sátu fundinn fulltrúar frá Finnlandi, Kanada, Júgóslavíu og nokkrum alþjóðastofnunin, samtals 105 fulltrúar. Fundinum lauk með ítarlegri ályktunartillögu. Í henni lýsa jafnréttisráðherrarnir yfir þeirri skoðun sinni að virk þátttaka kvenna og karla í stjórnmálum sé mikilvægt skilyrði fyrir þróun og framgang jafnréttis. Ráðherrarnir hvetja aðildarríki Evrópuráðsins til að beita sér fyrir aðgerðum á öllum sviðum þjóðlífsins sem stuðli að jafnrétti kynjanna og þá sérstaklega þeim sem hafa að markmiði að auka hlutdeild kvenna í stjórnmálum og annarri ákvarðanatöku í þjóðfélaginu. Samkvæmt tillögunni er einnig lagt fyrir Evrópuráðið að stofna til funda og styðja rannsóknarverkefni sem sé liður í framkvæmd ofangreindrar stefnu á starfstímabili ráðsins 1987-1991.

Á yfirstandandi kjörtímabili hefur af hálfu félmrn. verið lögð aukin áhersla á samstarf við hinar Norðurlandaþjóðirnar á sviði jafnréttismála. Sóttir hafa verið fundir norrænna jafnréttisráðherra og fundir sem norræna embættismannanefndin sem fjallar um jafnréttismál hefur gengist fyrir.

Á fundi norrænna jafnréttisráðherra sem haldinn var í Stokkhólmi í nóvember s.l. var samþykkt að halda stóra norræna kvennaráðstefnu í Osló á árinu 1988. Gert er ráð fyrir að nokkur hundruð fulltrúar taki þátt í þeirri ráðstefnu.

Í 8. kafla skýrslunnar er gerð grein fyrir starfsemi Jafnréttisráðs með setningu laga nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, og voru verkefni Jafnréttisráðs aukin til muna. Verkefni ráðsins eru rakin í 15. gr. jafnréttislaganna.

Á vegum Jafnréttisráðs starfar sjö manna ráðgjafarnefnd og skal hún vinna að sérstökum verkefnum skv. nánari ákvörðun Jafnréttisráðs.

Fjárveitingavaldið hefur í ár tekið nokkurt mið af auknum umsvifum Jafnréttisráðs. Í fjárlögum ársins 1987 eru ráðinu ætlaðar tæplega 3,6 millj. kr. og er það um 40% hækkun frá árinu 1986. Ég vil taka fram að mjög gott og skipulagt samstarf hefur verið á milli Jafnréttisráðs og félmrn.

Herra forseti. Ég hef í ræðu minni gert grein fyrir helstu atriðum sem koma fram í þskj. 230 sem hefur að geyma skýrslu um stöðu jafnréttis kvenna og karla á Íslandi. Fjölmörg brýn verkefni bíða úrlausnar á þessu sviði. Þar er mikilvægast að eyða því launamisrétti sem er við lýði á milli kynjanna. Í því sambandi þarf að brýna fyrir konum að sækja inn í mun fleiri starfsgreinar en nú er. Hér getur norræna verkefnið á Akureyri orðið að liði. Konur þurfa einnig að láta meira til sín taka á sviði stjórnmála, bæði með því að gefa kost á sér til setu á Alþingi og ekki síður í sveitarstjórnum.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns er gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra flytji skýrslu sem þessa á tveggja ára fresti. Þá má minna á það að ríkisstjórnin hefur samþykkt framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Ég hef því ástæðu til að ætla að næsta skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála beri með sér að okkur hafi miðað verulega áleiðis að því markmiði að fullt jafnrétti ríki á milli kynjanna.