05.02.1987
Sameinað þing: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2791 í B-deild Alþingistíðinda. (2611)

215. mál, staða og þróun jafnréttismála

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. félmrh. fyrir þessa skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála. Eins og fram kemur í inngangi að skýrslunni er skýrslan og framkvæmdaáætlunin um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna, nú hvort tveggja lagt hér fram í samræmi við þær endurbætur sem gerðar voru á jafnréttislögunum vorið 1985. Þetta ákvæði laganna er ein af þeim þremur breytingum sem gerðar voru og verulega horfa til bóta á jafnréttislöggjöfinni, sem í rauninni skipta einhverju máli. Þessi breyting gerir það að verkum að hér á Alþingi gefst færi á að ræða stöðu og þróun jafnréttísmála og þær framkvæmdir sem ríkisstjórnin hefur í hyggju á þessu sviði hverju sinni og er það vissulega vel.

Hinar breytingarnar, sem til bóta horfðu í jafnréttislögunum sem samþykkt voru vorið 1985, varða rýmkun á málshöfðunarrétti Jafnréttisráðs og að heimilt er samkvæmt gildandi lögum að grípa til sérstakra tímabundinna aðgerða sem ætlað er að bæta stöðu kvenna og koma á jafnrétti kynjanna. Þessar þrjár breytingar eru tvímælalaust af hinu góða en vitaskuld þarf miklu meira að koma til en lagabókstafur um jafnrétti kvenna og karla ef það jafnrétti á einhvern tímann að verða að veruleika.

Hér á landi hafa verið í gildi lög um jafnan rétt karla og kvenna frá árinu 1976, eins og rakið er í 2. kafla þessarar skýrslu, og við vitum að þessi lög ein og sér megna afskaplega litið þegar kemur að framkvæmdum. Jafnréttislög byggja ekki dagvistarheimili, þau afnema ekki það kynbundna launamisrétti sem nú er við lýði á vinnumarkaðinum, þau endurmeta ekki störf kvenna, þau lengja ekki fæðingarorlof, svo að eitthvað sé nefnt af því sem í raun og veru skiptir máli fyrir konur og skiptir máli í því að ná fram jafnri stöðu kvenna og karla. Ég nefni þetta hér vegna þess að sú skýrsla sem við erum að ræða byggir á grunni þessara laga. Þau eru ágæt í sjálfu sér en það er framkvæmdin sem öllu máli skiptir.

Í 2. kafla þessarar skýrslu er rætt nokkuð um þau nýju jafnréttislög sem ég hef hér gert að umtalsefni. Og eins og segir í þessum kafla, þá er tekið fram í lögunum að tilgangur þeirra sé að „koma á“ jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla og kemur það í staðinn fyrir „að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla“ eins og var í eldri lögunum. Þarna er vissulega um mikilvæga breytingu að ræða einnig. En þarna komum við aftur að framkvæmdaatriðinu vegna þess að á meðan frumkvæði af hálfu stjórnvalda er ekkert í þá veru að koma á jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla, t.d. með því að stuðla að því með einhverjum hætti að afnema launamisréttið, með því að byggja fleiri dagvistarheimili, með því að lengja fæðingarorlof svo dæmi séu nefnd, erum við engu bættari þótt í jafnréttislögunum standi „að koma skuli á jafnrétti“ í staðinn fyrir að „stuðla skuli að jafnrétti“.

Í lokaorðum þessa kafla um löggjöf segir: „Á þennan hátt leggja nýju lögin ríkari ábyrgð á herðar stjórnvöldum en áður hvað varðar jafnrétti kynjanna.“ Þetta er alveg rétt. Ég hef hins vegar ekki orðið vör við það á þeim tæpum tveimur árum sem þessi lög hafa verið í gildi að einhver breyting hafi orðið á hjá stjórnvöldum í þessu efni. Ég hef ekki orðið vör við það hér í þingsölum að komið hafi fram lagafrv. eða þingmál sem á einn eða annan hátt miða að þessu marki. Ég spyr hæstv. félmrh.: Hvar eru málin, hvar eru frv., hvar eru aðgerðirnar sem eiga að koma á jafnri stöðu kvenna og karla? Við getum rætt það nánar þegar kemur að umræðum um framkvæmdaáætlunina hér á eftir því að þar er gerð grein fyrir einstökum málum sem stjórnvöld vilja beita sér fyrir en þau hafa ekki komið fram og þau eru enn sem komið er ekki sýnileg. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hvað líður framlagningu mála sem taka á þessum hlutum? Hvenær er þeirra að vænta og hvernig verða þau? Um hvað fjalla þau?

Í þriðja kafla þessarar skýrslu er fjallað um menntun. Þar kemur fram að miklar breytingar hafa orðið á undanförnum árum á menntun kvenna. Menntun kvenna hefur stóraukist, einkum og sér í lagi á háskólastigi. Þangað sækja nú mun fleiri konur til náms en áður var og eins og segir í skýrslunni gefa hagskýrslur til kynna að munur á menntun karla og kvenna fari hraðminnkandi hérlendis. Þetta er rétt og þetta er sannarlega vel því að í menntun felast margvísleg gæði sem seint verða metin á einhverjum vogarskálum. En hér er ástæða til að spyrja: Er mennt máttur eins og orðtakið segir? Í þessum kafla hefði ég viljað sjá að tengd væru saman aukin menntun kvenna og staða kvenna á vinnumarkaðnum því að á undanförnum árum hafa komið fram hámenntaðar láglaunastéttir kvenna. Þess vegna er ástæða til að spyrja: Er mennt máttur? Hún virðist ekki vera það þegar konur eiga í hlut. Og ég held að við þurfum að velta því vandlega fyrir okkur, hvernig á þessu stendur. Hvernig stendur á því að við höfum núna hámenntaðar konur úti á vinnumarkaðnum sem bera mjög skarðan hlut frá borði launalega? Þar má nefna hjúkrunarfræðinga, það má nefna kennara, það má nefna ljósmæður og margar fleiri stéttir. Þetta er fyrirbrigði sem er þekkt víðar en hér á landi. Mér kemur í hug eitt dæmi og það er frá Sovétríkjunum. Þar eru konur læknar að miklum meiri hluta og þar er það að vera læknir láglaunastarf. Hér eru karlar yfirleitt læknar en hér er það að vera læknir hálaunastarf. Þannig að það er alveg greinilega ekki menntunin, hvorki hér né þar, sem skiptir máli í þessu tilviki, heldur hvers kyns viðkomandi einstaklingar eru, hvers kyns stéttin er ef svo má segja, hvort konur eru þar í meiri hluta eða karlar. Á þessu hefði þurft að taka í þessari skýrslu og tengja þennan kafla um menntunarmál við þá staðreynd sem blasir við á vinnumarkaðnum hvað menntun og mat á menntun varðar.

Það sem hér er á ferðinni er að störf kvenna, hver sem þau eru, hvort sem þau krefjast langskólamenntunar eða ekki, eru greinilega vanmetin. Það færir okkur yfir í næsta kafla, um atvinnumál, þar sem talað er sérstaklega um launamuninn og um hugmyndir um hvernig ráða megi bót á honum. Áður en þar að kemur langar mig að huga aðeins að síðari hluta þessa kafla, um menntun. Í síðari hlutanum er talað um iðn- og tækninám og þar kemur fram að konur sækja í ákveðnar greinar í iðn- og tækninámi, greinar sem leiða til hefðbundinna kvennastarfa. Og það bregður svo við að þegar verið er að ræða um iðn- og tækninám þá er það tengt vinnumarkaðnum í þessari skýrslu. Í skýrslunni eru einnig settar fram nokkrar hugsanlegar skýringar á því hvernig á því stendur að konur sæki í ákveðnar námsgreinar í iðn- og tækninámi sem leiða til ákveðinna starfa sem eru kvennastörf. Ástæðurnar sem eru nefndar í skýrslunni eru t.d. hefðir í þjóðfélaginu og það er vissulega sterkur þáttur og örugglega mjög mikilvægur í þessu. Starfsfræðsla í grunnskólum er nefnd. Það er rétt, hún er mjög takmörkuð þrátt fyrir að það hafi verið í lögum síðan 1976 að jafnréttisfræðslu skuli miðlað í skólum og þar hlýtur starfsfræðsla að koma inn í. Aðstæður á vinnustöðum eru nefndar og svo þessi klassíska ástæða sem við könnumst öll við: Það eru líkamsburðir, að mismunur á líkamsburðum kvenna og karla valdi því að konur og karlar sæki í mismunandi störf. Þessar ástæður má allar til sanns vegar færa en það gleymist þarna ein veigamikil ástæða sem er einfaldlega áhugasvið kvenna, hvað konur hafa áhuga á að gera, hverju þær vilja sinna. Það er eitt af því sem liggur alveg örugglega til grundvallar starfsvali kvenna. Áhuginn mótast í uppeldi, mótast af aðstæðum, og því sem konur hafa tækifæri til að tileinka sér. Ég held að við verðum að taka það með í reikninginn að konur og karlar hugsa ekki nákvæmlega eins, hafa ekki áhuga á sömu hlutum og að það er eitt af því sem gerir það að verkum að starfsval kvenna og karla skiptist nokkuð í tvö horn. Ég er ekki viss um að það sé neitt slæmt og kem að því á eftir þegar kemur að atvinnumálunum.

Í lok kaflans um menntun er fjallað um nefnd fulltrúa aðila vinnumarkaðarins sem félmrh. skipaði haustið 1983 og hafði það verkefni að kanna áhrif nýrrar tækni á vinnumarkaðnum. Nefndin vekur athygli á, eins og segir í skýrslunni með leyfi forseta, „því forskoti á vinnumarkaði sem karlmenn fá við brotthvarf kvenna af vinnumarkaðinum vegna meðgöngu og barnauppeldis á árum sem karlmenn fá tíðum mikilvæga þjálfun á vinnustað. Þessu vandamáli megi m.a. mæta með því að tryggja örugga uppeldisaðstöðu barna og jafna þátttöku foreldra í því starfi.“ Því er ég sammála. Ég er hjartanlega sammála því að örugg uppeldisaðstaða fyrir börn er ákaflega mikilvæg og eins jöfn þátttaka foreldra í uppeldisstarfi þótt því verði náttúrlega aldrei komið á með lagaboði. Til þess þarf hugarfarsbreytingu.

Ég vil benda hæstv. félmrh. á það að frá því á fyrstu dögum þessa þings hefur legið fyrir frv. til laga um rétt foreldra til leyfis frá störfum vegna umönnunar barna. Þetta er 10. mál þessa þings og það felur í sér að foreldri sem beiðist lausnar frá starfi sínu til að annast barn sitt á rétt á að ganga aftur að sama starfi og sömu kjörum allt að tveimur árum frá fæðingu barnsins. Þetta frv. tekur til atvinnuöryggis foreldra ungra barna og miðar að því að tryggja það að foreldri sem vill hverfa af vinnumarkaði til að sinna börnum á fyrstu tveimur æviárum barnsins geti gengið að starfi sínu vísu aftur. Þetta er mjög mikilvægt fyrir konur sem eru í meiri hluta þeirra sem hverfa af vinnumarkaði til þessara hluta. Þetta er mjög mikilvægt til þess að konur hafi færi á að byggja upp atvinnuferil sinn jafnt og karlar. Rétt eins og kemur fram í skýrslu hæstv. félmrh. er þetta eitt af þeim atriðum sem hamla konum og draga úr launum þeirra. Nú vil ég spyrja hæstv. félmrh. að því hvort hann sé sammála þessu frv. og muni ljá því fylgi sitt hér á Alþingi. Það rímar í einu og öllu við það sem fram kemur í skýrslu ráðherrans. Ég vil gjarnan fá að vita hvaða afstöðu hann hefur til þess, hvort hugur fylgir máli, hvort þessi skýrsla er tómur bókstafur á pappír eða hvort til stendur að gera eitthvað í þeim málum sem hún tekur til.

Þá er það kaflinn um atvinnumál. Í honum er fyrst bent á gífurlega aukningu á atvinnuþátttöku kvenna hér á landi sem svo sannarlega hefur vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum. Eftir því sem ég hef haft tækifæri til að kynna mér mun þessi mikla atvinnuþátttaka kvenna hérlendis vera einsdæmi í nágrannalöndunum. Síðan segir í skýrslu ráðherra: „Hins vegar er ljóst að ekki hefur tekist að koma að fullu á launajöfnuði kynjanna.“ Snöfurlega sagt og sérstaklega þessi orð „að fullu“ vegna þess að bilið er svo breitt að það verður varla brúað í einu skrefi. Síðan segir hér: „Á þessu sviði hafa verið gerðar afmarkaðar rannsóknir sem fela í sér vísbendingu um verulegan mun á tekjum kynjanna. Brýna nauðsyn ber til að gera sem fyrst heildarúttekt á stöðu þessara mála.“ Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. hvort þeir sem sömdu þessa skýrslu hafi ekki haft skýrslu Byggðastofnunar, Vinnumarkaðurinn 1984, mannafli, meðallaun, atvinnuþátttaka, tiltæka. Hún kom út í febrúar 1986, fyrir ári. Í þessari skýrslu er að finna margvíslegar upplýsingar um launamun kvenna og karla. Þar kemur m.a. fram að karlar höfðu að meðaltali 57% hærri laun á ársverk en konur árið 1984 og að það eru aðeins 14 ára unglingspiltar og 75 ára karlar og eldri sem fá lægri meðallaun á ársverk en sem nemur meðallaunum allra kvenna. Í þessari skýrslu liggja upplýsingarnar á borðinu og eftir því sem ég best veit er Byggðastofnun að vinna að svipaðri skýrslu fyrir vinnumarkaðinn árið 1985 og munu tölurnar litið hafa breyst frá því sem var árið 1984. Við höfum upplýsingar um hvernig ástandið er á vinnumarkaðnum. Vissulega er alltaf gott að fá meiri og betri upplýsingar, en upplýsingaskortur hamlar ekki því að við getum strax tekið til hendinni og reynt að taka á hinu kynbundna launamisrétti. Þess vegna held ég að það sé rétt að gjalda varhug við því, sem segir hér í skýrslu hæstv. félmrh., „að brýna nauðsyn beri til að gera enn frekari athuganir.“ Frekari athuganir eru ágætar, en við höfum þegar nógu mikið af upplýsingum í höndunum, nógu mikið af athugunum til að hægt sé að hefjast handa strax. Upplýsingaskorturinn þarf ekki að hamla því.

Síðan kemur fram í skýrslunni að forsrh. hafi falið Þjóðhagsstofnun árið 1985 að framkvæma úttekt á stöðu mála hvað varðar launamismun kvenna og karla og að því miður liggi niðurstaða þessarar úttektar ekki enn fyrir. Þessi úttekt er til komin vegna þess að þingkonur á Alþingi Íslendinga sameinuðust um að fara fram á þessa könnun, fara fram á þessa úttekt. Það eru tvö ár liðin síðan forsrh. fól Þjóðhagsstofnun að gera þessa úttekt. Og nú vil ég spyrja hæstv. félmrh.: Hvað tefur? Er það það að Þjóðhagsstofnun setji önnur mál í forgang eða hvað er það sem veldur því að þessi könnun er ekki fram komin? Tvö ár er býsna langur tími til að framkvæma könnun á launamismun kvenna og karla. Að kalla eftir frekari upplýsingum er því hálfinnantómt í mínum eyrum. Það hefur verið kallað eftir upplýsingum, það hefur verið farið fram á að þær verði unnar, þær hafa ekki allar komið fram, það hefur þó töluvert af upplýsingum komið fram, nóg til þess að hægt er að hefjast handa, þannig að nú spyr ég hæstv. félmrh.: Hvað hamlar því að hann hefjist handa nú þegar?

Ég vil bæta því við hvað varðar launamisréttið að þótt það sé ágætt að fá frekari upplýsingar eru þetta auðvitað mál sem þola enga bið. Við vitum að það er ekki verjandi fyrir þjóð sem þykist vera jafnréttissinnuð að launabilið milli karla og kvenna sé jafnmikið og raun ber vitni. Við vitum líka að á 26 500 kr. á mánuði er ekki hægt að lifa. Það eru þau lágmarkslaun sem samið var um í síðustu kjarasamningum og það munu vera konur sem í miklum meiri hluta taka þau laun. Við vitum að neyðarástand er að skapast víða í þjóðfélaginu vegna hinna lágu launa kvenna. Það nægir að nefna dagvistarheimili hér í Reykjavíkurborg t.d. Þar hafa fóstrur sagt upp störfum. Og það nægir að nefna sjúkrahúsin þar sem sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar og aðrar láglaunakvennastéttir hugsa sér nú til hreyfings og hafa efnt til fjöldauppsagna. Þetta eru mál sem þola enga bið. Á þeim verður að taka undir eins.

Síðan segir í skýrslunni: „Meiri hluti kvenna starfar í ófaglærðum þjónustustörfum eða almennum skrifstofustörfum. Þær eru fáar í ábyrgðarstöðum sem veita framavonir.“

Nú vil ég varpa fram þeirri spurningu hér: Hvað er ábyrgð? Þau störf sem konur gegna á vinnumarkaði eru að miklum meiri hluta umönnunar-, uppeldis- og þjónustustörf. Og er það ekki ábyrgðarhluti að þjónusta, annast um og ala upp? Það hefði ég haldið. Ég held að það sé löngu tímabært að setja spurningarmerki við þann viðtekna skilning sem er að finna í þessari skýrslu og almennt í þjóðfélaginu á því hvað er ábyrgð og hvað er ekki ábyrgð. Ég vil nefna það í sambandi við launaflokka og ábyrgðarmat að fóstra á barnaheimili, sem gætir barna allan daginn, er í sama launaflokki hjá Reykjavíkurborg og maður sem gætir verkfæra í áhaldageymslu. Það er metið jafnmikil ábyrgð að gæta verkfæra og gæta barna. Og ég vil nefna annað dæmi: Meindýraeyðir og ljósmóðir eru í sama launaflokki. Þessi tvö störf eru metin jöfn að ábyrgð. Og nú vil ég spyrja þá hv. þm. sem hér sitja: Er ekki eitthvað bogið við þetta ábyrgðarmat og er ekki kominn tími til að setja við það spurningarmerki?

Síðan segir í skýrslu ráðherra: „Kannanir sýna enn fremur að verkaskipting á heimilum hefur lítið sem ekkert breyst. Vinnuálag er þar mest hjá konum.“ Tvöfalt vinnuálag er hlutskipti æ fleiri kvenna og þetta er rétt. Þetta er sannarlega rétt. Ég gef hæstv. félmrh. rós í hnappagatið fyrir að hafa þetta hér.

En síðan segir: „Þátttaka kvenna í atvinnulífinu þarf að verða fjölbreyttari samhliða endurnýjuðu mati á hefðbundnum störfum kvenna. Norræna samstarfsverkefnið á sviði jafnréttismála, sem áður er vikið að, hefur þetta m.a. að markmiði.“

Það er öruggt mál að þetta verkefni mun ekki verða til þess að tvöfalda vinnuálagið breytist. Til þess þarf hugarfarsbreytingu sem aðeins kröftug umræða um kvenfrelsis- og jafnréttismál getur komið í kring.

En hvað varðar þetta norræna samstarfsverkefni á sviði jafnréttismála og þá áherslu sem er að finna í þessari skýrslu á það að lausnina á launamisréttinu sé að finna í því „að brýna fyrir konum að sækja inn í mun fleiri starfsgreinar en nú er“, eins og segir í niðurlagi skýrslunnar, þá er ég því ósammála. Ég held að það sé engin lausn á launamisréttinu að konur tileinki sér karlastörfin. Þarna er aftur spurning um gildismat. Skoðun okkar Kvennalistakvenna er sú að potturinn sé brotinn að því leytinu til að kvennastörfin eru miklu lakar metin en karlastörfin. Því sé lausnin sú að meta kvennastörfin hærra, að greiða það sama fyrir kvennastörfin og fyrir karlastörfin. Ekki sú að senda konur inn í karlastörfin. Þá má líka spyrja í framhaldi af því: Hver á að vinna kvennastörfin? Eiga þau áfram að vera láglaunastörf? Hver á að vinna þau? Ekki hverfa þau við það að konur tileinki sér karlastörf. Þetta er spurning um verðmætamat. Þetta er spurning um að meta þau störf sem unnin eru í þjóðfélaginu að verðleikum og jafnt hvort sem um konur eða karla er að ræða.

Markmiðum þessa norræna samstarfsverkefnis, „Brjótum múrana“, er ég og við Kvennalistakonur því ekki sammála. Við erum ekki sammála því að í þessu felist einhver lausn. Ég bendi einnig á að þessi áhersla í skýrslunni rímar engan veginn við það sem segir í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Þar segir í lið 2.4, nýtt starfsmat:

„Hið opinbera og aðilar vinnumarkaðarins sjái um að fram fari nýtt starfsmat þar sem endurskoðað verði sérstaklega mat á hefðbundnum kvennastörfum annars vegar og störfum sem karlar vinna almennt hins vegar, t.d. ýmis iðnaðarstörf, tæknistörf o.fl. Við mat á starfsreynslu skal tekið tillit til heimilis- og umönnunarstarfa.“

Þetta segir í framkvæmdaáætluninni, með leyfi forseta, og þessu er ég innilega sammála. Þetta er leiðin, hæstv. ráðh. Í þessari grein í framkvæmdaáætluninni er verulegur fengur. Þess vegna spyr ég: Hvers vegna í ósköpunum er þá aðra áherslu að finna í skýrslunni sjálfri þar sem áhersla er lögð á að konur þurfi að auka fjölbreytni í starfsvali og fara inn í karlastörfin? Þetta gengur ekki upp. Þetta passar ekki saman. Og ég vona að hæstv. ráðh. svari mér því hér á eftir hvorn pólinn í hæðina hann hyggist taka í þessum efnum. Þeir eru báðir á ferðinni í skýrslu hans og framkvæmdaáætlun og ekki fara þeir saman. Annan hvorn pólinn verður að velja.

Síðan kemur kafli í skýrslu hæstv. ráðh. um stjórnmál og forustu og þar er rakinn sorglega lítill hlutur kvenna á þessum sviðum. Hæstv. ráðh. gerði grein fyrir efni þessa kafla áðan og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það. Þó sleppti hann tveimur línum sem ég sé ástæðu til að minna sérstaklega á. Hér segir:

„Í sveitarstjórnarkosningunum árið 1982 og alþingiskosningunum árið 1983 komu fram sérframboð kvenna sem virðast hafa haft áhrif á alla flokka að fjölga konum á framboðslistum sínum.“

Hér er svo sannarlega sannmælis gætt hjá hæstv. ráðh. og ég gef honum aðra rós í hnappagatið fyrir það.

Síðan segir: „Þrátt fyrir meiri áhrif kvenna á Alþingi og í sveitarstjórnum er enn langt í land að konur hafi eðlileg áhrif á opinberar ákvarðanir í landinu. Reynslan sýnir að prófkjör stjórnmálaflokka hafa ekki megnað að auka að neinu marki hlutdeild kvenna í stjórn þjóðfélagsins.“

Aftur er ég sammála og aftur get ég gefið hæstv. ráðh. rós í búkkettinn sem hann er nú kominn góða leið með að fá. En það sem er athyglisvert við þennan kafla, um sorglega smáan hlut kvenna í stjórnmálum og á öðrum forustusviðum, er að hér eru engar lausnir settar fram á því hvernig megi bregðast við þessum vanda. Þetta er svona, en hér er ekki að finna neinar hugmyndir um hvað megi gera til að breyta þessu. Ég bendi hæstv. ráðh. á að það er til tiltæk lausn og hana er að finna í gildandi jafnréttislögum þar sem sagt er að heimilt sé að beita því sem hefur verið kallað jákvæð mismunun, að grípa til sérstakra tímabundinna aðgerða sem ætlað er að bæta stöðu kvenna til að koma á jafnrétti kynjanna, m.ö.o. jákvæð mismunun, að taka konur fram yfir á meðan verið er að rétta vegasaltið og koma jafnvægi á. Þessi lausn er fyrir hendi, henni er hægt að beita á sviði opinberrar stjórnsýslu og annars staðar þar sem ákvarðanir eru teknar um skipanir í stöður. Ég spyr hæstv. ráðh. hvort hann sé tilbúinn til að beita sér fyrir því að þessi heimild jafnréttislaganna verði notuð til að rétta sorglega smáan hlut kvenna í þessum efnum.

Síðan kemur kafli um félagsleg atriði og þar er bent á að „hin mikla atvinnuþátttaka kvenna“, eins og hér segir, með leyfi forseta, „hefur gert það að verkum að börn þurfa gæslu utan heimilis.“

Síðan segir: „Uppbygging dagvistarstofnana hefur verið hægari en þörfin gefur tilefni til og mörg sveitarfélög eiga langt í land með að anna eftirspurn. Ástæða er til að ætla að skortur á heilsdagsvist sé ein af ástæðum þess hversu algeng hlutastörf eru meðal giftra kvenna sem svo aftur háir þeim við stöðuveitingar. "

Þessu er ég innilega sammála, á þessu er enginn vafi. En ég vil benda hæstv. ráðh. á að Kvennalistinn hefur hér á Alþingi flutt frv. til l. um sérstakt átak í dagvistarmálum barna. Þetta frv. kom fram á 107. löggjafarþingi, þ.e. fyrir tveimur árum, og var þá vísað til ríkisstjórnarinnar með því fororði að hún léti nú hendur standa fram úr ermum í þessum málaflokki. Síðan hefur það gerst að á fjárlögum ár hvert hafa framlög til dagvistarheimila barna verið skorin niður. Þau hafa ekki hækkað. Þau hafa verið skorin niður. Síðan kemur hæstv. ráðh. hérna með skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála og bendir á að aukning á dagvistarrými sé ákaflega mikilvæg til að rétta hlut kvenna. Hér fara enn þá einu sinni ekki saman orð og gerðir og ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því hverju þetta sætir. Hvers vegna hefur hann ekki beitt sér fyrir því og fengið það fram að framlög til byggingar dagvistarheimila hafi verið stórlega aukin á undanförnum árum? Við vitum að það er neyðarástand í þessum málum.

Síðan segir í skýrslunni:

„Brýna nauðsyn ber til að komið verði á samfelldum skóladegi í grunnskólum landsins.“

Jafnframt er vísað til vinnuhóps sem menntmrh. skipaði 1983 um tengsl fjölskyldu og skóla sem átti að gera tillögur um hvernig bæta mætti þau tengsl. Þessi vinnuhópur skilaði tveimur álitum, því fyrra í október 1984 og hinu síðara í janúar 1986, og meginniðurstaða hans er sú að stefna skuli að samfelldri viðveru nemenda í grunnskólum. Og nú vil ég aftur spyrja um framkvæmdir.

Það eru þrjú ár síðan fyrra álitið kom fram. Það er ár síðan seinna álitið kom fram og það eru þrjú ár síðan hér var samþykkt þáltill. um að stefnt skuli að því að skóladagur í grunnskólum verði samfelldur. Hvernig stendur á því að ekkert hefur verið framkvæmt? Hvar eru framkvæmdirnar?

Síðan segir í skýrslunni: „Fæðingum hefur fækkað mjög mikið.“ Mikið rétt. Og því er hér haldið fram að þessi þróun haldist í hendur við skilyrði kvenna til að fæða börn og bent á að það sé ýmsum annmörkum háð þegar þær eru virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Þetta höfum við margoft bent á og bent á nauðsyn þess að tekið sé meira tillit til aðstæðna foreldra ungra barna við alla þjóðfélagsskipulagningu hér.

Því næst segir í skýrslunni:

„Þriggja mánaða fæðingarorlof er allt of stuttur tími fyrir forelda með nýfætt barn. Ákvæði til laga um fæðingarorlof eru nú í endurskoðun.“

Kvennalistinn hefur borið fram frv. um lengingu fæðingarorlofs úr þremur mánuðum í sex þrjú þing í röð. Þetta frv. hefur aldrei náð því að komast úr heilbr.- og trn. Ed. eftir 1. umr. í Ed. þar sem það hefur verið lagt fram. Enn á ný kemur tvískinnungurinn fram. Annars vegar er viðurkennt í þessari skýrslu að lenging fæðingarorlofs er afskaplega brýn. Hún er það. Það er engin spurning. En hvernig stendur þá á því að þessu máli hefur ekki auðnast að ná út úr nefnd, ekki svo mikið sem út úr nefnd til 2. umr. og atkvæðagreiðslu, hvað þá heldur að verða að lögum og þó hefur það verið borið fram á þremur þingum? Ég bið hæstv. félmrh. um skýringu á því, því enn fara ekki saman orð og gerðir.

Hæstv. ráðh. lét þess getið í ræðu sinni áðan að endurskoðun á ákvæðum laga um fæðingarorlof væri nú á lokastigi hjá heilbr.- og trmrh. Frv. um fæðingarorlof var á málaskrá ríkisstjórnarinnar sem kom fram í upphafi þings. Nú eru sennilega eftir um 6-8 vikur af þessu þingi og því hver síðastur að leggja fram mál sem einhver von er til að fáist afgreidd. Því vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Er þetta mál í burðarliðnum, megum við eiga von á því hingað inn í þingið á næstu dögum og hverjar eru áherslur þess? Hvaða niðurstöðu hefur verið komist að í þeirri endurskoðun sem fram hefur farið á ákvæðum fæðingarorlofslöggjafarinnar?

Til viðbótar því sem hér segir um nauðsyn þess að lengja fæðingarorlof og koma á sveigjanlegum vinnutíma til að auðvelda konum að eiga börn vil ég bæta við að dagvistin er þar afskaplega mikilvæg, öruggt dagvistarrými fyrir börn. Atvinnuöryggi foreldra ungra barna sem vilja hverfa af vinnumarkaði um stundarsakir er þar líka ákaflega mikilvægt. En mikilvægast af öllu eru sjálfsagt mannsæmandi laun, laun sem hægt er að lifa af, því að ef fólk sér sér ekki fært að sjá sér farborða nema með því að báðir aðilar vinni úti og vinni meira en fullan vinnudag treystir fólk sér auðvitað ekki til að eiga börn og sjá þeim farborða þannig að launin eru ekki síður mikilvæg en þær félagslegu aðgerðir sem ég hef hér nefnt.

Þá er hér kafli um félmrn. og jafnréttismál. Þar kemur fram að margvíslegt samstarf og skoðanaskipti eiga sér stað og hafa átt sér stað við aðila á erlendum vettvangi um þessi mál. Það er gott. Ekki veitir af að ferskir vindar blási um þessi mál hér á landi. En það er ekki nóg að aflað sé upplýsinga og skipst á skoðunum við erlenda hugmyndafrömuði hverjir sem þeir kunna að vera í þessum efnum heldur þarf einnig að koma þessum ágætu hugmyndum í verk. En orð eru til alls fyrst og það er vel að slíkt samstarf skuli vera stundað af þó nokkru kappi, eftir því sem mér sýnist á skýrslunni, við hina ýmsu aðila.

Hér er getið um kvennaráðstefnuna sem haldin var í Nairobi í Kenya í júlí 1985 og Ísland tók þátt í og hér er það tekið fram að ráðstefnan hafi afgreitt viðamikla framkvæmdaáætlun um það hvernig ná megi jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla. Ég spyr hæstv. ráðh.: Hvað líður þýðingu þessarar áætlunar yfir á íslensku og eins hvað líður þýðingu lokaskjals ráðstefnunnar í Nairobi? Eins vil ég spyrja hann að því hvort einhverjar áætlanir séu uppi hjá íslenskum stjórnvöldum að framfylgja markmiðum þessarar framkvæmdaáætlunar.

Eins er hér greint frá fundi evrópskra jafnréttisráðherra, sem haldinn var í mars 1986, og þar er greint frá því að fundinum hafi lokið með ítarlegri ályktunartillögu og þar sé það sérstakt markmið að auka hlutdeild kvenna í stjórnmálum og annarri ákvörðunartöku í þjóðfélaginu. Ég vil fara þess á leit við hæstv. félmrh. að þessari ályktun verði dreift til þm. þannig að þeir hafi aðstöðu til að kynna sér hana.

Þá er hér greint frá norræna samstarfsverkefninu „Brjótum múrana“. Um það hef ég þegar fjallað og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um það.

Síðan er hér að lokum kafli um starfsemi Jafnréttisráðs. Hvað varðar þann kafla sem fjallar um kærur til ráðsins vil ég benda hæstv. ráðh. á að það er nokkuð mikilvægt að breyta jafnréttislögunum á þann veg að heimilt sé að kæra til ráðsins með nafnleynd vegna þess að flestir veigra sér við að fara í opinber mál, ekki síst konur, og þá ekki síst vegna kynjamismununar. Sú breyting á jafnréttislögunum sem gerði aðilum kleift að kæra til ráðsins með nafnleynd væri því mjög til bóta og gæti einnig orðið til þess að við fengjum betri yfirsýn yfir það hvar pottur er brotinn í þessum málum. Við fengjum fleiri kærur sjálfsagt og þar af leiðandi væri betur hægt að gera sér grein fyrir því hvernig hlutunum er háttað en nú er, þar sem konur eða karlar, hvor sem í hlut eiga, þurfa að kæra undir fullu nafni.

Annars er það sem einkum stendur út úr í þessum kafla um starfsemi Jafnréttisráðs það að Jafnréttisráð hefur í raun og veru afskaplega lítið fjármagn til sinnar starfsemi og er það mjög miður. Er ekki nokkur von til þess að það geti sinnt því hlutverki sem því er ætlað samkvæmt lögunum með þeim fjármunum sem það hefur á undanförnum árum haft til ráðstöfunar. Hér segir í þessari skýrslu, með leyfi forseta:

„Það verður að segjast eins og er að sökum manneklu á skrifstofu ráðsins hefur Jafnréttisráð ekki getað sinnt fræðsluhlutverki sínu sem skyldi. Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á að Jafnréttisráð fengi nýja stöðuheimild svo markvisst mætti vinna að upplýsinga- og fræðslustarfsemi um jafnréttismál.“

Það hefur sem sagt tekið mörg ár og er greinilegt að ekki hefur tekist enn að fá eina stöðuheimild til þess að ráðið geti sinnt fræðsluhlutverki sínu. Það nær ekki nokkurri einustu átt að búa svo í haginn að ráðinu sé ekki fært að gegna þeim skyldum sem á það eru lagðar samkvæmt lögum og sýnir e.t.v. einna best það sem ég ræddi um í upphafi að til lítils er að samþykkja ný jafnréttislög ef hvorki er vilji né möguleiki til að framfylgja þeim. Þá skipta slík lög akkúrat engu máli. Þau eru varla pappírsins virði.

Þetta fjármagnsleysi kemur skýrt fram í kaflanum um jafnréttisfræðslu í skólum þar sem fram kemur að hún hafi nánast engin verið. Þó hafa verið ákvæði í lögum síðan árið 1976 eða í ellefu ár um að jafnréttisfræðslu skuli sinnt í skóla-, uppeldis- og menntastofnunum landsins.

Í lok þessa kafla um jafnréttisfræðslu skólanna segir, með leyfi forseta:

Menntamálaráðuneytið hefur í fjárlagatillögum ráðuneytisins næsta ár farið fram á stöðuheimild til þessa verkefnis.“

Næsta ár! Eftir að ákvæðið er búið að vera í lögum í ellefu ár! Sannast sagna get ég ekki séð að mjög mikill áhugi hafi verið hjá íslenskum stjórnvöldum á því að framkvæma þau lög sem þau hafa sjálf sett um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla.

Þar lýkur þessari skýrslu hæstv. ráðh. og aðeins er eftir að ræða eitt atriði. Í niðurstöðum hennar, sem ég gat um áðan, kemur fram eins og hér segir:

„Mikilvægast er að eyða því launamisrétti sem er við lýði milli kynjanna með því að brýna fyrir konum að sækja inn í mun fleiri starfsgreinar en nú er.“

Ég hef þegar rætt um þetta atriði og bendi á að það er ekki líklegt til nokkurrar lausnar á þessum málum og felur auk þess í sér vanmat á þeim störfum sem konur gegna. En síðan kemur í lokin setning sem er ástæða til að eyða nokkrum orðum að. Hér segir, með leyfi forseta:

„Konur þurfa einnig að láta meira til sín taka á sviði stjórnmála, bæði með því að gefa kost á sér til setu á Alþingi og í sveitarstjórnum.“

Ég hef ekki orðið vör við það, hæstv. félmrh., að það sé skortur á því að konur gefi kost á sér til setu á Alþingi eða í sveitarstjórnum. Mér sýnist vera fullt af konum sem gefa kost á sér til þessara starfa. Þar er ekki vandamálið. Vandamálið er að þær komast ekki á Alþingi eða í sveitarstjórnir vegna þess að þær eru ekki í þeim sætum á framboðslistum flokkanna sem fleyta þeim þangað inn. Ég hlýt því eiginlega að taka þessi lokaorð þessarar skýrslu sem hálfgerðan brandara hjá hæstv. ráðh. því að ekki rímar það við neinn veruleika.

Þetta er að sínu leytinu til tilefni til ítarlegrar umræðu um konur og stjórnmál, en ég tek þetta dæmi sérstaklega til að benda á að það sjónarhorn sem er í þessari skýrslu er töluvert skakkt. Í skýrslunni er lítil tilraun gerð til að setja spurningarmerki við það verðmætamat sem ræður ferðinni í íslensku þjóðfélagi í dag og sem gerir það að verkum að staða kvenna og karla er ójöfn. Auðvitað á að taka sérstaklega á þessu verðmætamati í skýrslu jafnréttisráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála, en það er ekki gert í þessari skýrslu. Í annan stað rímar þessi skýrsla ekki ævinlega við þann veruleika sem í raun blasir við. Þetta með að konur gefi ekki kost á sér til setu á Alþingi eða í sveitarstjórnum er kannske skýrasta dæmið um slíkt rímleysi.

Ég vil að lokum ítreka það, sem ég hef áður sagt í þessari umræðu, að það er ekki nóg að gefa skýrslur og setja lög um þessi mál. Allt er undir framkvæmdunum komið. Það er það sem jafnrétti kvenna og karla stendur og fellur með. Ég ætla að vona að hæstv. ráðh. svari þeim spurningum sem ég hef beint til hans um þau efni hér á eftir.

Annars vil ég aftur þakka hæstv. ráðh. fyrir þessa skýrslu. Það er margt í henni fróðlegt og margt sem hefur hér áður komið fram í máli Kvennalistakvenna og annarra sem tekið hafa til máls um þessi mál. Flest hefur fengið misblíðar móttökur en er hér í þessari skýrslu sett fram sem sjónarmið félmrh. Það er þó skref í áttina og hvað sem annars má um skýrsluna segja þá er það vel.