05.02.1987
Sameinað þing: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2807 í B-deild Alþingistíðinda. (2620)

Tilraunasprenging með kjarnavopnum

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Því miður missti ég af fyrri hluta þessarar umræðu. Hæstv. utanrrh. hefur svarað og geri ég að sjálfsögðu engar athugasemdir við það. Ég vil þó vekja athygli á því að við Íslendingar höfum ekki tekið mjög virkan þátt í hernaðaráætlunum Atlantshafsbandalagsins. Við höfum til langs tíma ekki verið þátttakendur þar og þó við höfum aukið þá þátttöku nokkuð nú vil ég láta það koma hér fram að ríkisstjórnin hefur sem slík ekki fjallað um hernaðaráætlanir Atlantshafsbandalagsins.

Ég lýsi þeirri skoðun minni að sprengingu Bandaríkjamanna, sem þeir hafa framkvæmt nú, hlýt ég að fordæma. Ég verð að taka undir að rétt hefur verið fram hönd sem rétt var að taka í og stöðva tilraunir með kjarnorkuvopn ef það mætti verða skref til að draga úr kjarnorkuvopnakapphlaupinu. Ég vil hins vegar lýsa enn þeirri persónulegu skoðun minni að ég tel langmikilvægast í þessu sambandi að samkomulag geti orðið á milli stórveldanna um fækkun kjarnorkuvopna og að sjálfsögðu langhelst útrýmingu kjarnorkuvopna.

Ég bind miklar vonir við þær tillögur sem lagðar voru fram á Reykjavíkurfundinum og treysti því og reyndar veit að þær eru til umræðu enn í Genf. Okkur er tjáð að á þeim muni verða byggt ef samstaða næst um fækkun eða jafnvel útrýmingu kjarnorkuvopna. Það er að sjálfsögðu meginatriðið. Ég er þeirrar skoðunar að bann við tilraunum með kjarnorkuvopn sé að þessu leyti nánast aukaatriði, en þó geti það verið skref í átt að miklu stærri áfanga sem ég lít á sem útrýmingu kjarnorkuvopna. Ég er persónulega þeirrar skoðunar að mannkynið geti varla sætt sig við annað.