05.02.1987
Sameinað þing: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2809 í B-deild Alþingistíðinda. (2624)

Fyrirspurn um söluskattsskil

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Fyrir þremur mánuðum eða nánar tiltekið hinn 6. nóvember s.l. lagði ég fram fsp. til fjmrh. um söluskattsskil sem er prentuð á þskj. 134. Svör við þessari fsp. hafa ekki borist enn. Þau varða hvort dæmi séu um að fjmrn. hafi frestað innheimtuaðgerðum vegna söluskattsskila eða heimilað greiðslu á tolli og söluskatti með skuldabréfum eða jafnvel greiðslu skattsekta. Eins og ég sagði hefur svar ekki borist þó þrír mánuðir séu liðnir. Á hinn bóginn hefur mér verið tjáð að fjmrn. hyggist svara spurningunni með miklu víðtækari hætti en ég hafði gert ráð fyrir og miklu víðtækari hætti en ég hafði gert skrifstofustjóra fjmrn. grein fyrir að óskir mínar væru um eða að fsp. svaraði til að mínu mati. Mér þykir afleitt ef fulltrúar í ráðuneytinu, starfsfólk ríkisins, er sett í að svara meiru en um er spurt vegna þess að þá er verið að vinna þá vinnu að óþörfu og kostnaður af því lendir endanlega á skattborgurum á Íslandi. Þess vegna vil ég beina því til forseta að hann ítreki ekki bara óskina um svar við fsp. heldur líka það að fsp. svari til þess skilnings sem ég hef þegar gert skrifstofustjóra ráðuneytisins grein fyrir og að það sé ætlast til þess að fjmrn. haldi sig við þann skilning en fari ekki að svara einhverri langtum stærri spurningu með ærnum tilkostnaði.

Þessu, herra forseti, vildi ég beina til þín og vænti þess að fá stuðning við það sjónarmið, ekki einungis að fá svar við fsp. heldur einnig að svarið verði með þeim hætti sem til var stofnað.