09.02.1987
Efri deild: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2825 í B-deild Alþingistíðinda. (2634)

320. mál, Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Frú forseti. Á þskj. 563 flyt ég frv. til l. um Vísindaráð og Vísindasjóð, Rannsóknaráð ríkisins og Rannsóknasjóð, mál sem hefur verið nær tíu ár í aðdrögum og er nú mál að linni, og legg ég enda mjög mikla áherslu á, ef þess er nokkur kostur, að frv. þetta verði að lögum á yfirstandandi þingi.

En það er frá því að segja að haustið 1977 skipaði þáv. menntmrh., Vilhjálmur Hjálmarsson, nefnd til þess að endurskoða gildandi lagaákvæði um Rannsóknaráð ríkisins, sbr. lög nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, og samtímis aðra nefnd til að endurskoða lög um Vísindasjóð nr. 51/1957, sbr. lög nr. 34/1971. Samkvæmt skipunarbréfi var þeirri nefnd m.a. ætlað að kanna hvort tiltækilegt mundi að stjórnum deilda Vísindasjóðs, þ.e. hugvísindadeildar og raunvísindadeildar, yrði falið að gegna hlutverki rannsóknaráðs, hvorri á sínu sviði undirstöðurannsókna. Þess var óskað að endurskoðunarnefndirnar tvær hefðu samráð og samstarf sín í milli í því skyni að tillögur þeirra gætu orðið sem traustastur grundvöllur ákvarðana um heildarskipan vísindamála. Jafnframt var boðað að nefndirnar mundu verða beðnar að fjalla í sameiningu um tillögur sem fyrir lágu um stofnun sérstaks rannsóknaráðs á sviði læknisfræði.

Í fyrri nefndina, nefndina um Rannsóknaráð ríkisins, voru skipaðir Steingrímur Hermannsson, þáv. framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins, formaður, dr. Ásbjörn Einarsson, þáv. deildarstjóri í Rannsóknastofnun iðnaðarins, dr. Björn Dagbjartsson, þáv. forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Ellert B. Schram alþm. og Sveinbjörn Björnsson, þáv. stjórnarformaður Raunvísindastofnunar Háskólans.

Í síðartöldu nefndina, sem átti að fjalla um Vísindasjóð, voru skipaðir dr. Ólafur Bjarnason, formaður stjórnar Vísindasjóðs, og var hann skipaður formaður nefndarinnar, dr. Guðmundur Pálmason, þáv. formaður stjórnar raunvísindadeildar sjóðsins, dr. Jóhannes Nordal, formaður stjórnar hugvísindadeildar, Guðlaugur Þorvaldsson, þáv. háskólarektor, dr. Jónas Kristjánsson, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, og dr. Sigmundur Guðbjarnason, þáv. formaður framkvæmdanefndar Rannsóknaráðs ríkisins.

Vísindasjóðsnefndin skilaði áliti í júní 1981 með tillögum að frv. til l. um Vísindaráð ríkisins. Rannsóknaráðsnefnd skilaði áliti í maí 1982 með tillögum að frv. til I. um breytingar á lögum nr. 64 frá 1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, þ.e. þeim ákvæðum er varða Rannsóknaráð ríkisins.

Tillögur nefndarinnar voru í samræmi við sameiginlega málamiðlunarniðurstöðu þeirra um skipan rannsóknaráða fyrir vísindalega rannsóknastarfsemi í landinu. Sú skipan fól í sér að auk Rannsóknaráðs ríkisins, sem fjalla skyldi um hagnýtar rannsóknir í raunvísindum og tækni, yrði komið á fót Vísindaráði ríkisins er greindist í þrjár deildir, náttúruvísindadeild, líf- og læknisfræðideild og hug- og félagsvísindadeild. Jafnframt var gert ráð fyrir samstarfsnefnd Vísindaráðs og Rannsóknaráðs er ynni að því að tryggja eðlilega samvinnu og verkaskiptingu ráðanna.

Fram kom að vísindasjóðsnefnd hefði hallast að því að stofnað yrði eitt sameiginlegt rannsóknaráð er tæki yfir öll svið vísindastarfsemi í landinu en starfaði í fjórum deildum. Rannsóknaráðsnefnd hafnaði hins vegar þeirri leið þar sem hún taldi að með því móti gæti reynst erfitt að skapa nauðsynleg tengsl atvinnuveganna við rannsóknir í þeirra þágu en tryggja jafnframt sjálfstæði annarrar rannsóknastarfsemi.

Síðan nefndirnar skiluðu áliti hafa tillögur þeirra verið til athugunar og meðferðar með ýmsum hætti. M.a. var fjallað sérstaklega um frumvarpsdrögin á fundi í Rannsóknaráði ríkisins í nóvember 1983 og í framhaldi af þeim umræðum voru tillögurnar sendar ýmsum aðilum til umsagnar. Að tilhlutan menntmrn. var m.a. hugað sérstaklega að möguleikum á því að sameina frumvarpsdrögin með þeim hætti að stofnað yrði eitt vísinda- og rannsóknaráð deildaskipt í stað þess að hafa tvö sjálfstæð ráð, en um þetta atriði höfðu skoðanir reynst skiptar eins og áður segir.

Frv. það sem hér liggur fyrir er í meginatriðum reist á tillögum nefndanna tveggja sem að framan getur. Þó er valin sú leið að sameina ákvæðin um Vísindaráð og Rannsóknaráð í eina löggjöf með allítarlegum ákvæðum um samstarf þeirra, bæði að því er varðar stefnumótun og framkvæmdaatriði. Meginmarkmið þessa frv. er fjórþætt:

1. Að víkka starfssvið Vísindasjóðs, bæta við ráðgefandi og stefnumótandi hlutverki með myndun Vísindaráðs.

2. Að veita Rannsóknaráði ríkisins ekki aðeins ráðgefandi og stefnumótandi hlutverk heldur fela því jafnframt úthlutun rannsóknastyrkja til hagnýtra rannsókna og þróunarverkefna.

3. Að efla samstarf rannsóknaraðila í landinu og skapa vettvang samskipta og verkaskiptingar þeirra sem um þessi mál fjalla.

4. Að treysta fjárhagsgrundvöll íslenskra vísindarannsókna.

Helstu nýmæli sem er að finna í frv. þessu eru í fyrsta lagi að stofnað verður Vísindaráð er greinist í þrjár deildir, náttúruvísindadeild, líf- og læknisfræðideild og hug- og félagsvísindadeild. Gert er ráð fyrir að Vísindasjóður starfi áfram sem fjárhagslega sjálfstæður aðili en verði undir stjórn Vísindaráðs. Vísindaráð tekur að því leyti við verkefnum núverandi stjórnar og deildastjórna Vísindasjóðs, en fær auk þess almennt hlutverk rannsóknaráðs á þeim sviðum vísinda sem starfsemi þess tekur til.

Þá er það í öðru lagi nýmæli að fulltrúum í Rannsóknaráði ríkisins fækkar úr 21 í 7 og verða skipaðir með öðrum hætti en samkvæmt gildandi lögum. Felldur er brott sá þáttur úr verkefnum Rannsóknaráðs sem lýtur að því að ráðið standi sjálft að athugun á nýtingu náttúruauðæfa landsins. Jafnframt er verksvið ráðsins takmarkað við hagnýtar rannsóknir meira en gert er í gildandi lögum.

Þá telst það til nýmæla að gert er ráð fyrir lögfestingu rannsóknasjóðs sem Rannsóknaráð ríkisins veitir styrki úr til hagnýtra rannsókna og þróunarverkefna.

Í fjórða lagi er þess að geta að lagt er til að tæki og annar búnaður, sem keypt verði fyrir fé úr Vísindasjóði eða Rannsóknasjóði, skuli undanþegin tollum og öðrum aðflutningsgjöldum. Er hér raunar verið að standa við Flórens-sáttmálann svonefnda sem Ísland hefur gerst aðili að.

Í síðasta lagi ber þess að geta að gert er ráð fyrir fimm manna samstarfsnefnd Vísindaráðs og Rannsóknaráðs er skipuð skal tveimur fulltrúum hvors ráðs og oddamanni er menntmrh. skipar án tilnefningar. Hlutverk samstarfsnefndarinnar er að tryggja samvinnu ráðanna og fjalla um þau mál sem þeim eru sameiginleg og varða verkaskiptingu þeirra. Komið skal á samstarfi milli ráðanna um rekstur skrifstofu og önnur þjónustustörf eftir því sem við verður komið.

Þetta er það helsta sem ég vil taka fram nú við 1. umr. þessa máls. Ég vil ekki draga neina dul á það að hið háa Alþingi verður vitanlega að gera sér ljósa grein fyrir því að þegar tekið er til við endurskipulagningu með þessum hætti á þessum veigamiklu, viðamiklu og mikilvægu stofnunum verður Alþingi að sjá af stórauknu fjármagni til þessara hluta. Það mega menn gera sér ljóst að á þessum tímum sem nú lifum við, um hina öru þróun tækni og vísinda, verður ekki öðruvísi staðið í ístaðinu af Íslands hálfu nema menn leggi stóraukið fé frá því sem verið hefur til hvers konar rannsókna, hvort heldur eru á vísindasviði eða í þágu atvinnuveganna, allt sem að því lýtur að við bæði fylgjumst með og höfum við í þeirri skjótu framþróun sem á öllum sviðum blasir við. Ég endurtek áherslu þá sem ég hlýt að leggja á að mál þetta fái skjótan og greiðan framgang á hinu háa Alþingi. Það hefur lengi verið í aðdrögum og mikið og vel til þess vandað og í þeirri gerð sem það er nú virðist það hljóta náð fyrir augum þeirra sem mest hafa að því unnið en lengst af þó ekki orðið á eitt sáttir um með hvaða hætti á skyldi tekið.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þegar 1. umr. um frv. lýkur verði því vísað til 2. umr. og menntmn.