09.02.1987
Efri deild: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2835 í B-deild Alþingistíðinda. (2637)

320. mál, Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins

Haraldur Ólafsson:

Hæstvirtur forseti. Það er vissulega fagnaðarefni að þetta frv. skuli fram komið, frv. um Vísindaráð og Vísindasjóð, Rannsóknaráð ríkisins og Rannsóknasjóð. Það er fyrir löngu orðið tímabært að taka öll þessi mál til ítarlegrar endurskipulagningar og ég held að þegar á allt er litið hafi tekist nokkuð vel til. Það þýðir ekki að ég hafi ekki ýmsar athugasemdir fram að færa við þetta frv. og þó engar þess eðlis að ég muni tefja framgang þess. Miklu fremur mun ég eftir því sem mér er unnt, sem formaður menntmn. þessarar hv. deildar, reyna að hraða afgreiðslu þess sem kostur er en án þess þó að það gangi svo hratt að ekki sé gætt ítarlega að ýmsum þeim atriðum, bæði sem koma fram í athugasemdum við frv. og eins í þeim athugasemdum sem hv. þm., 5. þm. Norðurl. e. og hv. 11. þm. Reykv., hafa gert.

Það er enginn vafi á því að þetta frv. er til mikilla bóta og sé rétt á haldið á það að verða til þess að efla mjög rannsóknir á sem flestum sviðum hér á landi.

Það eru örfá atriði sem ég vildi minnast á áður en frv. verður tekið til meðferðar væntanlega í hv. menntmn.

Í fyrsta lagi hefði ég kosið að eitt vísindaráð hefði verið sett yfir allar rannsóknir hér á landi. Ég geri þetta að sjálfsögðu ekki að neinu úrslitaatriði en það er með mig eins og hv. 5. þm. Norðurl. e. að ég hef nokkrum sinnum skipt um skoðun í þessu máli og stundum höfum við vafalaust verið sömu skoðunar en nú erum við örlítið á öndverðum meiði. Ég held nefnilega að sú skipting sem lagt er til að höfð verði geri í raun og veru ráð fyrir því að samstarfsnefnd þessara tveggja ráða verði hið raunverulega vísindaráð. Það hlýtur að verða svo að fjölmörg mál sem upp koma hljóta að vera á mörkum, þeim mörkum að einungis samstarfsnefndin geti skorið úr hvorum megin þau skuli tekin til meðferðar og afgreiðslu. Á hinn bóginn sé ég ekki ástæðu til að gera þetta að neinu úrslitaatriði. Ég held að hinar jákvæðu hliðar málsins séu svo margar og mikilvægar að það sé meira virði að fá frv. fram eins og það liggur nú fyrir en að fara að grauta í því að breyta því að einhverju verulegu leyti. Hið eðlilega hefði ég þó talið að hér væri eitt vísindaráð með þeim undirdeildum sem gert er ráð fyrir í frv. Það er nefnilega svo, eins og hv. 11. þm. Reykv. minntist á, að mörkin milli hagnýtra rannsókna og einhverra annarra rannsókna eru ærið óglögg og reyndar er sjaldnast vitað, þegar farið er út í beinar rannsóknir, hvort þær skila einhverjum svokölluðum hagnýtum árangri eða ekki. Ég er ekki viss um að rannsóknir sem kallaðar eru í þágu atvinnuveganna séu oft á tíðum annað en grunnrannsóknir sambærilegar við þær sem menn vita í raun ekki hvort skila muni árangri eður ei. Ég held að á þessu sviði verði einmitt erfiðast að setja mörkin á milli Vísindaráðs og Rannsóknaráðs.

Þetta snertir líka annað atriði og það eru fjárveitingar til þessara tveggja ráða. Það mætti ætla að Alþingi væri fúsara að veita fé til svokallaðra hagnýtra rannsókna en annarra og það gæti orðið á kostnað annarra rannsókna eða annarrar vísindastarfsemi sem fram fer í landinu. Ég er ekki að segja að það verði það, en þessi hætta er fyrir hendi, að það verði ekki mjög skýrt og glöggt mat sem lagt verði á hinar einstöku rannsóknir heldur muni áróðursstaða frekar ráða því hvert fé verður veitt.

Ég held að bein afleiðing af þessum vanda verði að samstarfsnefndin verði hið raunverulega vísindaráð og þar komi fjölmörg atriði til meðferðar og afgreiðslu. Það er nefnilega svo að þetta hlýtur að verða ein heild og þá er spurningin: Eigum við að hafa þetta eitt ráð eða eigum við að halda þessari skiptingu? Ég mun ekki leggja til að þetta verði eitt ráð en ég held að það verði innan fárra ára nær örugglega tekið til athugunar hvort ekki skuli breyta þessum ákvæðum.

Þá er það skiptingin í deildir. Hún er að mínu viti nokkuð eðlileg. Þó verð ég að segja það sem starfsmaður Háskóla Íslands að ég sakna þarna einnar deildar. Ég veit ekki hvort það er viljandi gert eða hvort starf hennar liggur utan við vísindalega starfsemi. Þó er þetta sú deild sem er elst í öllum háskólum heimsins, elst og virðulegust, og fæst ekki bara við eðli mannsins, eins og segir hér í 1. gr. frv., heldur einnig við eðli guðs. Ég varpa einungis fram þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. hvort ekki beri að hafa guðfræðideildina með einhvers staðar í horninu og njóta þess hve vítt áhugasvið hennar er, ekki bara þessi jörð okkar heldur alheimur allur.

Ég get nú varla verið við 1. umr. með einhverja hótfyndni út af 1. gr. í þessu frv. en þó neyðist ég til þess að minnast á tvö atriði í 1. gr. Í fyrsta lagi segir þar í 2. mgr.: „Það er hlutverk Vísindaráðs að efla íslenskar vísindarannsóknir.“ Þetta minnir mig því miður ákaflega óþægilega á það sem á sínum tíma var kölluð þýsk efnafræði eða þýsk eðlisfræði og jafnvel þýsk stærðfræði á dögum þriðja ríkisins. Er ekki eðlilegra og jafnvel betri íslenska, sem við hæstv. menntmrh. berum báðir fyrir brjósti eins og reyndar allt hið háa Alþingi, að segja hér: vísindarannsóknir á Íslandi. Og síðan er þetta með eðli mannsins. Ég kemst eiginlega ekki alveg yfir það að rekast á þetta í 1. gr. þessa ágæta frv. Ég verð að biðja hæstv. ráðh. að útskýra við hvað er átt og síðan gætum við þá rætt það hvort ekki væri hægt að finna eðlilegri skilgreiningu á hlutverki ráðsins.

Ég tek undir með hæstv. ráðh.: Þó að skipulagning sé góð er þó allt undir því komið að fjármagn og vilji sé fyrir hendi og ég held að verði þetta frv. að lögum séum við Íslendingar búnir að fá í hendurnar gott tæki til þess að efla rannsóknir og vísindastarfsemi á Íslandi og ég fyrir mitt leyti mun stuðla að því að hraða afgreiðslu þessa máls í þessari háu deild.