09.02.1987
Efri deild: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2839 í B-deild Alþingistíðinda. (2639)

320. mál, Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég á sæti í þeirri nefnd þar sem þetta mál kemur til umfjöllunar þannig að ég ætla ekki að gerast neitt langorður um það hér, enda skal ég viðurkenna það að mig skortir forsendur og þá yfirsýn sem nauðsynleg er til þess að geta myndað mér skoðun á jafnflóknu máli og þetta er, sem ég þekki ekki meira til en raun ber vitni á þessu stigi. Ég ætta því ekki að kveða upp úr um það á þessu stigi. Mér sýnist hins vegar að gert sé ráð fyrir ýmsum mjög athyglisverðum breytingum. Hér er í sumum tilvikum um grundvallarbreytingar að ræða og mér sýnist til ansi mikils ættast að þingið afgreiði þetta mál á þeim skamma tíma sem eftir er. Þegar svo það við bætist að nú kemur í ljós, eftir að hæstv. iðnrh. hefur talað, að um þetta mál er ekki eining innan ríkisstjórnarinnar og hæstv. iðnrh. segir að ekkert samráð hafi verið haft við sig og sitt ráðuneyti um málið og mælist til þess að slíku samráði verði komið á, sé ég satt að segja ekki miklar vonir til þess að málið geti náð afgreiðslu á þessu þingi. Þó er það sjálfsagt ekki útilokað. Það hefði hins vegar verið betra fyrir framgang málsins ef ríkisstjórnin hefði verið einhuga og ekki komið upp sá ágreiningur sem hér hefur birst af hálfu stjórnarsinna og flokksbræðra í þessum ræðustól nú við 1. umr. málsins.

Hæstv. iðnrh. sagði að þetta mál ætti rætur að rekja til Eureka-áætlunarinnar svonefndu sem Ísland góðu heilli hefur gerst aðili að. Ég fæ ekki séð hvernig það tengist og kemur beint saman. Við erum góðu heilli aðilar þar að, urðum með seinni skipunum, en ég fæ ekki alveg séð samhengið þar á milli. Ég held að þó að þau mál tengist kannske með einhverjum hætti sé ekki beint samhengi þar á milli. En þetta mál fær áreiðanlega ítarlega og vandaða umfjöllun í menntmn., sérstaklega eftir að þessar athugasemdir hafa komið fram. (Gripið fram í.) Já, já, hæstv. iðnrh., ég sé 4. lið 2. gr. en ég sé ekki að það sé algjört meginatriði þessa máls. Það eru mörg önnur mjög mikilvæg atriði sem varða skipulag þessara mála og hér er um mjög veigamikla breytingu að ræða, sýnist mér í fljótu bragði. En ég ítreka það að mig skortir á þessu stigi þá yfirsýn sem þarf til að geta metið þær breytingar sem hér í felast og hér kemur fram að það er um málamiðlunarlausn að ræða. Ég skal svo sem hvorki hallmæla þessu né mæla því verulega og skilyrðislaust bót en áskil mér rétt til að lýsa þeim skoðunum síðar þegar um málið hefur verið fjallað í nefnd. Æskilegra hefði verið fyrir alla sem hlut eiga að máli að ráðherrarnir hefðu verið á eitt sáttir um þetta mál áður en það var lagt hér fram í þinginu.