28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

31. mál, kennaraskortur

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Samstarfsnefnd menntmrn. og Bandalags kennarafélaga, sem hér er spurt um, hélt sjö fundi, en nefndin hefur nú verið lögð niður eins og ég mun víkja að síðar.

Á fundum samstarfsnefndarinnar var fjallað um aðgerðir til þess að bæta starfsaðstöðu í skólum, gera kennarastarfið eftirsóknarverðara og efla skólastarf í landinu eins og mælt hafði verið fyrir um í erindisbréfi hennar.

Menntmrh. skipaði umrædda samstarfsnefnd snemma á þessu ári eftir fund með forsvarsmönnum kennarasamtakanna þar sem þeir lögðu mikla áherslu á að komið yrði á föstum samráðsvettvangi við menntmrn. um sameiginleg hagsmunamál aðila. Hafði þessi ósk reyndar verið fram sett áður í bréfum kennarasamtaka til menntmrn.

Þegar nefndin hóf störf varð fljótt ljóst að fulltrúum kennara lágu þyngst á hjarta launamál stéttarinnar og virtust ætla menntmrn. meira hlutverk í þeim efnum en lög gera ráð fyrir. Fulltrúar menntmrn. í samstarfsnefndinni ítrekuðu hlutverk ráðuneytisins sem fagráðuneytis, fagráðuneytis sem gerði sér ljósa nauðsyn samstarfs og samráðs við samtök kennara í landinu um þau mál er undir menntmrn. heyra, þótt ekki væri á þessum vettvangi, þ.e. samstarfsnefndarinnar, unnt að ná fram beinum launahækkunum til handa kennurum. Slíkar hækkanir hlytu kennarar eins og aðrir opinberir starfsmenn að sækja með samningum við fjmrn.

Af þeim málum sem rædd voru á fundum samstarfsnefndarinnar og verða mega til hagsbóta fyrir kennara í starfi þeirra voru orlofsmál, endurmenntun og hugsanlegar breytingar á vinnutíma kennara.

Ef taka á fleiri dæmi um umræðuefni nefndarinnar má nefna breytta framkvæmd samræmdra prófa, en ákveðið hefur verið að vinna að fækkun þeirra í samráði við kennarasamtökin, framkvæmd laga um lögverndun á stafsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra sem ganga munu í gildi um áramót, endurskoðun laga um grunnskóla og gerð frv. til l. um framhaldsskóla. Í lok síðasta fundar nefndarinnar var enn rætt um launamál kennara og hlutverk menntmrn. í því efni. Urðu menn sammála um að samstarfsnefndin gæti ekki þokað fram beinum kjaramálum kennara og samþykktu nefndarmenn að leggja til við ráðherra að nefndin yrði lögð niður.

Forsvarsmenn kennara skýrðu mér formlega frá þessari niðurstöðu með bréfi. Nokkru síðar eða 16. okt. hélt ég fund með forsvarsmönnum kennara þar sem m.a. var rætt framhald formlegs samstarfs. Ákveðið var að koma á fót fastri samstarfsnefnd aðila um fagleg málefni og hefur þegar verið óskað eftir tilnefningu fulltrúa frá Bandalagi kennarafélaga. Verið er að kanna hvort og þá með hvaða hætti menntmrn. geti veitt kennurum beinni stuðning í kjarabaráttu þeirra en verið hefur. Eins og áður segir komu ýmis mikilvæg mál til umræðu á fundum samstarfsnefndarinnar og verður unnið áfram að framgangi þeirra á hinum nýja samstarfsgrundvelli.