09.02.1987
Efri deild: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2845 í B-deild Alþingistíðinda. (2644)

119. mál, umferðarlög

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mikill lagabálkur sem snertir nær því alla landsmenn. Ég vissi ekki, en heyri það reyndar á frsm. allshn., að þetta frv. muni helst eiga að verða að lögum á þessu þingi. Í mínum huga eru nokkur atriði sem eru svolítið óskýr enn þá og jafnvel eitthvað sem vantar. Þó að þetta sé afskaplega vandvirk nefnd er ekki alveg útilokað að henni hafi yfirsést eitthvað örlítið og mig langar a.m.k. til að vekja athygli á því sem mér finnst að hugsanlega mætti betur fara.

Ég þarf ekki að taka það fram að hér vantar öll ákvæði um einteinunga en sú umræða hafði ekki hafist áður en þetta frv. var samið, væntanlega, svo það er nú fyrirgefanlegt.

Við 10. gr. er tekið fram að vegfarandi skuli veita slösuðum mönnum og dýrum hverja þá hjálp sem unnt er, en síðar í greininni stendur:

„Hafi maður látist eða slasast alvarlega má eigi raska vettvangi eða fjarlægja ummerki.“ Það virðist sem sagt samkvæmt þessari grein, eftir því sem ég skil hana, að ekki megi lyfta bíl af slösuðum manni eða fjarlægja hann á annan hátt. Ég veit að þetta getur ekki verið meiningin og túlkun laganna hlýtur náttúrlega að vera eftir þessu, en mér finnst svolítið ankannalegt að það skuli standa þarna.

37. og 38. gr. voru til umræðu hjá hv. frsm. allshn. Í upphafi 37. gr. stendur að fortakslaust skuli ökuhraði í þéttbýli ekki vera meiri en 50 km á klst. Nú vill svo til að ég fer alloft Kringlumýrarbraut, og ég held að það væri örðugt að keyra þar stöðugt á undir 50 km hraða. Ég býst við að maður væri þar stöðugt í hættu vegna framúraksturs og af öðrum orsökum. Ég veit ekki hvort þessi ákvæði sem slík eru nauðsynleg eða hvort haga megi ökuhraða eftir aðstæðum, jafnvel þó í þéttbýli sé, eins og tvímælalaust er í kringum Kringlumýrarbrautina. Ég hef ekkert við það að athuga að ákvæðin um hámarkshraðann skuli hafa verið hækkuð. Hins vegar hefur mér virst, og gæti ég jafnvel talað af eigin reynslu, að hámarksökuhraði hafi viss skekkjumörk í augum löggæslumanna þannig að ekki er farið að beita sektum eða þaðan af strangari ákvæðum, jafnvel þó menn séu örlítið yfir hámarkshraða. Nú hefði ég gaman af að vita hvort menn ætluðust til þess með þessu að 100 km hraði væri þá skilyrðislaust þegar í stað brot sem refsa bæri fyrir.

Í 38. gr. er lagt til að í stað „opinberum vegi“ komi: vegi. En ef það ákvæði að ekki megi aka vélsleða á „vegi“ hraðar en 30 km á klst. verður ekki brotið oftar en það er virt, þá verð ég hissa.

Eins finnst mér í 45. gr. til nokkuð mikils ætlast að menn standi við það að neyta ekki áfengis eða neinna vímugjafa að loknum akstri ef þeir hafa einhverja ástæðu til þess að ætla að þeim hafi verið veitt athygli og séu grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum áfengis. Mér finnst slíkt ákvæði hljóta að bjóða upp á að það sé brotið, einfaldlega vegna sjálfsvarnartilhneigingar mannskepnunnar. Ég veit ekki hvort hæstv. nefnd hefur fjallað um þetta atriði sérstaklega en vildi láta þessa getið.

Varðandi 47. gr., um töku blóðsýnis, þá hefur mér alltaf fundist að læknir ætti að vera skyldugur til að taka blóðsýni ef þess er krafist og ætti ekki að geta vikið sér undan því á einn eða neinn hátt, jafnvel þó náið skyldmenni eigi í hlut eða þaðan af betri vinir.

Þá leitaði ég einnig að ákvæði og fann ekki, það er kannske mín óvandvirkni, ég er ekki eins vandvirkur og hv. nefnd sjálfsagt, en hvar er þessi umdeilda refsing við að láta það vera að nota öryggisbelti? Ég vildi spyrja að því, ef mér hefur yfirsést það einhvers staðar, hvar hún sé og hvernig hún eigi að vera. Ég vildi gjarnan fá það upplýst.

Umræðu frestað.