28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

31. mál, kennaraskortur

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Við höfum heyrt svör hæstv. ráðh. við fsp. minni. Það kemur fram í svari hans að enginn sýnilegur árangur hefur orðið af starfi þeirrar nefndar sem ráðherrann hafði frumkvæðið að að varð til í febrúar s.l. Ekki hefur verið tekið á þeim málum sem kennarar báru fram tillögur um í nefndinni og óskuðu eftir úrbótum á, þar á meðal launamálum og öðru sem varðar starfsaðstöðu kennara og kjör, orlofsmál og endurmenntun meðtalin. Nú fitjar ráðherrann upp á enn nýrri nefnd til að fjalla um málefni kennara, m.a. hvernig ráðuneyti hans geti haft áhrif á kjaramálin, launamál kennaranna, sem eru auðvitað ein meginástæðan fyrir hvernig staðan er að þessu leyti í skólunum.

Ég verð að segja að það ætlar seint úr að rætast fyrir skólastarfi í landinu og stöðu kennara í samskiptum við núverandi hæstv. ríkisstjórn. Það kemur fram í ítrekuðum erindum samtaka kennara að þeir eru reiðubúnir til þess að taka á málum með ríkisstjórninni, en hæstv. ráðherra menntamála vísar bara niður í fjmrn., þar sé lykillinn að lausnum og úrbótum fyrir kennarastéttina, hann geti engin áhrif haft þar á. Það er fróðlegt fyrir menn að heyra hversu langt er á milli einstakra valdamanna innan Sjálfstfl. og það þarf ekki að segja mönnum að ef vilji væri fyrir hendi hjá ríkisstjórninni til að taka á þeim efnum sem varða starfsaðstöðu og kjör kennara hefði hún ekki alla möguleika til þess að leiðrétta það. Það er sami flokkurinn sem fer með ráðuneyti menntamála og fjármála og þar liggur ábyrgðin í þessum efnum alveg sérstaklega þó hæstv. forsrh., sem nú er fjarri, hafi einnig ætlað sér að leggjast á árar í þessu efni, en við höfum lítið heyrt um hvaða þýðingu það hefur haft og það virðist svo sem að hann hafi ekki fengið miklu áorkað í þeim efnum.

Ég verð að ítreka það, herra forseti, í ljósi þess hvernig staðan er nú í skólunum í landinu, að það er með öllu ólíðandi og óverjandi að ábyrgðaraðilar ríkisvaldsins í þessum málum færist undan með þeim hætti sem hæstv. ráðh. og forverar hans og aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni hafa ítrekað gert gagnvart kennarastéttinni. Á þessu verður að ráða bót. En það horfir því miður illa á þeim vetri sem fram undan er. Við skulum vona að það eigi ekki margir slíkir eftir að ganga í garð að óbreyttu hvað snertir stöðu kennara í landinu og nemendur og foreldra þeirra sem snertir þetta mál ekki síður.