09.02.1987
Neðri deild: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2869 í B-deild Alþingistíðinda. (2659)

321. mál, vaxtalög

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra bankamála fyrir mjög ítarlega ræðu. Vitaskuld var það meira en tímabært að setja lög um vexti hér á landi. Hitt er þó augljóst að tilefnið er heldur leiðinlegt. Tilefni þess að menn loksins manna sig upp í það að setja lög um vaxtamál er hinn margfrægi hæstaréttardómur frá 19. des. s.l. Eins og hér hefur verið imprað á varð hann tilefni til ýmiss konar skoðanaskipta.

Ég hef löngum velt því fyrir mér hver bar raunverulega ábyrgð á því slysi sem þar varð. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir að hér væri um hneyksli að ræða, talaði um alvarleg mistök í Seðlabankanum. Seðlabankinn bar hins vegar af sér ábyrgð og kenndi ríkisstjórninni um. Þannig hefur þetta staðið að okkur hefur gengið illa að átta okkur á hvar ábyrgðin hafi legið, hver gerði mistökin, hvers eðlis var hneykslið. En núna þarf enginn að veltast í vafa um það lengur því að ríkisstjórnin hefur með þessu frv. og grg. með frv. veitt Seðlabankanum algera syndakvittun. Það kemur greinilega fram í grg. með frv. að ríkisstjórnin telur nú að framganga Seðlabankans í málinu hafi verið eðlileg. Í því er fólgin syndakvittun fyrir Seðlabankann.

En þá stendur hinn sökudólgurinn eftir. Ríkisstjórnin hefur með þessu frv. tekið á sig að mínum dómi sök á hneykslinu. Það var þar sem hin alvarlegu mistök voru gerð en ekki í Seðlabankanum.

Það er athyglisvert að skoða yfirlýsingar forsrh. í þessu samhengi vegna þess að forsrh. hafði orð á því að þeir sem bæru ábyrgð á mistökunum ættu að fá yfir sig opinbera rannsókn. Þeir sem bæru ábyrgð á mistökunum ættu helst að segja af sér. Og hin rökrétta niðurstaða í framhaldi af framlagningu þessa frv. og þeirri grg. sem fylgir með er vitaskuld sú, ef forsrh. vill vera samkvæmur sjálfum sér, að það fari fram opinber rannsókn á þeim sem mistökin gerðu. Það fari sem sagt fram opinber rannsókn á gerðum og ákvarðanatöku ríkisstjórnarinnar og að þeir sem ábyrgð báru í þessu efni segi af sér. Og nú liggur fyrir hverjir það voru. Það var ríkisstjórnin. Samkvæmt stefnuyfirlýsingu forsrh. í kringum jólin liggur því beint við að álykta að nú eigi ríkisstjórnin að segja af sér og hún eigi að láta framkvæma opinbera rannsókn á sjálfri sér. Þetta er vitaskuld niðurstaðan af því frv. sem hér liggur fyrir.

Ákvörðunin um vaxtafrelsi sumarið 1984 var greinilega mjög illa undirbúin og illa frá henni gengið. Við Alþýðuflokksmenn höfðum gert okkur grein fyrir því að sú aðferð við vaxtaákvarðanir sem hafði verið við lýði, sú miðstýring í þeim efnum sem hafði verið við lýði hafði gengið sér til húðar og ekki skilað þeim árangri sem nauðsynlegur var. Þegar ákvörðunin var tekin sumarið 1984 bentum við sérstaklega á það að þó að við vildum innleiða vaxtafrelsi yrði það að gerast að vel yfirlögðu ráði, vera vel undirbúið og vel með því fylgst. Nú hefur komið í ljós að varnaðarorð okkar voru sannarlega tímabær. Nú hefur nefnilega komið í ljós það sem við óttuðumst, að ekki var nægilega vel frá málinu gengið, það ekki nægilega vel undirbúið og ekki nægilega vel með því fylgst. Hæstaréttardómurinn frægi er til vitnis um það og það frv. sem hér er lagt fram er auðvitað staðfesting á því að málið hafði ekki verið nægilega vel undirbúið því að þá hefði þetta frv. í raun og sannleika átt að fylgja strax í kjölfarið.

Ég skal segja það strax og endurtaka að vitanlega hefur verið mikil þörf fyrir samræmda löggjöf um þetta efni. Máltækið segir: „Betra er seint en aldrei.“ En heldur er það nú leitt að tilefnið til flutnings þessa frv. skuli einmitt hafa verið hæstaréttardómurinn frá því í desembermánuði s.l. Engu að síður ber að þakka að frv. af þessu tagi sé komið upp.

En það eru ýmis önnur atriði sem er nauðsynlegt að reifa í þessu sambandi. Eitt þeirra atriða sem hlýtur að koma til skoðunar þegar vaxtamál eru rædd er vaxtastigið sjálft. Vaxtastig á Íslandi hefur verið og er óeðlilega hátt. Í lögunum um Seðlabanka Íslands er sérstaklega til þess vitnað að Seðlabankinn geti gripið inn í þegar vextir reynast vera hærri hér á landi en í grannlöndum okkar. Það ákvæði hefur ekki verið notað. Engu að síður er það augljóslega svo að vextir hér hafa verið mun hærri en í grannlöndum okkar. En hver er orsök þess og hvaða leiðir hafa menn til að hafa hemil á vaxtastiginu? Ein aðalorsök þess að vextir eru hér mun hærri er framferði ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Hún hefur rekið ríkissjóð með miklum halla og jafnað þennan halla með útgáfu spariskírteina sem hafa borið mjög háa vexti. Afskipti ríkisins af fjármagnsmarkaðnum hafa þannig stuðlað að háum vöxtum hér á landi, hærri vöxtum en í flestum grannlöndum okkar.

Mér er spurn: Hvenær ætlar ríkisstjórnin að snúa við blaði í þessum efnum? Hvenær ætlar ríkisstjórnin að beita tækjum sínum þannig að vaxtastig hér komist í eðlilegt horf, vaxtastig sé ekki mun hærra en annars staðar, að hinir almennu vextir séu í samræmi við það sem eðlilegt getur talist? Þessu hlutverki verður ríkisstjórnin vitanlega að gegna, en þessu hlutverki hefur hún ekki gegnt. Þess vegna hlýt ég að spyrja: Hvenær ætlar ríkisstjórnin að taka til hendinni í þessum efnum og stuðla að því að hér verði eðlilegt raunvaxtastig? Það er meira en tímabært að tekið sé til hendinni í þessum efnum.

Í annan stað hlýtur umræða um vaxtamálin að leiða til þess að menn velti fyrir sér hinni svonefndu lánskjaravísitölu. Eins og kunnugt er hefur lánskjaravísitalan vaðið langt fram úr ýmsum öðrum mælikvörðum í þessu þjóðfélagi. Það þarf ekki að minna menn á hvernig lánskjaravísitalan þaut áfram á sama tíma og laun stóðu nánast í stað og hvert feiknabil myndaðist milli launa og lánskjara. Þetta var fullkomlega óeðlilegt ástand, en það sama hefur átt við gagnvart öðrum mælikvörðum eins og t.d. fasteignaverði. Ég bendi á að það er varasamt fyrir efnahagslífið og það kostar miklar þjáningar hjá ýmsu venjulegu fólki þegar atriði af þessu tagi gerast. Við skulum hafa í huga að inn í lánskjaravísitöluna koma ýmsir skattar og skyldur sem ríkið leggur á. Lánskjaravísitalan er því þannig úr garði gerð núna að ef sköttum er breytt til þess hugsanlega að afla fjár til sameiginlegra þarfa og rétta hlut einhverra í þjóðfélaginu getur það þýtt hækkun á lánum hjá öllum almenningi í landinu og kannske hækkun á skuldabyrði þeirra sem átti að rétta hjálparhönd. Mér er spurn: Hefur ríkisstjórnin ekki í athugun að taka á þessum þætti málsins sem vissulega líka varðar vextina og lánskjörin í landinu? Að maður ekki spyrji að hvort ríkisstjórnin hafi ekki í huga að rétta hlut þess fólks sem var í rauninni gert að öreigum á árunum 1981-1986 þegar lánskjaravísitalan þaut upp úr öllu valdi og fólk gat ekki staðið undir þeirri skuldaaukningu sem þannig varð á vegum lánskjaravísitölunnar á sama tíma og launum var haldið niðri. Þessi hópur hefur eins og kunnugt er verið skilinn eftir. Þeir sem áður öfluðu sér húsnæðis t.d. og þeir sem fara til þess núna munu njóta bærilegra kjara í þessum efnum, en hópurinn sem varð fyrir því að afla sér íbúðarhúsnæðis á árunum 1980-1986 situr eftir í súpunni og hans hlutur er enn óleiðréttur. Ég minni á hugmyndir sem við Alþýðuflokksmenn höfuð borið fram um úrbætur í þessum efnum og hafa birst hér í þáltill.

Verðtrygging fjárskuldbindinga felur í sér að þær séu miðaðar við einhverja vísitölu. Hér hefur gilt að nota lánskjaravísitölu öllu öðru fremur. En í þessu frv. er m.a. gert ráð fyrir að menn geti samið um breytilega vexti. Ég sé hins vegar hvergi í frv. að það sé gerður greinarmunur á því hvort um fjárskuldbindingar er að ræða sem eru miðaðar við vísitölu eða ekki. En ég tel að á þessu tvennu sé mikill munur og ákvæði um breytilega vexti geti ekki fengið að eiga við með sama hætti þegar um verðtryggðar skuldbindingar er að ræða og þegar um óverðtryggðar skuldbindingar er að ræða. Sannleikurinn er nefnilega sá að í verðtryggingunni sjálfri felst trygging fyrir þann sem lánið veitir að verðbólgu sé mætt með uppskrift skuldarinnar. Hinir breytilegu vextir eru fyrst og fremst hugsaðir til þess að mæta verðsveiflum og eiga þess vegna við í því sambandi þegar ekki er um verðtryggingu að ræða. Sé um verðtryggingu að ræða er mjög óeðlilegt, þegar menn gera fjárskuldbindingar til langs tíma, að menn geti síðar áskilið sér rétt til þess að vera með breytilega vexti ofan á verðtrygginguna og algerlega ótakmarkað. Þessu hafa reyndar ýmsir fengið að kenna á á undanförnum árum þegar vextir á verðtryggðum skuldbindingum fóru hér upp úr öllu valdi um hríð og eru reyndar óeðlilega háir enn þá eins og ég hef áður gert að umtalsefni. Ég tel að nauðsynlegt sé að skilja þarna í milli og að þetta atriði þurfi að skoða alveg sérstaklega.

Það frv. sem hér liggur fyrir er í fjórum meginþáttum eins og ráðherra gat um í framsöguræðu sinni. Ég hef hins vegar tekið á ýmsum öðrum þáttum sem ég tel nauðsynlegt að séu skoðaðir í þessu samhengi. En þeir fjórir þættir sem fram eru settir í frv. varða í fyrsta lagi almenna vexti, í öðru lagi dráttarvexti, í þriðja lagi okur og í fjórða lagi bráðabirgðaákvæði.

Ég get sagt það strax að þættirnir sem varða almenna vexti og dráttarvexti virðast vera til bóta almennt séð, þó vitaskuld séu þar ýmis álitamál sem sjálfsagt er að skoða nánar þegar frv. fer til nefndar. Jafnframt vísa ég til þess sem ég hef sérstaklega gert að umtalsefni hér umfram það sem í frv. er.

Þriðji þátturinn varðar okur og var augljóslega tilefni þess að þetta frv. var flutt og kemur reyndar fram í grg. Auðvitað er mönnum vandi á höndum að skilgreina okur eftir að vextir hafa verið gefnir frjálsir eða vaxtafrelsi hefur verið innleitt. Eins og ég hef áður getið um teljum við Alþýðuflokksmenn að hið miðstýrða fastákveðna kerfi hafi verið búið að ganga sér til húðar og það hafi verið nauðsynlegt að innleiða svigrúm í vaxtaákvörðunum og að að því hafi átt að stefna og það hafi verið spor í rétta átt. En við þessar aðstæður þurfa menn engu að síður að búa til æðiströng ákvæði um hvenær um okur sé að ræða. Ég held að ýmislegt í þeim ákvæðum sem hér er lagt til að eigi við varðandi skilgreiningu á okri sé af hinu góða og sé í rétta átt, en það verður hins vegar að segjast að ákvæðin eru æðirúm og að mínum dómi er sérstök ástæða til að skoða þau ákvæði nánar og athuga hvort ekki megi veita neytendum í þessu sambandi, lántakendum, meiri vernd en gert er ráð fyrir í þessu frv.

Ég þykist vita að Íslendingar yfirleitt séu mjög andstæðir okri og hárri vaxtatöku. Ég þykist vita að það sé líka hið almenna sjónarmið meðal þm., það sé hið almenna sjónarmið í þessari deild. Þá hljóta menn að leggja sig í líma við að sjá til þess að því sjónarmiði sé mætt, sjá til þess að ekki verði ástundað okur.

Ég mun ekki á þessu stigi, herra forseti, fara nánar út í efnisatriði þessa máls. Ég mun heldur ekki leitast við að leggja fram neina aðra mælikvarða á hvernig eigi að skilgreina okur. Eins og ég sagði í upphafi þegar ég byrjaði að ræða það mál veit ég að hér er um vandasamt viðfangsefni að ræða og ég efast ekki um að sérfræðingar ríkisstjórnarinnar, ráðuneyti, Seðlabanki og hæstv. ráðh. hafa lagt sig fram í þeim efnum þegar þeir vita líka hversu mikið er í húfi og hvernig réttarvitund Íslendinga er að því er varðar háa vaxtatöku og okur í þeim skilningi. En ég tel nauðsynlegt að það mál verði rætt nánar og ítarlegar í þeirri nefnd sem fær þetta til umfjöllunar og þar gefst væntanlega tækifæri til að skoða það nánar.

Herra forseti. Ég vil að lokum fagna því að þetta frv. skuli vera komið fram. Ég tel að það sé til mikilla bóta að fella saman í einn lagabálk öll þau helstu ákvæði sem varða vexti. Ég hef bent á fáein atriði sem ég tel nauðsynlegt að séu skoðuð nánar í þessu samhengi. Ég hef varpað fram fáeinum spurningum til hæstv. ráðh. sem svarar væntanlega fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Ég tel að það sé nauðsynlegt að þetta frv. fái ítarlega umfjöllun. Hitt er svo eftir að vita hvernig mönnum tekst til við að ganga frá þessu frv., en ég lýsi því yfir fyrir hönd Alþfl. að við munum leggja okkur fram um að þetta frv. geti haft góðan framgang og munum leggja okkur í líma við að hjálpa til við að ná góðri niðurstöðu við afgreiðslu þessa máls, enda efast ég ekki um að fulltrúar stjórnarflokkanna í nefndinni séu reiðubúnir að líta á ýmis þau atriði sem ég hef hér sérstaklega gert að umtalsefni og tel að skoða þurfi í þessu sambandi.