28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

40. mál, opinberar fjársafnanir

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 40 hef ég leyft mér að flytja svohljóðandi fsp. til hæstv. dómsmrh.:

„Hvernig er háttað framkvæmd laga um opinberar fjársafnanir nr. 5 frá 1977? Hvaða reglur hefur ráðuneytið sett á grundvelli laganna?"

Á þinginu 1976-77 flutti ég frv. til laga um opinberar fjársafnanir sem Arnmundur S. Backman hæstaréttarlögmaður átti veg og vanda af. Árið 1977 var svo þetta frv. samþykkt einróma á Alþingi, enda alþm. sammála um að hér væri um mjög nauðsynlegt aðhald og eftirlit að ræða. Fjársafnanir ýmiss konar til stuðnings margvíslegum góðum málefnum eru mjög algengar hér á landi og fjölmargir aðilar koma þar við sögu. Engum er meiri nauðsyn en einmitt þeim sem að þessum fjársöfnunum standa að hafa ákveðið aðhald og um leið eftirlit með því að öllu sé til skila haldið. Ástæðulausar grunsemdir og alls kyns upphrópanir og gróusögur koma þá síður við sögu eins og átakanleg dæmi eru um. Þetta eftirlit er allvel tryggt með lögum þessum ef þeim er framfylgt.

Heilbrigt og eðlilegt eftirlit er þar býsna vel skilgreint og til viðbótar er ráðuneytinu heimilt að setja frekari reglur sem tryggja enn betur skilvirkt aðhald. Hér er ekki spurt af neinu sérstöku einstöku tilefni, en nauðsyn er að átta sig á annars vegar hversu lögunum hefur verið framfylgt og hverjar frekari reglur hafa verið settar. Sú spurning vaknar óneitanlega í ljósi ýmiss þess sem verið hefur á döfinni í þjóðfélaginu, bæði að undanförnu og áður, hvort lögin séu í raun og veru virk. Því tel ég nauðsyn að spyrja hæstv. dómsmrh. um þessi mál.