10.02.1987
Sameinað þing: 47. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2878 í B-deild Alþingistíðinda. (2664)

312. mál, verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Það er staðreynd sem ekki verður hjá vikist að það eru aðeins 2% af innlánum Íslenskra aðalverktaka í Sparisjóðnum í Keflavík sem er höfuðlánastofnunin þar. Ekkert meira var þar þegar við gerðum þessa fsp. og það var svar þeirra sjálfra þannig að hér er ekki um misskilning að ræða.

Ég vænti þess að þessi nefnd skili einhvern tímann af sér störfum eða ljúki því verkefni sem henni var falið. Ekki er að sjá að svo sé. En hitt er annað mál að menn telja að ýmsar breytingar séu væntanlegar og þykir mönnum syðra, a.m.k. í sveitarstjórnunum, eðlilegt að haft sé samráð við þær um hvernig með þetta verði farið.

Það gengur ekki lengur að verktakafyrirtæki þar syðra eyði öllum sínum peningum í að byggja glæsihallir í Reykjavík og fjármagna aðra þætti hér en skipta sér ekki af neinu sem lýtur að málefnum þar sem fjármunirnir verða til.

Varðandi tilvísun í fundargerð Verktakasambandsins vil ég taka það aftur fram að þessi fundargerð er til víðs vegar um öll Suðurnes. Hvernig það hefur átt sér stað veit ég ekki. Sjálfsagt hafa vildarmenn Matthíasar Á. Mathiesen komið henni á framfæri þar.