10.02.1987
Sameinað þing: 47. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2880 í B-deild Alþingistíðinda. (2667)

285. mál, umferðaröryggi á Reykjanesbraut

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þær vegarbætur sem framkvæmdar voru á Hafnarfjarðarvegi um Arnarneshæð árin 1975 og 1976 miðuðust við endanlega útfærslu vegarins sem felur í sér að Hafnarfjarðarvegurinn verði sprengdur niður í hálsinn, en Arnarnesvegurinn liggi yfir hann á brú. Þegar þeim var lokið var frekari framkvæmdum slegið á frest þar sem meira þótti liggja á endurbótum Hafnarfjarðarvegar gegnum Garðabæ og síðan nýbyggingu Reykjanesbrautar milli Hafnarfjarðar og Breiðholts.

Við endurskoðun vegaáætlunar nú verður væntanlega tekin ákvörðun um hvenær lokið verði við þær framkvæmdir sem eftir eru á Arnarneshæðinni til að Hafnarfjarðarvegur og Arnarnesvegur komist í endanlegt horf. Eins og vegamót Arnarnesvegar og Hafnarfjarðarvegar eru nú stafar umferðinni af þeim hætta sem framtíðarlausnin á að fyrirbyggja.

Það hefur mikið verið rætt um slysahættu á þessum stað og hefur Vegagerðin átt viðræður við lögregluna í Hafnarfirði um úrbætur til bráðabirgða. Í þeim umræðum hefur komið í ljós að bráðabirgðalausnir eru fáar og umdeildar. Helst hefur verið rætt um umferðarljós, en þeim er talin fylgja hætta á öngþveiti í snjókomu og hálku. Það mál er því ekki útrætt. Aðilar eru þó sammála um að slys á þessum stað stafa fyrst og fremst af of hröðum akstri, en lögreglan í Hafnarfirði telur sig ekki hafa bolmagn til að halda hraðanum innan hæfilegra marka á þessari leið. Þess má geta að fjárveitingar, sem veittar eru í því skyni að fækka umferðarslysum, hafa farið til staða á Reykjanesi sem taldir hafa verið enn hættulegri en Arnarneshæðin eins og t.d. í Ytri-Njarðvík og í Mosfellssveit.

Um Reykjanesbrautina er það helst að segja að umferðarslys dreifast um hana alla, enda þótt á þeim kafla sem er vestan Hafnarfjarðar séu þau tíðust í nágrenni Kúagerðis eins og nýleg dæmi minna á. Samt er slysatíðni á Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Njarðvíkur undir landsmeðaltali.

Í umræðum um slysahættuna á Reykjanesbraut hafa menn orðið sammála um að bundið slitlag á axlir vegarins muni leysa mikinn vanda og koma í veg fyrir mörg slysanna sem stafa af því að vegfarendur lenda í vanda vegna brúna sem oft myndast þegar laust efni á öxlum skolast frá sjálfri veghellunni. Hér er um framkvæmd að ræða sem varla verður framkvæmd nema í áföngum. Það hefur verið leitað lausnar á vanda kaflans um Kúagerði, en þar stafar hættan fyrst og fremst af hálku sem myndast skyndilega við sérstakar aðstæður, hitabreytingu og raka. Þótt til séu tæki sem aðvarað geti við hálkumyndun er ekki ljóst hvort slík tæki mundu leysa vandann á Reykjanesbrautinni.

Þegar vegáætlun verður til afgreiðslu innan tíðar sjá þm. Reykjaneskjördæmis hvað þeim verður ætlað til vegaframkvæmda og hvaða leiðir þeir velja, hvort þeir velji þá leið að ganga frá þeim kafla á Reykjanesbrautinni sem var opnaður á s.l. hausti og töluvert er eftir ógert við eða að hefja þá framkvæmd sem hv. fyrirspyrjandi talar hér um, veg á Arnarneshæðinni. Persónulega tel ég að miðað við það fjármagn sem fyrir er geti það ekki orðið alveg á næstunni að vegurinn verði tekinn niður af Arnarneshæðinni og brú byggð yfir eins og upprunalega er ætlað. Því tel ég þrátt fyrir annmarka og skiptar skoðanir manna í þessum efnum að nauðsynlegt sé að koma þarna upp umferðarljósum.