10.02.1987
Sameinað þing: 47. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2881 í B-deild Alþingistíðinda. (2669)

314. mál, veiði kúfisks

Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Á þskj. 554 hef ég ásamt hv. þm. Valdimar Indriðasyni borið fram svofellda fsp. til hæstv. sjútvrh. um veiðar og vinnslu kúfisks:

„Hvað líður störfum kúfisksnefndar? Liggja fyrir niðurstöður nefndarinnar um markaðsmál, veiðar og vinnslu á kúfiski?"

Ég vil fylgja þessari fsp. úr hlaði með örstuttri greinargerð.

Við þær aðstæður sem við búum við í sjávarútvegi þar sem takmarka hefur orðið svo mjög sókn í þorskstofninn er nauðsynlegt að hyggja sem mest að fleiri kostum við öflun þess sjávarfangs sem mögulegt og hagkvæmt er að nýta. Með öflugri flota og aukinni vélvæðingu og tækni í fiskvinnslu hefur stöðugt verið sótt inn á nýjar leiðir í fiskvinnslunni.

Ágætur árangur hefur orðið af vinnslu á rækju, humri og hörpudiski og hefur sú útgerð aukið á fjölbreytni í vinnslu og veiðum og skotið sterkari stoðum undir afkomu í sjávarútvegi. Er nú svo komið að þessar greinar eru gildur þáttur í sjávarútvegi. Ekki síst í þessum greinum veiða og vinnslu hefur það sannast að þróunarstarf og ítarlegar rannsóknir eru nauðsynlegar þegar hefja á nýtingu nýrra fisktegunda. á það jafnt við um veiðar, vinnslu og markaðssetningu.

Að mati fiskifræðinga er kúfiskur í verulegu veiðanlegu magni við landið. Þekking á veiðum og vinnslu kúfisks er hins vegar takmörkuð. Til veiða og vinnslu þarf sérhæfðan búnað og því er verulegur stofnkostnaður sem leggja þarf til í upphafi án þess að vissa sé fyrir hendi um niðurstöður.

Svo ná megi sem bestum árangri og komast hjá skakkaföllum vegna byrjunarörðugleika við veiðar og vinnslu er nauðsynlegt að rækilegar rannsóknir og tilraunaveiðar eigi sér stað. Það vakti því vonir þegar svokölluð kúfisknefnd var sett til að undirbúa og kanna nýtingu á kúfiski. Starf nefndarinnar hefur hins vegar ekki enn leitt til niðurstöðu svo að vitað sé. Því er borin fram fsp. til hæstv. sjútvrh. vegna þess að verulegur áhugi er fyrir framgangi þessa máls.