10.02.1987
Sameinað þing: 47. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2886 í B-deild Alþingistíðinda. (2674)

324. mál, jafnréttisfræðsla

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Árið 1976 voru fyrst sett lög hér á landi um jafnrétti kvenna og karla. Í 7. gr. þessara laga er kveðið á um jafnréttisfræðslu, en þar segir, með leyfi forseta:

„Í skólum og öðrum mennta- og uppeldisstofnunum skal veita fræðslu um jafnrétti kvenna og karla. Kennslubækur og kennslutæki sem þar eru notuð skulu vera þannig úr garði gerð og hönnuð að kynjum sé ekki mismunað.“

Sams konar ákvæði er að finna í þeim lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem sett voru vorið 1985.

Það er enginn vafi á því að jafnréttisfræðsla er ákaflega mikilvægur þáttur í að ná fram þeirri hugarfarsbreytingu sem nauðsynleg er til þess að um jafnrétti kvenna og karla geti verið að ræða í reynd. Gagnkvæmar skyldur og réttindi karla og kvenna, þær kvenímyndir og karlímyndir sem dregnar eru upp í kennslubókum og öðrum kennslugögnum og fræðsla um hvernig kynjamisréttinu er háttað, allt eru þetta grundvallaratriði jafnréttisfræðslu og mikilvæg til þess að auka skilning á því hvað sé jafnrétti, hvers vegna það sé mikilvægt og hvar því sé einkum ábótavant. Án þessa skilnings verður þessum málum seint komið í betra horf en þau eru í nú og því er jafnréttisfræðsla eitt af undirstöðuatriðum jafnréttis kvenna og karla. Þess vegna spyr ég hæstv. félmrh. á þskj. 567:

„1. Hvernig hefur verið staðið að jafnréttisfræðslu í skólum og öðrum mennta- og uppeldisstofnunum frá samþykkt laga um jafnrétti kvenna og karla árið 1976?

2. Hvernig er framkvæmd jafnréttisfræðslu háttað nú?"