10.02.1987
Sameinað þing: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2890 í B-deild Alþingistíðinda. (2679)

Síldarsamningar Norðmanna og Sovétmanna

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Alþjóðahafrannsóknastofnunin lagði til að heimilt yrði að veiða 150 000 tonn af síld úr þessum stofni á s.l. ári. Það liggur fyrir að stofnunin hefur lagt til að eingöngu yrði veidd síld sem er yfir 27 cm. Hins vegar hafa Norðmenn ekki viljað binda sig við það og miða við 25 cm. Það áttu sér stað samningaviðræður við Sovétmenn á þeim tíma, en samkomulag náðist ekki. Þá áskildu Sovétmenn sér rétt til þess að veiða sama magn og Norðmenn ætluðu sér að veiða eða 160 000 tonn, 10 000 tonnum meira en Alþjóðahafrannsóknastofnunin hafði lagt til, eða þá lá fyrir að hætt væri við að veidd yrðu samtals 320 000 tonn. Þá mótmælti íslenska ríkisstjórnin þessum fyrirætlunum á þeim tíma. Veiðar Norðmanna voru hins vegar innan við 100 000 eða 90-100 000 lestir. Þessar veiðar voru bundnar við manneldi þrátt fyrir mikinn þrýsting frá hagsmunaaðilum í Noregi. Á sama tíma veiddu Rússar hins vegar 26 000 tonn af smásíld í sinni lögsögu. Nú finnst hins vegar engin síld í lögsögu Sovétmanna og undir þessum kringumstæðum hafa Norðmenn kosið að ákveða veiðar 150 000 tonna af síld, þar af 135 000 tonn í eigin hlut og 15 000 tonn í hlut Sovétmanna. Þetta er sama magn og Alþjóðahafrannsóknastofnunin hefur lagt til. Það verður að segja eins og er að Norðmenn hafa haldið sig innan þeirra marka, en hins vegar ekki bundið sig við stærðarmörkin. En á síðustu vertíð voru þó aðeins af þeirra hálfu veidd eitthvað innan við 10 000 tonn af síld sem er innan þeirra stærðarmarka sem Alþjóðahafrannsóknastofnunin hefur lagt til.

Íslensk stjórnvöld ræða þetta mál í hvert einasta skipti sem fundir eru milli Norðmanna og Íslendinga eða Íslendinga og Sovétmanna. Í framhaldi af mótmælum okkar í fyrra tóku Sovétmenn mjög vel í okkar tilmæli og sendu hingað menn á s.l. ári til að undirbúa viðræður. Norðmenn hafa hins vegar ekki enn þá viljað fallast á viðræður um þessi mál þótt það hafi verið ítrekað, bæði á fundi sjávarútvegsráðherra Norðurlandanna í sumar og einnig á fundi sjávarútvegsráðherra Íslands og Noregs nú á haustmánuðum. Þeir lofuðu þó að taka málið til frekari athugunar en ekki hefur komið svar við því. Við óttumst að það kunni að koma til að veiðar hefjist utan landhelgi Noregs og Sovétmanna og þá sé þessum stofni miklu meiri hætta búin en er í dag.

Ég tel ekki, herra forseti, að við getum mótmælt þessu frekar en við höfum gert, m.a. með tilliti til þess að Norðmenn hafa þó haldið sig innan þeirra ráðlegginga sem hafa komið frá Alþjóðahafrannsóknastofnuninni að mestu leyti, og ég tel að okkar mótmæli á undanförnum árum hafi mjög orðið til þess að halda þeim við það.