10.02.1987
Sameinað þing: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2893 í B-deild Alþingistíðinda. (2684)

Síldarsamningar Norðmanna og Sovétmanna

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil eins og fleiri hv. ræðumenn þakka hv. málshefjanda fyrir að taka upp þetta mál hér. Ég held að það sé gott að frændur vorir Norðmenn átti sig á því að við teljum hér alvörumál á ferð.

Það segir sig auðvitað sjálft að það er um viðkvæma hluti að ræða þar sem er nýting sameiginlegra stofna, ég tala nú ekki um ef fleiri en tvær þjóðir eiga hlut að máli. Engu að síður hlýtur það að vera áhersla okkar, og það er nauðsynlegt að hún komist óbrengluð til frænda vorra Norðmanna, að við krefjumst þess að um slíka hluti sé haft samstarf og samráð. Það er óeðlilegt að slík ráðstöfun sé ákveðin einhliða af hálfu einnar þjóðar þegar fleiri eiga þar hagsmuna að gæta.

Það verður líka að segjast, herra forseti, alveg eins og er að framkoma frænda vorra Norðmanna í þessu máli kemur á óvart hvað sem um fyrri kynni mætti segja, m.a. vegna þess að þeir, þessir sömu frændur, stunda einmitt nú þessa dagana veiðar innan íslensku lögsögunnar á sameiginlegum stofni og njóta þar sérstakrar velvildar okkar Íslendinga, því að eins og kunnugt er hafa slíkar heimildir ekki legið á lausu og það er ekki útbært af hálfu okkar Íslendinga að hleypa öðrum þjóðum inn í fiskveiðilögsöguna. Því held ég að frændur vorir ættu einnig að gera sér grein fyrir að þær heimildir standa ekki hverjum sem er til boða og það skyldu þeir hugleiða. Ég hvet hæstv. sjútvrh., eins og fleiri hafa hér gert, til þess að fylgja þessu máli eftir af miklum alvöruþunga.

Að síðustu, herra forseti, verð ég að segja það alveg eins og er að mér kemur nokkuð á óvart sá skortur á menningarlegri tilfinningu eða skáldlegum smekk sem gerði vart við sig áðan þegar menn fyrtust nokkuð við þegar tekin var tilvitnun í ágætan menningarlegan kveðskap, tekin skáldleg líking af förumönnum. Mér kom mjög á óvart þetta skáldlega smekkleysi.