10.02.1987
Sameinað þing: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2906 í B-deild Alþingistíðinda. (2687)

214. mál, framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Hér er nú komin til umræðu skýrsla félmrh. um framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna. Þegar skýrsla hæstv. ráðh. um þróun og stöðu jafnréttismála var til umræðu hér á síðasta fundi í Sþ. þá ræddi ég allítarlega um þessi mál og ætla því að vera heldur stuttorðari nú og vísa til þeirrar ræðu minnar í umræðum um þessa skýrslu.

Eins og fram kemur í inngangi að skýrslunni er hún lögð fram í samræmi við þær endurbætur sem voru gerðar á jafnréttislögunum vorið 1985. Síðan kemur fram að það er ekki fyrr en í febrúar árið 1986 eða fullum sjö mánuðum eftir samþykkt laganna sem félmrn. vekur athygli Jafnréttisráðs á því að skýrslu sem þessa beri að leggja fram. Það tók sem sé ráðuneytið sjö mánuði að koma þeim skilaboðum til Jafnréttisráðs að þessi skýrsla væri orðin skylduverk og verð ég að segja að mér finnst það ekki mjög snöfurlega að verki staðið hjá félmrn. og hæstv. félmrh. sem virtist leggja töluvert kapp á að fá hin nýju jafnréttislög samþykkt á vordögum 1985. Má vera að þetta sýni okkur nokkuð sem ég hef áður gert að umtalsefni, og er reyndar einnig eins og rauður þráður í gegnum þessa framkvæmdaáætlun, að eitt eru orð og annað eru framkvæmdir í þessum málum yfirleitt.

Í þessari skýrslu sem hér er nú til umræðu segir að framkvæmd laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé í höndum Jafnréttisráðs. Þetta finnst mér harla undarleg túlkun á jafnréttislögunum þar sem framkvæmd allra laga, hvort sem það eru lög um jafnan rétt kvenna og karla eða einhver önnur lög, hlýtur vitaskuld að vera í höndum framkvæmdarvaldsins en ekki í höndum ráðs úti í bæ þótt slíkt ráð, og í þessu tilfelli þetta ráð, sé allra góðra gjalda vert. Síðan segir í skýrslunni, með leyfi forseta: „Umfang hennar“ [þ.e. framkvæmdaáætlunarinnar] „hlýtur að takmarkast við aðgerðir sem ráðuneytum og opinberum stofnunum er lögum samkvæmt rétt og skylt að grípa til á sínum vettvangi án þess þó að ganga inn á verksvið Jafnréttisráðs.“

M.ö.o. er þarna sett fram sú skoðun um framkvæmd jafnréttismála að þau séu í höndum annars vegar Jafnréttisráðs og hins vegar í höndum ráðuneyta og opinberra stofnana, og að framkvæmdin felist í því að framkvæma það sem þegar er að finna í lögum um þessi mál. Hér er ekki að finna eitt einasta orð um frumkvæði, um frumkvæði Alþingis eða frumkvæði framkvæmdarvaldsins í þessum málum. Framkvæmdarvaldið, í þessu tilfelli hæstv. ráðh., sér það greinilega ekki sem skyldu sína að leggja til einhverjar nýjungar á sviði jafnréttismála, að bera fram hér einhver lagafrv. sem horfa megi til bóta, heldur aðeins að framkvæma það sem þegar stendur í þegar samþykktum lögum. Og sú framkvæmd er að meiri hluta til að mati hæstv. ráðh. í höndum Jafnréttisráðs en ekki í höndum hans sem framkvæmdarvaldið hefur í sínum höndum.

Ég vil vekja athygli á þessari lagatúlkun sem kemur fram í inngangi þessarar framkvæmdaáætlunar og mótmæla henni vegna þess að ég tel hana í fyrsta lagi ekki rétta og í öðru lagi hlýtur það að vera skylda jafnréttisráðherra á hverjum tíma að eiga frumkvæði í þessum málum, en ekki bara að sjá til þess að það sem þegar hefur verið samþykkt sé framkvæmt.

Síðan kemur kafli um atvinnu- og launamál og þar er í fimm liðum að finna þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hyggst standa fyrir á næstu fjórum árum í þessum efnum. Ekki eru það nú rismiklar framkvæmdir, ekki síst þegar hafðar eru í huga niðurstöður nýjustu skýrslu Byggðastofnunar, Byggð og atvinnulíf 1985, sem dreift var hér á Alþingi í gær. Í þessari skýrslu kemur fram að munurinn á launum kvenna og karla hefur farið vaxandi frá árinu 1980, og hefur vaxið á árunum milli 1980 og 1985 um 56%. Í þessari skýrslu kemur einnig fram að konur hafa árið 1985 59% lægri meðallaun á ársverk en karlar og hefur þá þessi hlutfallstala aukist um 2% frá árinu áður, árið 1984 var hún 57%. Þetta eru beinharðar tölur um ástandið í þessum málum. Og hverjar eru þær framkvæmdir sem ríkisstjórnin ætlar að standa að? Jú, hér stendur að það eigi að kanna launamun kynjanna. Ég vil benda hæstv. ráðh. á að við höfum nógar kannanir. Við höfum rit Byggðastofnunar, bæði þetta nýjasta sem ég hef gert hér að umtalsefni, það sem kom út í fyrra og tók til vinnumarkaðarins árið 1984, við höfum könnun sem forsrh. fól Þjóðhagsstofnun að vinna og búin er að vera í vinnslu í tvö ár og hlýtur að koma úr vinnslu hvað úr hverju. Okkur vantar ekki kannanir og það tekst ekki að vinna bug á þessu kynbundna launamisrétti með könnunum heldur með aðgerðum. Það er þar sem hnífurinn stendur í kúnni. Það vantar aðgerðir en ekki kannanir.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði hér að umræðuefni í ræðu sinni áðan að Kvennalistinn væri ekki alls kostar sammála till. hans sem gerir ráð fyrir allsherjarúttekt á kynjamisréttinu hér á landi í samræmi við tillögu sem samþykkt var á Alþingi vorið 1985, um fullgildingu á alþjóðasáttmála um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Það er einmitt á þessum sömu forsendum sem við erum ekki fylgjandi þeirri þáltill., vegna þess að við vitum að það er hægt að svæfa öll mál með tímafrekum könnunum. Við vitum að lífeyrissjóðakerfið t.d. er búið að vera í könnun árum saman og það kemur ekkert út úr því og það er ekkert hægt að gera vegna þess að það er verið að kanna málið. Þess vegna óttumst við Kvennalistakonur að víðtækar kannanir, eins og till. þm. kveður á um, geti orðið til þess að svæfa mál, mál sem enga bið þolir, þar sem verður að grípa til aðgerða undir eins, og þess vegna erum við ekki fylgjandi þessari þáltill. Við höfum ekkert á móti því að fram komi auknar upplýsingar og að kannanir séu gerðar, en að það sé markmið í sjálfu sér dugar ekki í dag. Ástandið er of slæmt til þess.

Annað atriði sem við höfum gegn till. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar er það að þar er gert ráð fyrir að vinnuhópur manna, sem ef ég man rétt er að hluta til skipaður þm. eða fulltrúum þingflokka og að hluta til embættismönnum, gefi skýringar á þeirri kynjamismunun sem á sér stað hér á landi. Við vitum það Kvennalistakonur að þær skýringar, sem á hverjum tíma eru fram settar á misrétti því sem hér er á milli kvenna og karla, byggjast á afstöðu. Það er ekki hægt að skýra neitt misrétti í heiminum gjörsamlega óháð afstöðu, ég tala nú ekki um ef fulltrúar þingflokka eiga að fara að skýra þetta, sem hafa pólitíska afstöðu og hafa það fyrir starf að hafa pólitíska afstöðu, eiga að fara að setja fram slíkar skýringar. Það er ekki vinnandi vegur. Jafnréttismál eru pólitísk mál eins og önnur mál og þess vegna erum við alfarið andvígar því að það verði kveðinn upp einhver lokadómur, nokkurs konar Salómonsdómur um það af hverju þetta misrétti stafar, því sitt mun sýnast hverjum í því efni. Það er annað sem við höfum á móti till. hv. þm.

En það er fyrst og fremst þetta: Að svæfa ekki mál, sem verður að taka á undir eins með könnunum sem taka langan tíma. Þess vegna og ekki síst í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram í gær í skýrslu Byggðastofnunar um hið kynbundna launamisrétti hér á landi, þá þykja mér þessar framkvæmdir sem ríkisstjórnin ætlar að standa að á næstu fjórum árum í atvinnu- og launamálum kvenna hér á landi heldur en ekki máttlausar.

Það á að kanna launamuninn eins og hér segir í 1. lið.

Í 2. lið segir að það eigi að vinna úr upplýsingunum. Það hefði ég nú í raun og veru haldið að væri nokkurn veginn sami liðurinn því ef þú kannar eitthvað og safnar upplýsingum um það þá hlýtur þú að vinna úr þeim líka.

3. liðurinn sem nefndur er er sveigjanlegur vinnutími. Hann er allra góðra gjalda verður og við Kvennalistakonur erum eindregið fylgjandi því að sveigjanlegum vinnutíma verði komið á sem víðast. En hins vegar breytir hann ekki launamisréttinu í veigamiklum atriðum. Sveigjanlegur vinnutími sniðgengur það að mestu. Hann er hagræðingaratriði en hann breytir ekki launum kvenna og karla.

Síðan kemur 4. liðurinn, um launa- og atvinnumál, og eini liðurinn sem einhver fengur er í í þessum hluta framkvæmdaáætlunarinnar er sá liður sem kveður á um nýtt starfsmat. Ég fagna því mjög að sjá þennan lið hér því að ég held að greiðasta leiðin til að leiðrétta hið kynbundna launamisrétti sé einmitt með nýju starfsmati þar sem kvennastörfin eru endurmetin og þeir þættir sem einkenna þau, eins og þjónustu-, umönnunar- og uppeldisþættir verði metnir til jafns og lagðir að jöfnu við þá ábyrgðar- og frumkvæðisþætti sem einkenna karlastörfin. Að vísu hefði ég viljað sjá hér hvað varðar þennan lið að fleiri aðilar en hið opinbera og aðilar vinnumarkaðarins ættu að framkvæma þetta mat. Það er nauðsynlegt að hafa þarna einhverja hlutlausa aðila og hefði ég viljað sjá að þarna ætti Jafnréttisráð líka hlut að máli, Kjararannsóknarnefnd, Þjóðhagsstofnun og Hagstofan, sem allar hafa með höndum að safna upplýsingum um launakjör kvenna og karla, og að síðustu Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Ég vil benda hæstv. félmrh. á það að fyrir þessu þingi liggur till. til þál. um endurmat á störfum kvenna. Það er 11. mál þessa þings og kveður á um það að fram skuli fara nýtt starfsmat, eins og það sem liður 2.4 í framkvæmdaáætlun ráðherra kveður á um, hvað varðar störf kvenna í félögum ríkisstarfsmanna eða öðrum stéttarfélögum, þ.e. allra þeirra kvenna sem hjá ríkinu vinna, hvort sem þær tilheyra ríkisstarfsmannafélögunum eða öðrum stéttarfélögum eins og Sókn, Framsókn og öðrum slíkum. Þessi till. er hugsuð sem fyrsta skref í áttina að gagngeru endurmati á kvennastörfunum. Hún er hugsuð á þann veg að ríkið gangi á undan með góðu fordæmi, endurmeti kvennastörfin heima hjá sér og að þetta gæti síðan orðið fordæmisskapandi úti á vinnumarkaðnum þannig að launakonur sem ekki starfa hjá ríkinu geti á grundvelli þessa endurmats fengið sín störf einnig endurmetin.

Og nú vil ég spyrja hæstv. félmrh. að því hvort hann sé ekki samþykkur þessari þáltill. þar sem hún er samhljóða lið 2.4 í framkvæmdaáætlun hans og hvort hann sé ekki tilbúinn til að veita henni lið og samþykki sitt hér á þessu þingi.

5. liðurinn í aðgerðum varðandi atvinnu- og launamál kvenna er síðan stofnun fyrirtækja. Þar er lagt til að opinberir aðilar taki höndum saman og efni til námskeiða fyrir konur sem vilja stofna fyrirtæki. Það er auðvitað ágætt og allt af hinu góða. Það hlýtur náttúrlega að vera langtímamarkmið sem þarna er og ljóst þykir mér einnig að ekki verður þessi liður til þess að vinda bráðan bug að því að útrýma því hrikalega launamisrétti sem nú er við lýði í þjóðfélaginu milli kvenna og karla.

Á heildina litið eru þær framkvæmdir sem ríkisstjórnin ætlar að standa að á næstu fjórum árum, og ég bið hv. þm. að taka eftir því að þetta er fjögurra ára áætlun, þetta er ekki eitthvað sem á að gerast núna í vor eða sumar, heldur á næstu fjórum árum, það er ekki hátt risið á þessum framkvæmdum miðað við hvílíkt vandamálið er á þessum sviðum.

Síðan kemur kafli hér í framkvæmdaáætluninni um menntun og fræðslu. Þar er bent á það að munur á menntun kvenna og karla fari hraðminnkandi. Þar segir, með leyfi forseta: „Ástæða er til að ætla að námsval kvenna leiði til starfa sem líklegt er að leggist af eða breytist, sbr. skýrslu félmrh. um stöðu og þróun jafnréttismála.“

Þessa setningu vil ég biðja hæstv. félmrh. að skýra út fyrir mér hér á eftir því að ég skil alls ekki hvað hér er átt við. Á hæstv. ráðh. við að þau störf sem konur gegna, eins og fóstrustörf, hjúkrunarstörf, kennslustörf, þvottur, ræsting, matreiðsla, að þetta muni leggjast af? Ekki fæ ég séð hvernig þjóðfélagið á að geta gengið ef þessi störf leggjast niður. Ég verð að segja að mér er það alveg fullkomlega óskiljanlegt hvað hæstv. ráðh. á við hér og vona að þessi undarlega setning sé ekki vísbending um það að þau störf sem konur inna af höndum séu heldur lágt metin hjá hæstv. ráðh. sjálfum. Ef hann heldur að þau leggist hreinlega af er þá nokkur von til þess að hann telji þau mikilvæg?

Síðan er í þessum kafla lögð áhersla á að nauðsyn beri til að atvinnuþátttaka kvenna verði fjölþættari en nú er og að konur verði hvattar til að læra til tæknistarfa, eins og hér stendur í lið 3.4. Ég ræddi þetta ítarlega þegar við ræddum um skýrslu félmrh., um stöðu og þróun jafnréttismála, á síðasta fundi í Sþ. en ég vil aðeins endurtaka það að ég og við Kvennalistakonur erum gjörsamlega ósammála þessari áherslu í starfs- og launamálum kvenna og teljum hana engu fá breytt, þó ekki væri nema vegna þess að ef leysa á launavandann, þennan vanda sem við blasir, að konur hafa nærri 60% lægri laun en karlar úti á vinnumarkaðnum, með því að beina öllum konunum í karlastörfin, þá vaknar sú spurning: Hver á að vinna kvennastörfin? Ég held að hæstv. ráðh. verði ekki að þeirri von sinni að þau leggist af. Ég get ekki séð hvernig þjóðfélag á að þrífast án umönnunar barna, án þvotta, án ræstinga, án kennslu, án ljósmóðurstarfa o.s.frv., öll þessi láglaunuðu kvennastörf, hvort sem þau byggja á menntun eða ekki. Það er því engin lausn að beina konum inn á tæknistörf og inn á karlastörfin. Lausnin hlýtur að liggja í því, eins og kemur reyndar fram í lið 2.4 í þessari framkvæmdaáætlun, hún hlýtur að liggja í því að endurmeta kvennastörfin og meta þau til jafns við störf karla.

Í kaflanum um menntun og fræðslu er að finna aðgerðir þær sem ríkisstjórnin hyggst standa fyrir á næstu fjórum árum á þessu sviði. Þær eru í fimm liðum og ber þar fyrst að nefna jafnréttisfræðslu og má segja að allir hinir fjórir liðirnir sem fylgja þessum lið um jafnréttisfræðslu eru ekkert annað en útfærsla á fyrsta liðnum. Í 2. lið er talað um menntun kennara, þar þarf að koma til jafnréttisfræðsla. Það er talað um endurskoðun námsefnis, þar þarf að gæta jafnréttis. Það er talað um náms- og starfsfræðslu og náms- og starfsráðgjöf, þetta eru allt saman tegundir af jafnréttisfræðslu. Og fræðsla um fjölskyldumál, sem ég tel mjög af hinu góða. En þetta er allt saman útfærsla á þessum eina lið, að það skuli hrinda í framkvæmd ákvæðum 10. gr. laga nr. 65 frá 1985 sem kveða á um jafnréttisfræðslu. Þetta eru framkvæmdirnar, þetta eru markmiðin sem er að finna í þessari framkvæmdaáætlun á sviði menntunar og fræðslu á næstu fjórum árum. Ákvæði hefur verið í lögum frá árinu 1976 um jafnréttisfræðslu, það hefur verið í lögum í 11 ár og nú er það sem sagt sett fram sem markmið sem náð skuli á næstu fjórum árum að hrinda þessu ákvæði í framkvæmd. Ekki er nú hátt risið á þessu heldur, því miður.

Ég hefði haldið að það væri sjálfsagt mál að framkvæma gildandi lög og það þyrfti ekki að setja það í sérstakar framkvæmdaáætlanir að framkvæma þau. Svo virðist hins vegar vera. Og sýnir það okkur í rauninni sorglega stöðu þessara mála hér á landi.

Í 4. kafla er talað um trúnaðarstöður og ábyrgð og eins og þar segir er átaks þörf á þessu sviði, mikið rétt. Aðgerðir, ef má skilja lið 4.1. og 4.2. á þann hátt að þar sé um aðgerðir að ræða, eru í þá veru að ráðuneytið vinni að því, eins og hér segir, með leyfi forseta, „að konur sem starfa hjá hinu opinbera fái aukin tækifæri til að gegna ábyrgðarstöðum, sbr. 3. gr. laga nr. 65/1985“. Þetta er sú grein laganna sem heimilar tímabundna jákvæða mismunun og ég vil eindregið hvetja hæstv. félmrh. til að nýta sér þessa lagaheimild og beina því til samráðherra sinna og allra ríkisstofnana að þær nýti sér þetta til að rétta þann sorglega smáa hlut sem konur hafa á þessum sviðum.

Í kaflanum um félagsleg atriði er í fyrsta lagi bent á að þau séu ákaflega mikilvæg hvað varðar jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla og síðan er að finna framkvæmdaáætlun í fjórum liðum um það hvað skuli gera á hinu félagslega sviði til að ná markmiðum jafnréttislaganna frá 1985. Þar eru sem sagt talin til fjögur atriði. Það er fæðingarorlof, það eru réttindi heimavinnandi maka, það er samfelldur skóladagur og það er dagvistun barna. Öllum þessum málum hefur verið hreyft sem þingmálum á þessu kjörtímabili, hverju einu og einasta.

Svo að við byrjum á fyrsta málinu sem er fæðingarorlof. Þar segir í framkvæmdaáætlun hæstv. félmrh. með leyfi forseta: „Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins leiti leiða til að lengja fæðingarorlof í sex mánuði. Feður fái aukna heimild til töku fæðingarorlofs.“

Á þessu kjörtímabili hefur verið borið fram frv. til l., þrjú þing í röð, um lengingu fæðingarorlofs í sex mánuði og það að feður fái aukna heimild til töku fæðingarorlofs. Það má spyrja: Hvers vegna í ósköpunum hefur þetta frv. aldrei svo mikið sem átt afturkvæmt úr heilbr.- og trn. Ed. þar sem frv. hefur verið lagt fram? Eða tók það hæstv. ráðh. þessi þrjú ár og þrjár framlagningar á þessu frv. að sjá það að þetta var mál sem skipti máli til að ná fram jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla? Ja, það eru þá langar leiðslurnar ef þetta þarf til þess.

Síðan er 2. liðurinn og hann fjallar um réttindi heimavinnandi maka og þar segir, með leyfi forseta: „Tryggt verði að heimavinnandi maki njóti sömu réttinda á við þá sem eru úti á vinnumarkaðinum, t.d. lífeyristrygginga.“ Réttindum heimavinnandi fólks hefur margoft verið hreyft á þessu kjörtímabili, bæði af þm. Kvennalistans og af þm. annarra þingflokka. Og ég vil benda hæstv. ráðh. á það að fyrir þessu þingi liggur frv. til laga, það er 27. mál þessa þings, um lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra, þar sem 1. flm. er hv. varaþm. Málmfríður Sigurðardóttir. Er hæstv. ráðherra tilbúinn til að styðja þetta frv. og veita því fylgi sitt á þann hátt að það geti orðið að lögum á þessu þingi eða eru þessi orð hér í þessari framkvæmdaáætlun einungis upp á punt?

Síðan kemur 3. liðurinn í þessari framkvæmdaáætlun hvað varðar félagslegar aðstæður. Það er samfelldur skóladagur. Þar stendur, með leyfi forseta: „Komið verði á samfelldum skóladegi fyrir öll börn í grunnskóla og máltíðir verði hægt að fá í skólum.“ Eins og hv. síðasti ræðumaður kom inn á var hér samþykkt þáltill. þar sem mig minnir að 1. flm. hafi verið hv. þm. Guðrún Helgadóttir um það að komið skuli á samfelldum skóladegi. Hún var samþykkt fyrir tveimur árum. Það hefur ekkert verið um framkvæmdir. Eins hefur starfað og starfaði frá því um sumarið 1983 í umboði menntmrh. sérstök nefnd til að kanna tengsl fjölskyldu og skóla og þessi nefnd komst að þeirri niðurstöðu að samfelldur skóladagur væri nauðsyn og skilaði þeirri niðurstöðu fyrir meira en ári síðan. Enn er ekkert um framkvæmdir.

Fyrst komin er ályktun Alþingis um þessi efni og komnar eru nefndarniðurstöður um þessi efni má spyrja: Hvernig ætlar hæstv. ráðh. sér að standa að því að þessu markmiði verði náð? Það er komið það langt að það er komið niður á blað í framkvæmdaáætlun, en hvernig á að standa að því úr því að það sem hingað til hefur verið gert og samþykkt í þessum málum hefur ekki dugað til að koma samfelldum skóladegi á?

Síðan er það síðasti liðurinn í þessari framkvæmdaáætlun og það er dagvistun barna, og þar á að kanna. Eina ferðina enn á að kanna hversu þörfin sé mikil.

Ég vil, eins og síðasti hv. ræðumaður, benda hæstv. félmrh. á það að fyrir liggur ítarleg könnun og 10 ára áætlun um framkvæmdir í uppbyggingu dagvistarstofnana sem gerð var 1978 eða 1979, að fyrir liggja ítarlegar tölur um það hvernig ástandið í þessum málum er. Ég get frætt hæstv. ráðh. á því að fyrir rúmu ári, í des. 1985, var ástandið þannig að það var rúm fyrir 50% barna á landinu á aldrinum frá sex mánaða til fimm ára á dagvistarheimilum. Það er pláss fyrir helming þeirra. Þar af voru rúm 40% barna á þessum aldri í leikskólum sem aðeins bjóða fjögurra stunda fóstrun á dag en aðeins 9,7% barnanna, þ.e. innan við 10% allra barna á forskólaaldri á Íslandi, áttu kost á heils dags dagvistun. Þessar tölur liggja fyrir, hæstv. ráðh., og er hægt að fá þær upp í menntamálaráðuneyti með því að lyfta einu símtóli.

Til viðbótar þessu er einnig hægt að fá það upplýst að á skóladagheimilum landsins var fyrir ári síðan aðeins rúm fyrir 2,6% barna á aldrinum 6-11 ára, 2,6% barna á þessum aldri. Ástandið er vægast sagt hrikalegt og hvað ætlar hæstv. félmrh. að gera? Hann ætlar að kanna það. Hér, eins og í launamálunum, þarf ekki að kanna. Það þarf að framkvæma, hæstv. ráðh., og ég vil benda honum á það að við afgreiðslu fjárlaga ár hvert þetta kjörtímabil hafa komið fram fjölmargar tillögur um aukin framlög ríkisins til dagvistarmála. Þær hafa allar verið felldar af þeirri ríkisstjórn sem leggur fram þessa framkvæmdaáætlun, hver og ein einasta þeirra, sama frá hvaða þingflokki þær hafa komið. Og ég vil einnig benda hæstv. ráðh. á að fyrir tveimur árum síðan var vísað til ríkisstjórnarinnar frv. um sérstakt átak í dagvistarmálum barna. Það frv. kvað á um að árlega skyldi veita 0,08% af A-hluta fjárlaga til uppbyggingar dagvistarstofnana. Þessu frv. var vísað til ríkisstjórnarinnar á 107. löggjafarþingi með því fororði að nú skyldi átak gert. Hvað hefur gerst? Á hverju ári síðan hafa framlögin verið skorin niður. Og svo ætlar ríkisstjórnin að fara að kanna, kanna hvað þarf að gera í þessum málum. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri einustu átt. Og þetta eru þar að auki framkvæmdir til fjögurra ára.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um þessa framkvæmdaáætlun. Ég vona að hæstv. ráðh. geti svarað þeim spurningum, sem ég beindi til hans, hér á eftir. Ég vona einnig að þær framkvæmdir sem talað er um verði ekki þær einu sem kvenþjóðin hér á landi fær að sjá á næstu fjórum árum. Ég vona þó að þær sem hér eru gangi eftir vegna þess að það eru framkvæmdir sem öllu máli skipta, ekki pappírsplögg eða orð á prenti. Þess vegna vil ég að lokum spyrja hæstv. ráðh. hvernig og hvenær hann ætli að framkvæma það sem þó stendur í þessari framkvæmdaáætlun. Hvenær megum við eiga von á því að fá frumvörpin og tillögurnar hérna inn í þingið sem eiga að koma þeim hlutum sem tilteknir eru í þessari framkvæmdaáætlun í verk? Hvenær fáum við að sjá þær?

Ég vil að lokum segja það að hin nýja skýrsla Byggðastofnunar, sem ég hef gert að umtalsefni og fram kom í gær, efni hennar, þær upplýsingar sem hún hefur fram að færa, er í raun og veru óræk sönnun þess að meira þarf til en fögur orð eða lagabókstaf á borð við jafnréttislögin til þess að jafnrétti kvenna og karla geti orðið að veruleika hér á landi og til þess þarf einnig rismeiri áætlun en þá sem hér er nú til umræðu.