10.02.1987
Sameinað þing: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2914 í B-deild Alþingistíðinda. (2688)

214. mál, framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Hér hafa farið fram dag eftir dag langar og miklar umræður um jafnrétti. En eiginlega verður það að segjast eins og er að hvorki þykir mér mikið til koma skýrslu hæstv. ráðh. né fyrirætlana hans í jafnréttismálum né að mikið nýtt hafi komið fram í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram. Áhugi þm. leynir sér heldur ekki. Hér höfum við setið nokkrar konur undir þessari umræðu og örfáir karlmenn og einungis hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur tekið til máls og þykir nokkrum undrum sæta. Auðvitað skiptir því þessi umræða sáralitlu máli, hæstv. forseti, sáralitlu máli og breytir engu.

Kannske er það af því að þessi umræða hefur mjög verið rugluð. Sú var tíðin að kvenréttindakonur börðust fyrir réttindum kvenna réttilega og af ástæðu. Og þær fengu þau réttindi. Það var löngu áður en Kvennalistinn kom til sögunnar. Kvennalistinn hefur hins vegar aldrei áttað sig á því hvort hann er að berjast fyrir kvenréttindum eða jafnrétti, sem er allt annar hlutur. (SDK: Kvenréttindum.) Kvenréttindum, segir hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og það þykja mér nokkur tíðindi vegna þess að hér sveimar orðið jafnrétti allan tímann yfir höfðum þm. (Gripið fram í.) Jafnréttismál og kvenréttindi er tvennt ólíkt, hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir.

Þær Kvennalistakonur hafa heldur ekki gert þessum málstað mikið gagn einfaldlega vegna þess ekki af vondum málflutningi eða röngum skoðunum, heldur vegna þess að þær eru að heyja kvenréttindabaráttu undir nafninu jafnréttisbarátta og það er mjög óheilbrigt að öllu leyti, enda árangurinn eftir því.

Ef við setjumst niður og spyrjum okkur: Hvað hefur breyst til batnaðar? Ég hika ekki við að segja nákvæmlega ekki neitt. Við lifum í heldur verra þjóðfélagi en við gerðum áður. Ég endurtek þetta, hv. þingmenn Kvennalistans. Þjóðfélagið okkar er heldur verra en það var. Hver er ánægðari? Konur? Nei. Karlmenn? Nei. Börnin? Nehei, því að sannleikurinn er sá að allt þetta brölt hefur orsakað það að börn landsins og gamalmenni eru útigangsfólk í þjóðfélagi okkar. Það er enginn til að hugsa um þau. Ég held nefnilega að við eigum að tala um þessi mál eins og þau liggja fyrir.

Hér var verið að vitna í skýrslu Byggðastofnunar. Er launajafnrétti vaxandi í þjóðfélaginu? Nei. Því hefur farið aftur. Það hefur orðið meira bil á milli launa karla og kvenna á s.l. tveimur árum. Dettur konum, sem einar tala um þessi mál hér, með þeirri undantekningu að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur leyft sér að hafa skoðanir á þeim, aldrei í hug að velta fyrir sér: Er þessi barátta á réttri leið? Og ég hika ekki við að segja: Hún er það ekki. Sú er skoðun mín og ætti ekki að koma neinum á óvart að ég tel að þessi sérframboðastefna kvenna hafi enn ruglað umræðuna vegna þess að, eins og hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir sagði áðan mér til nokkurrar furðu, þetta er hápólitísk barátta. Það er þess vegna sem við erum, ég leyfi mér að segja, að níðast, og ekki á hæstv. ráðh. betra skilið, að níðast á honum fyrir frammistöðu í þessum málaflokki, og hann er auðvitað hraksmánarlegur vegna þess að hv. þm. af karlkyni og kvenkyni hafa ekki áttað sig á þeirri einföldu staðreynd að við erum hætt að tala um kvenréttindi. Við erum að tala um jafnrétti þjóðfélagsþegnanna. Ef þeir gerðu það færu menn að byrja að skilja og hafa áhuga á því sem við erum að segja, því að í stórum dráttum er ég sammála hverju orði sem þeir þm. Kvennalistans hafa sagt um þessi mál hér í sölum Alþingis, auðvitað er ég það. Ég tel hins vegar að um þessi mál sé talað á alröngum forsendum.

Nægir og að nefna að í öllum þessum málflutningi hefur varla verið talað orð um börn nema í máli hv. 5. þm. Austurl. Það er talað um fæðingarorlof af því að það varðar konuna. Það er ekki talað um fæðingarorlof af því að það varði barnið. (Gripið fram í: Þetta er nú ekki sanngjarnt.) (Gripið fram í: Jú, jú.) Ég hef hlýtt samviskusamlega á þessar ræður, hv. þm., og veit nokkurn veginn hvað ég er að segja. (Gripið fram í). Má ekki biðja, herra forseti, þingkonur Kvennalistans að bíða þangað til þær fá orðið. (Forseti: Forseti skal áminna þm. um það að hafa ekki samtal í salnum á meðan hv. 10. landsk. þm. hefur orðið.) Almennt eru konur ekki málgefnar en verða það skyndilega núna og þykir mér það heldur miður.

Ég er hér með frv. til fjárlaga fyrir framan mig, kaflann um félmrn., og það tók litlum breytingum þar til það varð að lögum. Í því góða ráðuneyti er aðeins unnið í einum málaflokki, enda tekur hann yfir þær síður sem standa í nafni félmrn., og það er sú deild ráðuneytisins sem fer með málefni fatlaðra. Þar er unnið vel svo að til fyrirmyndar er og meira að segja gengur ekkert sérstaklega illa nú orðið að afla fjár til þess málaflokks. Jafnréttisráð eyðir ekki miklu plássi af síðum fjárlagafrv. Ég held að það sé rétt, með leyfi herra forseta, að lesa það sem um það stendur.

Jafnréttisráð. Viðfangsefni: Almennur rekstur: 101 Jafnréttisráð: 3 millj. 443 þús. kr. Gjöld samtals sama tala. Tegundasundurliðun: 51 laun: 2 millj. 135 þús. kr., 52-58 Önnur gjöld: 1 millj. 308 þús. kr., gjöld samtals 3 millj. 443 þús. sem breyttist að vísu í 3 millj. 578 þús. kr.

Það segir sig auðvitað sjálft að engin alvara er að baki þessari vinnu, enda erfitt að sjá hvað þar hefur verið unnið. Harma ég nú mjög brottför Kvennalistakvenna hér úr sal því að ég held að hér sé um mikilvægt málefni að ræða. (GA: Það eru nú tvær inni en ein skrapp aðeins frá. )

Það sem ég held að þurfi að gerast í þessum málum er að menn geri sér ljóst hér á hinu háa Alþingi og í ráðuneytum landsins að við erum að tala um jafnrétti. Við erum að tala um jafnrétti, og það er ekki afsakanlegt að þá fari allir hv. þm. af karlkyni úr salnum. Þeir hafa einungis áhuga á efnahagsmálum. En jafnréttismál eru nefnilega efnahagsmál. Jafnréttismál snúast um hin einu sönnu efnahagsmál, þ.e. að efnahagsmál þjóðarbúsins komi þjóðinni eitthvað við, að staða efnahagsmála sé mælikvarðinn á hvernig fjölskyldunum í landinu líður, hvernig fólkinu í þessu landi líður. Þessi umræða um ákveðinn hóp kvenna, þar sem engar sjómannskonur finnast, engar bændakonur finnast, heldur mjög takmarkaður hópur kvenna sem vill vinna sér veg og virðingu úti í þjóðfélaginu, hann er einn til umræðu, hefur ekkert með jafnrétti að gera.

Það er miklu nær að skoða þessi mál í heild sinni og það er í raun og veru hægt að gera með því að líta aðeins yfir hvernig staða fjölskyldunnar er í dag. Laun í landinu eru svo óheyrilega lág og vinnudagur svo óheyrilega langur að það er búið að leggja svo til allt fjölskyldulíf í landinu niður. Hverjir þjást fyrir það? Það eru börnin og það er gamla fólkið sem er hætt að vinna. Meðferð á íslenskum börnum er satt að segja orðin hneykslunarhella sæmilega siðaðra þjóðfélaga hér í kringum okkur. Það er áreiðanlega leitun að landi sem talið er byggt sæmilega upplýstri þjóð, þar sem börn eru í eins ríkum mæli eftirlitslaus, jafnt í heimahúsum sem úti í umferðinni, eins og á Íslandi, enda segir tala slysa á börnum töluvert um það. Árið 1984, skv. opinberum skýrslum, urðu 44 börn á aldrinum 1-6 ára fyrir slysi í umferðinni. Þar af létust tvö. Það er ekki sagt neitt frá því í skýrslum Umferðarráðs hvernig hin voru útleikin, jafnvel varanlega.

Í skýrslu hæstv. ráðh. er talað um gæslu barna á forskólaaldri. Það þarf mikið meira en gæslu. Dagheimili og skóladagheimili þurfa að verða uppeldisheimili vegna þess að þar fer uppeldi barnanna fram að miklu leyti. Það ætti ekki að þurfa að geta þess sérstaklega meðal fullorðins fólks að nauðsynlegt sé hverju einasta nýfæddu barni að vera með móður sinni og helst föður fyrsta árið sem það lifir. Það þýðir hins vegar ekkert að loka augunum fyrir því að þar er móðirin auðvitað miklu mikilvægari af eðlilegum ástæðum. Það er í sjálfu sér næstum því villimennska að rífa barn þriggja mánaða frá móður sinni og henda því inn á einhverja stofnun. Og ég hika ekki við að segja: Það ætti að vera skylda hverrar einustu konu að annast barn sitt fyrsta árið sem það lifir, en hún á ekki að þurfa að líða fyrir það fjárhagslega.

Ef við ætlum að fá eitthvert vit í ástand þessara mála verðum við að gera tvennt og ég skal segja hæstv. ráðh. hvað það er. Við þurfum að byggja upp dagheimili eins og nokkur kostur er og fyrir liggja áætlanir um það sem er ósköp auðvelt að fara eftir. Meðan verið er að því verða þær konur, sem ekki fá pláss á dagheimilum, að fá laun heima hjá sér fyrir að annast barnið sitt. Það er enginn annar kostur. Það þolir ekkert heimili að kona fari heim á heimili sitt í neyð vegna þess að barnið kemst ekki á dagvistarstofnun og missi þar með helming eða verulegan hluta tekna heimilisins. Það er útilokað, þetta gengur ekki upp. Þetta verða menn bara að horfast ískalt í augu við og hætta að væla um hvort konu langar til eða langar ekki til að hafa tekjur, hún á engan annan kost. Einstæðar mæður eru ekki spurðar. Þær eiga þess nákvæmlega engan kost að vera heima hjá börnum sínum. Þeim er ekki boðið upp á það, og hvers eiga þær að gjalda? Hvers eiga konur sjómannanna að gjalda? Þessi mál verður að ræða út frá einhverjum vitrænum sjónarmiðum heldur en vera að þessu yfirborðsmasi ár eftir ár eftir ár. Og það er alveg sama hvað við samþykkjum marga lagabálka um jafnrétti kynjanna eða bann við mismunun kynjanna eða hvað þetta nú allt saman heitir: Ef ekki fylgja á eftir raunhæfar pólitískar aðgerðir gerist ekki neitt, enda hefur ekkert gerst.

Hvað eftir annað er talað um að fram fari nýtt starfsmat þar sem endurskoðað verði sérstaklega mat á hefðbundnum kvennastörfum annars vegar og störfum sem karlar vinna almennt hins vegar. Fyrir nokkrum árum flutti ég hér ósköp einfalda till. til þál. um að ríkið léti endurmeta störf opinberra starfsmanna með tilliti til jafnréttis kynjanna. Það liggur alveg á borðinu að það er leikur einn. Þetta getur hæstv. félmrh. látið gera og af hverju gerir hann það ekki? Sú tillaga náði ekki fram að ganga vegna þess að áhuginn var nákvæmlega enginn.

Það eru staðreyndir, sem ég skal ekki fara að eyða tíma í, að öll þessi loforð um könnun á hinu og þessu í þessari skýrslu eru út í hött því, eins og réttilega hefur komið fram. Þetta liggur allt saman fyrir. Við vitum nákvæmlega um þörf fyrir dagvistarstofnanir, við vitum ósköp vel um launamismuninn í landinu, við þurfum engar kannanir til þess. Ríkisstjórnin þarf einfaldlega að setjast niður og stjórnarflokkarnir, væntanlega í samvinnu við andstöðuflokkana, og snúa sér að lausn þessara mála eftir því sem kostur er og framkvæmdum.

Í Bandaríkjunum var með forsetabréfi fyrir einum 20 árum ákveðið að þær stofnanir í Bandaríkjunum sem ríkið á aðild að leituðust við og ynnu að því skipulega að konur í þeim stofnunum kæmust til ábyrgðar- og trúnaðarstarfa. Á 10 árum varð breyting: Fyrir þetta forsetabréf var tala kvenna í ábyrgðarstöðum á vegum opinberra stofnana eða hálfopinberra í Bandaríkjunum 13%. Eftir 10 ár var hún komin upp í 40%. Þetta er hægt að gera, hæstv. forseti. Ríkisstjórnin getur gefið út þá tilskipun að unnið skuli að því að konur taki við ábyrgðarstöðum á vegum hins opinbera. Þetta gátu þeir gert í Bandaríkjunum og þetta ætti ekki frekar að standa í okkur. Þetta eru raunhæfir þættir sem hægt er að vinna að. Okkur er nefnilega orðið alveg nákvæmlega sama að hverju er stefnt ef við komumst aldrei á leiðarenda.

Nema tíminn verði okkur hliðhollur, því að hlutir gerast ekki, heldur eru þeir gerðir. Í spá um mannfjölda árið 2010, sem Hagstofa Íslands hefur sent frá sér, kemur í ljós að árið 1985 voru börn innan við sex ára aldur 30,2%. Árið 2010 verða þau 23% ef svo fer sem nú horfir. Árið 1985 voru 65 ára og eldri 24,4%. Sá aldursflokkur verður árið 2010 35,7%. Svo stór bylting í aldursskiptingu þjóðarinnar hlýtur auðvitað að hafa veruleg áhrif á allt þjóðlífið, og það kynni að vera að sá tími kæmi að hv. þm. uppgötvuðu að við höfum dálítil ráð á því hvernig fjölskyldur kjósa að lifa, hvort fólk kýs að eignast börn, hvort því finnst æskilegt að eignast börn, og það er ekki fýsilegt eins og nú standa sakir. Enda verðum við vör við að því unga fólki, sem nú er í námi erlendis, e.t.v. komið með fjölskyldu, hrýs hugur við að flytja heim vegna ástands í húsnæðismálum, dagvistarmálum, öllum þeim málaflokkum sem gera aðstöðu fjölskyldunnar bærilega. Þetta getur auðvitað ekki gengið lengur. Þessari þróun verðum við að snúa við ef við ætlum ekki að standa frammi fyrir stórfelldum atgervisflótta út úr landinu. Eins og ástandið er í menntamálum og vegna skorts á skynsamlegri menntastefnu er ég hrædd um að við þolum ekki þann atgervisflótta, ef við eigum ekki að sigla hraðbyri inn í fátæktina, vegna þess að við erum að dragast aftur úr varðandi uppbyggingu og atvinnuþróun. Þetta er því enginn kerlingarvæll ef hv. þm. halda það. Því miður ber þessi umræða stundum svolítinn keim af því, en þetta eru grafalvarleg mál sem við erum að tala um, og þau merkustu sem koma inn í þingið reyndar, vegna þess að þau fjalla beint um líf fólksins í landinu en ekki prósentutölur um vexti, sem enginn veit hvað eiga að vera háir, eða þjóðhagsspár sem ævinlega reynast vitlausar. Við erum að tala um raunhæf mál þar sem við vitum að við höfum rétt fyrir okkur.

Herra forseti. Það fer að líða að því að ég verði eins langorð og þeir sem áður hafa hér talað og er það miður því að sjálfsagt er ræða mín ekki eins skipuleg og þeirra, enda stóð ekki til að endurtaka það sem þeir hv. þm. höfðu þegar sagt heldur að benda á nokkra nýja þætti. Það er svo athugandi, vegna þess að það er gjarnan talað um að það eigi að gera kannanir á hinu og þessu og þá eru það venjulega kannanir á einhverju sem við vitum nákvæmlega hvernig er, að til eru málefni tengd þessum þjóðfélagsbreytingum, sem réttindi kvenna hafa skapað m.a., sem væri áhugavert að kanna. Veit nokkur hvaða áhrif það hefur haft á neysluvenjur þjóðarinnar að báðir foreldrar vinna nú úti? Ég er hrædd um að það hafi haft veruleg áhrif á íslenskt efnahagslíf. Þetta væri forvitnilegt rannsóknarefni.

Það er vitað að íslensk börn í velferðarþjóðfélagi okkar lifa jafnvel á verra fæði en á tímum þegar fólk hafði miklu minna milli handanna, var miklu verr menntað og á allan hátt félagslega verr sett segjum við sjálfsagt í dag. Um það hef ég að vísu nokkrar efasemdir. Það held ég að sé mikið matsatriði og varðandi börnin ekkert matsatriði. Börn a.m.k. á stærstu þéttbýlissvæðunum eru ekki betur sett en þau voru fyrir 30 árum og gæti ég haldið langa ræðu um það.

Ég ætla ekki að fara að ræða húsnæðismál, þau endemi sem Íslendingar búa við og verður ekki séð hvernig þjóðin kemst út úr. En auðvitað hefur ömurleg staða húsnæðismála veruleg áhrif á allt fjölskyldulíf og þar með öll jafnréttismál. Það er nefnilega ekkert jafnrétti að búa við það að fólk hafi bókstaflega engan tíma til að sinna börnum sínum, til þess að eiga sér einhverjar frístundir, til þess beinlínis að vera til. Og hvernig ætla menn að halda uppi vitrænni umræðu í þjóðfélagi þar sem enginn má nokkurn tíma vera að því að setjast niður, tala saman og helst að hugsa áður, að ég nú ekki tali um að reyna að lesa sér eitthvað til? Þessi aðbúnaður fjölskyldunnar hefur víðtæk áhrif á allt þjóðlífið. Það hefur löngum vakið furðu mína hvað verkalýðssamtökin sætta sig við þetta ástand. Það væri líka forvitnilegt að kanna hvaða áhrif það hefur haft á laun manna í landinu beint að konur komu í auknum mæli út á vinnumarkaðinn. Þetta er forvitnilegt.

Ég hef áður bent á að sú var tíðin að einn kennari vann fyrir heilli fjölskyldu. Nú þarf þrjá ef ekki fjóra. Og hverjir kenna í skólum landsins? Að miklum meiri hluta konur auðvitað. Við eigum að þora að horfa framan í þessar staðreyndir og meta það ískalt hvernig stendur á að sjálfsögð mannréttindi kvenna hafa að mörgu leyti orðið til þess að afvegafæra fjölskyldulíf og þar með þjóðlíf allt. Ég held að sú umræða sé nauðsynlegri nú en nokkurn tíma áður, í stað þeirrar einstefnu sem farin er í þessum málum.

Það er ótalmargt sem verður til þess að breyta mati manna á því sem fram fer í kringum þá. Ég ætla ekki að fara út í þá djúpsálarfræði sem býr að baki notkunar á konum í auglýsingaheiminum, tískuheiminum, öllu því glysi og glamri sem ríkisfjölmiðlar sem aðrir leyfa sér að hella yfir þjóðina og þá helst blessuð börnin sem helsta afþreyingu hafa af þeim tækjum. Mætti ekki hugsa sér að íslenska ríkisstjórnin markaði sér einhverja stefnu í því hvað íslenska sjónvarpið t.d. leyfir sér að sýna? Það gæti vissulega breytt hugmyndum ungra kvenna um sjálfar sig og eigin sjálfsvitund. Þetta finnst hv. þm. fáránlegt að tala um á hinu háa Alþingi. En þetta atriði er ekki hvað minnstur þáttur í slaklegri sjálfsvitund kvenna og það er satt að segja raunalegt að sjá ungar menntaskólastúlkur hvolfa sér yfir fréttir af bekkjarsystrunum sem eru að flækjast út um allan heim við að sýna föt og líta á það sem eitthvert markmið í sjálfu sér að vinna þess konar störf þó að þjóðfélagið sé að mennta þær til annarra svo sannarlega merkilegri starfa. En börnin okkar verða fyrir áhrifum af því sem fram fer í kringum þau og þau eru alin upp við þetta glamur, í ríkisfjölmiðlum sem í öðrum fjölmiðlum.

Herra forseti. Um þetta mætti sjálfsagt tala næstum því endalaust. En ég vil bara segja þetta að lokum: Ég hef ekki eins miklar áhyggjur af illri meðferð á konum og ég hef af börnum og þess vegna hef ég á þskj. 4 borið fram frv. til l. um embætti umboðsmanns barna sem liggur til afgreiðslu í þinginu og hæstv. félmrh. tók vinsamlega undir þegar ég mælti fyrir því. Ég hef ekki miklar vonir um að það frv. nái fram að ganga, enda flýtti formaður allshn., hv. þm. Gunnar G. Schram, sér úr salnum þegar ég hóf máls á því. En hjá honum er málið statt.

Ég held nefnilega að svo sé komið að það þurfi virkilega aðila í þjóðfélaginu sem stendur vörð um að réttinda barna sé gætt þó ekki væri nema að lágmarki. Við skulum ekki gleyma því að börn upp að 15 ára aldri eru nú í landinu 67 500 eða rúmur fjórðungur af íbúum þessa lands. Þetta er næsta kynslóð. Þetta er fólkið sem við erum að ala upp. Þetta eru litlu börnin sem koma heim úr skólanum einhvern tíma rétt eftir hádegið. Þar er enginn heima, hvorki til að gefa þeim að borða eða hirða þau eða tala við þau. Þeirra afþreying er mismerkilegt myndbandaefni og yfir því mega þau hanga með einhvern hænsnamat til að seðja hungur sitt þangað til klukkan 7 á kvöldin að foreldrarnir koma heim. Hvers konar uppeldisskilyrði eru þetta fyrir börn? Enda hvað heyrir maður nú síðast? Það á að stofna barnasíma svo að börn landsins geti þó hringt í eitthvert símanúmer og talað við fólk! Ég spyr hv. þm.: Er þetta þjóðfélagið sem við viljum? Ekki ég a.m.k., jafnvel þó það kosti einhverja skerðingu á réttindum kvenna. Ég set réttindi barnanna ofar þeim.

Við ættum að snúa okkur að þessum atriðum sem ég hef hér nefnt nú þegar. Þau eru framkvæmanleg ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Ég held að við eigum að snúa þessari umræðu frá okkur sjálfum og fara að tala um okkur öll, fólkið í þessu landi. Þá væri kannske von til þess að hv. þm. af karlkyni entust til að sitja hér nokkra stund. Mér er mikið gleðiefni að þeim fjölgar nú í salnum og tek ég það til marks um ágæti ræðu minnar. Það hlýtur að hafa spurst niður í kaffistofu. En hv. þm. Til hinna verðið þið að skila því að hér hafi verið flutt ræða um jafnrétti, ekki kvenréttindi, og ég vænti þess að næst þegar það mál ber hér á góma flykkist menn hér í sal og taki þátt í þeirri umræðu, því að ég held að ef jafnrétti næðist milli kvenna, barna, karla, gamals fólks, fatlaðra og allra þeirra sem í þessu landi lifa yrðu allir ánægðari.