10.02.1987
Sameinað þing: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2920 í B-deild Alþingistíðinda. (2689)

214. mál, framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Á síðasta fundi í Sþ. voru jafnréttismál einnig til umræðu og eins og fram hefur komið hér var mun fámennara í þessum sal en nú er og eigum við kannske von á því, konur, að karlmenn flykkist einnig á mælendaskrá og tjái sig um þau atriði sem hér eru til umræðu. Það hefur einnig komið fram að einn hv. þm. hefur bæði þessi skipti látið þessi mál sig varða og tjáð sínar skoðanir.

Ég ætla ekki að endurtaka allt það sem hér hefur komið fram, en ætla að byrja varðandi launamálin. Í skýrslu um byggð og atvinnulíf frá 1985, sem Byggðastofnun hefur gefið út, koma fram margar markverðar upplýsingar og tel ég að það megi byrja að vinna úr þeim upplýsingum án þess að bíða eftir fleiri könnunum eins og kemur fram í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu að sé fyrsta atriðið sem hæstv. ráðh. leggur áherslu á. Ég ætla að lesa upp nokkrar staðreyndir úr þessari skýrslu, með leyfi hæstv. forseta, og þá ætla ég að tíunda aðeins opinbera starfsemi þar sem ríkið ræður í störf og semur um þau laun sem þar er um að ræða.

Hér eru upplýsingar um ársverk og meðallaun eftir kyni árið 1985 og þar er tekið til landsins alls. Opinberar framkvæmdir. Þar eru karlmenn með að meðaltali á ársverk 489 þús. en konur 242 þús. Póstur og sími sem er opinbert fyrirtæki. Þar eru karlmenn með 542 þús. en konur 383 þús. Peningastofnanir. Eins og við vitum eru það flest ríkisbankar, náttúrlega einkabankar líka, en við skulum áætla að það sé svipað hjá ríki og einkafyrirtækjum þar á bæ. Þar eru karlar með 690 þús. en konur 403 þús. Opinber stjórnsýsla. Þar eru karlmenn með 638 þús., konur með 371 þús. Opinber þjónusta: karlmenn 604 þús., konur 376. Leggjum þessar tölur saman og athugum hvað laun kvenna þurfa að hækka mikið til að ná karlmönnum bara hjá því opinbera eins og hér kemur fram. Það nægir ekki minna en 65% hækkun. Því hefði ég viljað sjá í þessari skýrslu að fyrsti áherslupunktur ráðherrans væri hækkun á launum kvenna hjá því opinbera. Við þurfum ekki fleiri tölur til að bíða eftir því að framkvæma eitthvað. Úrvinnslu upplýsinga má geyma þangað til er búið að gera eitthvað. Það er alltaf gott að hafa upplýsingar til að fletta í, en meðan ekkert skeður og allt versnar er ekki hægt að leggja fram plögg þar sem beðið er um frekari upplýsingar og markmiðið er að vinna úr upplýsingum.

Þriðja atriðið er sveigjanlegur vinnutími. Auðvitað er jákvætt að konur geti haft sveigjanlegan vinnutíma. En það er eitt áhersluatriði sem ég vil nefna í því sambandi og það er varðandi vaktavinnu. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að 80% vaktavinna ætti að vera 100% starf. Konur sem vinna 100% vaktavinnu á kvöldin og um helgar á nóttunni hafa ekki mikinn kraft eftir til að sinna sínum heimilum. Þetta dettur ekki ráðamönnum í hug þegar þeir eru að semja um kaup og kjör. Það er frekar gagnrýnt að á sjúkrahúsum skuli stór hluti kvenna vinna í hlutastarfi. Meira að segja eru konum sem vinna í 100% starfi á sjúkrahúsum greidd viðbótarlaun fyrir að vinna í 100% starfi. En ég held að 80% starf í vaktavinnu ætti að metast sem 100% starf og bið hæstv. ráðh. að taka það til umhugsunar.

Fjórði punktur er nýtt starfsmat. Ég vil líka biðja hæstv. ráðh. að útskýra aðeins fyrir mér hvers konar starfsmat er hér um að ræða vegna þess að í samningum er oft samið um starfsmat og það eru margir hópar í þessu þjóðfélagi sem hafa starfsmat og það ekki síst hjá því opinbera. Þess vegna er það aðalatriðið hvaða viðmiðun þeir hafa sem framkvæma starfsmatið? Ef það eru kannske 2-3 kvennastéttir sem verið er að miða saman kemur ekki sama út úr því eins og verið sé að miða við karlastéttir. En hér er tekið fram um sérstakt mat á hefðbundnum kvennastörfum, annars vegar á störfum sem karlar vinna almennt, hins vegar t.d. ýmis iðnaðarstörf og tæknistörf. Fleira er ekki talið upp.

Fimmti punktur er um stofnun fyrirtækja. Ég tel þann punkt mjög góðan og nauðsynlegan. Þetta hefur átt sér stað á undanförnum árum og ég tel að það þurfi að vera framhald á því. Við skulum alla vega vona að þegar fleiri konur eru orðnar atvinnurekendur hækki þær launin við þær konur sem þær ráða í vinnu til sín.

Menntun og fræðsla. Hér koma fram margar frómar óskir um hvernig væri hægt að haga þeim málum betur en þau eru og ýmislegt þar jákvætt einnig.

Trúnaðarstöður og ábyrgð. Þar er í fyrsta lagi fjallað um hlutfall kvenna í trúnaðarstöðum ríkis og sveitarfélaga. Ástandið er þannig að milli 3 og 5% þeirra sem starfa í trúnaðarstörfum hjá ríki og sveitarfélögum eru konur. Hitt eru allt karlmenn. Þarna er hægt að framkvæma en ekki bara hugsa og ekki bara setja óskir niður á blað.

Síðan komum við að félagslegum atriðum í 5. kafla skýrslunnar. Það hefur verið hér heilmikið rætt um fæðingarorlof og auðvitað hefur það mikið að segja hversu langt fæðingarorlof er. Ég get vel tekið undir þá skoðun að lágmark sé sex mánuðir, en geri mér ekki ýkjamiklar vonir um að slíkt frv. verði gert að lögum það sem eftir er af þessu þingi þannig að hér er verið að leggja ósk fyrir næstu ríkisstjórn. Við skulum bara vona að hún fari eftir því nema hæstv. ráðh. vilji upplýsa að þetta frv. sé rétt á leiðinni.

Í öðru lagi er réttur heimavinnandi maka. Vissulega er þetta góð ósk í sjálfu sér, en til að breyta slíku þarf einnig frv. til l. og meðan ekkert slíkt er lagt hér fram verður maður að líta á þessa skýrslu sem óskhyggju.

Hér hefur einnig verið rætt um samfelldan skóladag. Þál. um það efni hefur verið samþykkt á hv. Alþingi og ekkert enn þá skeð í þeim málum.

Dagvistun barna. Við vitum alveg hvernig síðustu fjárlög litu út í þeim efnum þannig að maður á bágt með að trúa því að það fylgi hugur máli þegar fram kemur núna skýrsla, ekki einu sinni fáeinum mánuðum heldur rúmum mánuði eftir að fjárlög voru samþykkt, um að það sé mjög brýnt að auka dagvistarrými.

Í þeim fjárlögum sem samþykkt eru núna vil ég benda hæstv. ráðh. á að ýmis foreldrasamtök, fimm að tölu, hafa fengið frá 5 þús. og upp í 50 þús. framlag frá ríkissjóði til að byggja dagvistarstofnanir. Skyldi það ekki vera vegna þess að skorturinn er svo mikill að fólk verður að grípa til sinna ráða? Mörg af þessum foreldrafélögum eru í litlum sveitarfélögum úti um land.

Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að það er ekki nauðsyn á ítarlegri könnunum. Það er nauðsyn á því að eitthvað verði framkvæmt. Ég vona a.m.k. að hæstv. ráðh. boði hér komu frumvarpa til þess að hann geti nýtt sér þá mánuði sem hann á eftir í ráðherrastól til að koma þessum málum áfram. Um dagvistarheimilin kom einnig fram að það er til tíu ára áætlun. Ætlum við að gera tíu ára áætlun í viðbót? Megum við þá ekki alveg eins búast við því eftir tíu ár að það verði aftur tíu ára áætlun? Nei, hæstv. ráðh. Það er varla hægt að láta bjóða sér að lesa svona skýrslu sem markvisst plagg um framkvæmdaáætlun. Það verð ég að segja alveg eins og er. Þrátt fyrir að sum atriðin séu jákvæð eru þetta frómar óskir fyrst og fremst og ekkert áþreifanlegt. Það er ekki til.