10.02.1987
Sameinað þing: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2923 í B-deild Alþingistíðinda. (2690)

214. mál, framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af ræðu hv. 10. landsk. þm. sem gustaðist úr ræðustólnum áðan. (GHelg: Gustaðist. Þetta er nú aðeins karlmannaorðbragð í þinginu, frú alþingiskona. Einungis karlar segja um konur „gustaðist“.) Nú spyr ég hæstv. forseta að því eins og hv. 10. landsk. þm. gerði áðan hvort það hafi ekki einn orðið í einu hér. (Forseti: Jú, það skal að gefnu tilefni minnt á að það talar aðeins einn í einu meðan á þingfundi stendur.) (GHelg: Ég skal reyna að virða það, herra forseti.) Hv. þm. til upplýsingar átti nú orðið „gustur“ við orð þm. því að þannig flugu þau hér um þingsali og var það nú frekar meint sem hrós frekar en annað.

Hins vegar gætti í máli þessa hv. þm. þess sama leiða misskilnings sem hefur mátt heyra í máli hennar hér á hv. Alþingi og víðar um hvað Kvennalistinn snýst, til hvers hann er og hverjar eru grundvallarhugmyndir Kvennalistans. Það virðist allt koma fyrir ekki. Það er sama hvort það eru greinaskrif eða ræðuhöld. Það virðist ekkert þokast með að þessum misskilningi létti.

Það kom hv, þm. á óvart að heyra mig segja það áðan að kvenfrelsis- eða kvenréttindamál væru hápólitísk mál. (GHelg: Já.) Það hef ég, hv. þm., og aðrir talsmenn Kvennalistans ævinlega sagt, frá upphafi. Við höfum ævinlega sagt: Þetta eru pólitísk mál. Við erum komnar út í stjórnmál til að reka kvennapólitík og ekki neitt annað. Síðan var þm. jafnhissa á því að ég sagði að við berðumst fyrir kvenréttindum en ekki jafnrétti. Ég skal með ánægju senda hv. þm. eintak af stefnuskrá Kvennalistans, sem ég hef því miður ekki hjá mér núna og mun ekki vera eintak til af í húsinu, þar sem segir í 1. mgr.: Við höfnum jafnréttishugtakinu vegna þess að það hefur leitt af sér baráttu fyrir því að konur fái að vera jafngildar körlum á forsendum karla eins og karlar. Þess í stað berjumst við fyrir kvenfrelsi, fyrir því að konur fái að vera metnar á sínum eigin forsendum til jafns við karla. Þetta er fjögurra ára gömul stefnuskrá. Á henni hefur starfið hér á þingi grundvallast og upp úr henni hefur margoft verið lesið, þetta m.a., og ég skal með ánægju senda hv. þm. eintak við fyrsta tækifæri.

Síðan gekk þm. nokkuð fram af mér þegar hún sagði að hún teldi allt starf Kvennalistans misráðið, af því væri enginn árangur og allt hefði versnað með tilkomu hans og tók hún þar m.a. til þeirra niðurstaðna sem nú er að finna í nýjustu skýrslu Byggðastofnunar um þann launamun sem er á konum og körlum. Ég verð að segja alveg eins og er, hv. þm., að ég er hneyksluð. Hvar er pólitísk vitund þm.? Veit hún ekki að Kvennalistinn stjórnar hvorki vinnumarkaðnum né þessu landi og þar af leiðandi er ekki nokkur lifandis leið að krossfesta Kvennalistann af öllum sem hefur staðið upp við hvert einasta tækifæri til að reyna að benda á þetta hrikalega misrétti og fá það leiðrétt. Ætla svo að fara að kenna honum um það af öllum! Annað eins hef ég ekki heyrt ef ég má segja það hér.

Síðan er það þetta með börnin, að Kvennalistinn sé allaf að tala um konur og tali aldrei um börn. Ég verð að biðja hv. þm. um að lesa þingræður Kvennalistakvenna. Ég get ekki endurtekið þær eða vísað til þeirra með öðrum hætti. Hún mun komast að því að næstum því í hverri einustu þingræðu er vikið að málefnum barna. Ég bið hana t.d. að lesa framsöguræðu með fæðingarorlofsfrv. Kvennalistans þrjú þing í röð. Þar er aðallega talað um börn, um nauðsyn þess fyrir börn að fá að hafa móður sína heima lengur en þrjá mánuði eftir fæðingu.

Ég bendi henni á dagvistarfrv. Kvennalistans. Þar er tekið til barna líka. Ég bendi henni á þau mál sem Kvennalistinn hefur flutt varðandi mat á þeim störfum sem húsmæður vinna. Þar er tekið til barna líka. Við erum alltaf að tala um börn og jafnvel svo að við höfum fengið þá gagnrýni að tala ekki um neitt nema börn, eilíf dagvistarheimili, eilíf barnamál, eilíft fæðingarorlof, alltaf verið að tala um börn. Síðan kemur hv. þm. hér og segir: Kvennalistinn talar aldrei um börn.

Herra forseti. Ég hlaut að koma hér upp og svara þessum orðum hv. 10. landsk. þm. og ég vísa þeim frá sem ósannindum með öllu.