10.02.1987
Sameinað þing: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2927 í B-deild Alþingistíðinda. (2693)

214. mál, framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mér líður nú eins og fornkappa sem klýfur fólk í herðar niður og finnst hart að horfa á eftir hv. 10. landsk. þm. úr þingsal en ég veit að hún er samviskusamur þingmaður og þingkona og mun lesa þetta og væntanlega munu flokksbræður hennar hlýða á ræðu mína.

Hv. 10. landsk. þm. flutti nefnilega mjög merka ræðu hérna áðan eins og hún sagði sjálf. Ég er reyndar ekki jafnmælsk og hún og heldur ekki kannske jafnviss um ágæti orða minna eins og hún virðist vera, en mér fannst margt mjög gott í því sem hún sagði en sumt skildi ég alls ekki. Fyrsti hluti ræðu hennar var vondur, mjög vondur og það hefði ég viljað segja að henni áheyrandi, enda freistaðist ég til þess að kalla þarna fram í. Og mér datt sannarlega í hug: Hvaða læti eru þetta? Hv. þm. segist nefnilega geta tekið undir allt eða næstum því allt sem við segjum og mér heyrðist hún endurtaka það hér áðan að hún væri sammála öllu sem við segðum, hún væri bara ekki sammála Kvennalista. En hvers vegna þá þessi læti? Mér datt nú í hug sagan af karlinum sem er skammaður í vinnunni, líklega af forstjóranum, og hann fer heim og lætur það bitna á konunni sem skeytir skapinu á barninu sem togar í rófuna á kettinum og kötturinn er líklega eini aðilinn sem lætur ekki espa sig til þess að taka erfiðleika sína út á öðrum.

Hv. 10. landsk. þm. velti vöngum yfir því hvort Kvennalistinn væri að tala um kvenréttindi eða jafnrétti og virtist andvíg því að kvenréttindi blönduðust í umræðu um jafnrétti. En mér er ómögulegt að skilja hvernig hægt er að forðast kvenréttindatal í umræðu um jafnrétti því að á hvern hallar í sókn okkar eftir jafnrétti? Það eru konur og til þess að ná jafnrétti þurfum við að auka rétt kvenna. Það er málið.

En það var einkum eitt sem fór fyrir brjóstið á mér í ræðu hv. 10. landsk. þm., og inn á það kom hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir raunar hér áðan. Það voru fullyrðingar hennar sem mátti sannarlega skilja á þann veg að Kvennalistinn berðist aðeins fyrir bættum rétti kvenna og gleymdi því að berjast fyrir réttindum barna og það er allra óskiljanlegasti hluti ræðu hennar ef hún hefur hlustað svo vel sem hún segir og fylgst svo vel með störfum okkar. Ég hef heldur ekki, því miður, stefnuskrá Kvennalistans, en ef ég man rétt þá segjum við þar að Kvennalistinn stefni að þjóðfélagi þar sem allir eru jafnréttháir, konur, karlar og börn. Þetta er kannske ekki alveg orðrétt upp tekið, ég kann stefnuskrána ekki utan að frekar en biblíuna, en þetta er svo sannarlega meiningin og það tel ég að við höfum ætlað okkur að gera hér inni á þingi og það höfum við gert.

Um hverja halda þm. að við séum að tala þegar við berjumst fyrir auknum dagvistum og bættum aðbúnaði barna, fyrir bættum aðbúnaði í skólum, kennslugagnamiðstöðvum, fyrir fæðingarorlofi, skólaseljum, fyrir barnabótum og hverju sem nafni má nefna? Vitanlega erum við að berjast fyrir bættum kjörum barna ekki síst og miklu frekast vil ég nú segja. Bættar aðstæður kvenna í þessu þjóðfélagi eru svo samofnar aðstæðum barna að það verður ekki með nokkru móti sundurskilið. Ef menn misskilja það þá skil ég ekki hvernig slíkt fólk horfir á málefni fjölskyldunnar. Ég er svo innilega sammála því sem hv. þm. sagði hér um aðstæður fjölskyldunnar í þessu þjóðfélagi. Hún byrjaði sitt mál um það á þann veg að mér fannst nánast hún vera að segja nákvæmlega þau orð sem ég viðhafði í fimmtudagsumræðu fyrir örfáum vikum þegar forustumenn stjórnmálaflokkanna að viðbættri undirritaðri, sem telst nú ekki forustumaður, voru að ræða um áherslumál í komandi kosningum. Þar tók ég einmitt þetta sérstaklega fram að ég teldi að við yrðum að leggja fyrst og fremst áherslu á öll málefni sem varða fjölskylduna og bættan hag fjölskyldunnar sem er virkilega í hættu, sérstaklega vegna þeirrar láglaunastefnu sem rekin er í landinu. Og ég get tekið undir hvert orð sem hún sagði um þau mál, enda var það fyllilega í samræmi við það sem ég sagði.

Í raun og veru er mér ekki að skapi að umræðan hafi leiðst út í hálfgerðar deilur, ef deilur skyldi kalla, eða orðaskak hér á milli kvenna sem eru jafnsammála í raun og veru um það hvað skipti máli í þjóðfélagsumræðu. Það er að mínu mati aðeins gott að því leyti að það virðist hafa vakið athygli fáeinna annarra þm., og þeir hafa þá vonandi meðtekið eitthvað fleira en það ósamkomulag sem af þessum deilum má kannske ætla að sé fyrir hendi, sem ég satt að segja kann ekki að skilgreina. En það kunna kannske aðrir.

Nú sýnist mér að hæstv. ráðh. sé farinn. Ég hef e.t.v. ekki miklu við það að bæta sem hefur verið sagt hér um þessa skýrslu, enda hef ég hana ekki í höndunum, en mér fannst hæstv. ráðh. í svörum sínum við þingræðum þm. ekki koma inn á allt sem þar hafði verið um spurt. Það var m.a. spurt um stuðning hans við ýmis þingmál sem hafa komið hér fram, sem mér finnst nú miklu nær að taka fyrir en að setja niður nefndir og ráð til þess að finna út hvað þurfi að gera. Það hafa svo margir gert og það höfum við m.a. gert hér, bæði Kvennalistaþm. og aðrir þm., að setja fram mál sem horfa til bættra aðstæðna kvenna og til þess að ná fram jafnrétti. Hann svaraði ekki þeim spurningum sem til hans var beint um hvort hann vildi vinna að því að þessi þingmál yrðu samþykkt. Og ég verð að segja að mér finnst aldeilis makalaust að það skuli vera unnt að flækja svo alla hluti og gera þá erfiða í framkvæmd að það skuli ekki vera hægt að horfa á þau mál sem venjulegir þm. eru að berjast við að setja hér fram og reyna þannig að bæta ástandið.

Hæstv. ráðh. minntist m.a. á fæðingarorlof og virtist sjá ástæðu til þess að hreykja sér af því að það hefði verið lögð áhersla á endurskoðun fæðingarorlofs í ríkisstjórninni. Ja, þvílík áhersla! Hér er búið að vinna að því máli mörgum sinnum og mjög lengi af fleiri þm. en okkur Kvennalistaþm. Ég vil ekki eingöngu ætla okkur það þó við höfum kannske lagt mesta áherslu á það og flutt hér frv. á hverju einasta þingi nákvæmlega útfært og fengið mikla umræðu um það á hverju einasta þingi og mikla umfjöllun í nefnd vona ég og stuðningsundirskriftir utan af landi víða af landinu, og hefur að mínu mati ekki skort neitt á annað en vilja ríkisstjórnarinnar og stjórnarliða til þess að styðja mál vegna þess að það er komið frá stjórnarandstöðu. Það er ákaflega hart að sætta sig við það að slíkt misskilið stolt, eða ég veit ekki hvað á að kalla það, skuli verða til þess að tefja mál.

Ég get ekki tekið undir að áhersla hafi verið lögð á endurskoðun fæðingarorlofs þegar ríkisstjórnin vaknar á s.l. sumri, og hæstv. heilbrmrh. skipar nefnd til þess að endurskoða lög um fæðingarorlof. Hér erum við upplýst um það fáeinum vikum eða jafnvel dögum áður en þingi lýkur að það verði væntanlega lagt fram á þessu þingi. Eiga menn nú von á því að slíkur sé vilji hæstv. stjórnarliða að koma þessu í gegn að það fljúgi nú í gegn fyrir þinglok? Ég efast um það. En lengi má manninn reyna.