11.02.1987
Efri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2930 í B-deild Alþingistíðinda. (2694)

119. mál, umferðarlög

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Þegar þetta mál kom hér fyrst til umræðu hafði ég uppi ýmsa og raunar margvíslega gagnrýni á bæði málfar og ýmis efnisatriði frv. Skemmst er frá því að segja að í hv. allshn. var unnið mjög mikið að þessu máli og umsagna mjög margra aðila leitað. Það komu afar margar ábendingar, að vísu misvægar eins og gefur auga leið, en margar gagnlegar ábendingar komu fram hjá þeim sem sendu nefndinni umsagnir um málið. Þar við bættist að hæstv. dómsmrh. skipaði nefnd fjögurra alþm. til að vinna að þessu máli enn frekar í sumar og var það gert og enn hefur nefndin í vetur, allshn., skoðað þetta mál og rætt ítarlega og flutt brtt. sem formaður nefndarinnar, hv. 4. þm. Austurl., hefur gert grein fyrir og ég sé enga ástæðu til að tiltaka sérstaklega.

Það er auðvitað svo með frv. sem þetta og mál sem þessi að allir telja sig hafa- og hafa hagsmuna að gæta í sambandi við setningu löggjafar af þessu tagi. Raunar má kannske segja, þó að það sé e.t.v. blandið einhverju alvöruleysi, að hver einasti maður telur sig sérfræðing í þessum málum. Það er því ekki óeðlilegt að umfjöllun hafi tekið nokkuð langan tíma, en ég tel mig geta fullyrt að þetta mál hefur verið skoðað og rætt mjög gaumgæfilega og kannske gaumgæfilegar en flest önnur mál sem fara í gegnum þingið. Nægan tíma hefur það a.m.k. tekið.

Ég styð að sjálfsögðu þær brtt. sem nefndin hefur flutt hér. Auðvitað eru eftir fjölmörg álitamál og ýmislegt sem mönnum áreiðanlega sýnist sitt hvað um. T.d. nefni ég bara hraðamörk, aldursmörk ýmiss konar og ég nefni líka eitt atriði sem ég gerði athugasemdir við á sínum tíma þegar málið kom til 1. umr., þ.e. þau ákvæði sem eru í 46. gr. og leggja skyldur á veitingamann og þjóna hans og sömuleiðis bensínafgreiðslumenn. Ég er enn ekki fyllilega sáttur við þessi ákvæði. Ég tel að þetta ættu að vera ákvæði sem væru almenns eðlis og legðu þessar skyldur á hendur hverjum einstaklingi sem veit eða hefur ástæðu til að ætla að ölvaður maður ætli að fara út í umferðina. En það var ekki talið fært af þeim er gerst eru taldir þekkja að setja slíka almenna skyldu inn í þessi lög. Ég hef ekki endanlega tekið um það ákvörðun, hvort ég flyt um það brtt. við 3. umr. að breyta þessu, en mér finnst þetta enn nokkuð andkannalegt.

Annað mál vildi ég minnast á sérstaklega og það er notkun öryggisbelta sem fjallað er um í 71. gr. Nú þekkja allir hv. þm. forsögu þess máls, þ.e. að þessi hv. þingdeild hefur tvisvar sinnum gert um það samþykktir og samþykkt lagabreytingu í þá veru að það verði nokkur viðurlög við því að nota ekki öryggisbelti. Því miður hefur ekki sama skynsemisstefnan ráðið ferðinni, sama slysavarnarstefnan vil ég raunar leyfa mér að segja, þegar það mál hefur komið til umfjöllunar í hv. Nd. Þar féll málið síðast ef ég man rétt á jöfnum atkvæðum. Mín skoðun er sú að hvort sem okkur endist ráðrúm á hinu háa Alþingi til að afgreiða þessi lög fyrir þinglausnir, sem ég vissulega vona og vona mjög eindregið, tel ég eiginlega alveg nauðsynlegt að flutt verði frv. þar sem tvennt verður gert: annars vegar að hækka hámarkshraðann frá því sem nú er og hins vegar að hafa viðurlög við því að nota ekki öryggisbelti eða bílbelti.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um nauðsyn þess og ætla ekki að hefja þá umræðu hér. Hún er svo augljós. Það er næstum því sama hvað gerist og það höfum við séð á þeim slysum sem orðið hafa á þessu ári að menn eru alltaf betur komnir í belti en án og yfirleitt alltaf betur komnir inni í bílnum en utan hans, en það verður oft þegar slys eða óhöpp verða að menn kastast út.

Það er ýmislegt fleira sem mætti gera að sérstöku umtalsefni, en ég held að þær breytingar sem nefndin hefur gert og nefndarmenn, fyrst áður en það var lagt fram, og síðan þær sem nú eru lagðar til séu allar til bóta, en geri mér jafnframt grein fyrir því að þetta er mál sem getur verið mjög lengi til umfjöllunar því að hér eru álitamál í hverri einustu grein. Auðvitað væri hægt að taka miklu meiri tíma til að fjalla um þetta og raunar hægt að halda því áfram býsna mörg ár, en einhvers staðar verður að reka endahnútinn og ég held að það sé tímabært að gera það núna.

Ég læt í ljós, virðulegi forseti, um leið og ég lýk máli mínu, að hv. Nd. auðnist að afgreiða þetta mál fyrir þinglok. Gerist það ekki endurtek ég að það er óhjákvæmilegt að flytja frv. með örfáum breytingum og koma því í gegn fyrir þinglok eða alla vega fá fram úrslit í málinu, bæði varðandi hækkun hámarkshraða og öryggisbelti og má vera eitthvað fleira. En ég held að þær breytingar sem hér hafa verið gerðar séu allar til bóta og sumar til verulegra bóta.