11.02.1987
Efri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2945 í B-deild Alþingistíðinda. (2701)

119. mál, umferðarlög

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Það hefur margt verið skýrt í þessari umræðu. Ég geri ráð fyrir að hv. allshn. muni athuga málið milli umræðna. Hér hefur verið drepið á margt eins og ég segi, m.a. viðurlög vegna brota á umferðarlögunum. Auðvitað gilda hin almennu viðurlög um öryggisbeltin, eins og önnur atriði sem eru í þessu frv. og í lögum ef svo verður.

Hér var vikið að notkun ökuljósa. Hér var vikið að því þegar bílar aka með annað ökuljósið, hitt bilað af einhverjum ástæðum, og skýrt frá því að erlendis gildi ákveðnar reglur um þetta efni. Ég fer ekki að endurtaka það. Hins vegar veit ég ekki betur en fundin hafi verið upp allgóð aðferð til að afstýra hættum af þessum sökum. Hún er í því fólgin að fundin hafa verið upp glitspjöld sem, að því er mér er tjáð, er mjög auðvelt að festa framan á bifreið þeim megin að sjálfsögðu sem ökuljósið hefur dofnað eða bilað. Þessi uppfinning er runnin undan rifjum Borgnesings, Magnúsar Thorvaldssonar. Ég veit reyndar ekki hvar þessi uppfinning er í kerfinu, ef ég má svo að orði komast, hvort málið hefur náð svo langt að það kæmist einhvers staðar til framkvæmda. Kannske er hæstv. dómsmrh. kunnugt um það. Hann er yfirmaður þessara mála. En ég tel að vert væri að skoða hvort þetta væri ekki leysanlegt, einmitt með þeim hætti að menn hefðu í bílum sínum þessi glitspjöld sem væri auðvelt að festa framan á bifreið. En ekki meira um það.

Ég tek að sjálfsögðu heils hugar undir orð hv. 4. þm. Reykn. hversu brýnt er að halda uppi skeleggum áróðri um umferðarmál, gildi umferðarmenningar í landinu. Hv. þm. boðaði flutning þáltill. um þjóðarátak í umferðaröryggi. Ég tel það mjög þarfa till. sem hún boðar.

Vegna umræðna um 64. gr. frv. og reyndar fleiri atriði sem varða sama mál, þ.e. skráningu ökutækja, er alveg ljóst að það er hvergi fyrir mælt í frv., eða í lögunum ef svo verður, að landið skuli eitt skráningarumdæmi. Það er hvergi tekið fram í frv. þannig að það liggur í hlutarins eðli að framkvæmdin er í hendi dómsmrh. Því tel ég eðlilegt að spyrja núverandi hæstv. dómsmrh. hvað hann ætlist fyrir í þessum efnum. Með samþykkt þessa frv. mun ég ekki líta svo á að ég hafi veitt hæstv. dómsmrh., hver svo sem verður um framkvæmdina, óskorað umboð til þeirra breytinga sem hér hefur verið rætt um, einfaldlega vegna þess að það er enginn ákveðinn vegvísir og ótvíræður í frv. að mínum dómi um þau efni.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fjalla um þetta frv. Ég geri fremur ráð fyrir því að frv. fái endanlega afgreiðslu á þessu þingi. Það hefur verið unnið mikið í þessu máli og ýmis ákvæði frv. eru vissulega til bóta.