11.02.1987
Efri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2946 í B-deild Alþingistíðinda. (2702)

119. mál, umferðarlög

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég þakka allshn. fyrir afgreiðslu þessa máls og þann áhuga sem komið hefur fram í umræðunum á að afgreiða það. Og ég vil taka undir að það er að mínu mati ákaflega brýnt. Það hefur verið vikið að ýmsum atriðum sem formaður allshn. hefur lýst yfir að nefndin muni taka til skoðunar á milli 2. og 3. umr. og athuga hvort þar sé eitthvað að finna sem hægt er að bæta úr. Ég ætla því ekki að tefja tímann með því að rekja einstök atriði, en vegna fsp. sem hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Vesturl., beindi til mín um skráningu vil ég lýsa því yfir að vegna þess að þeir sem að þessum málum vinna telja hér um mikla hagræðingu og sparnað að ræða mun ég leggja það til, en hitt er að sjálfsögðu augljóst að þó að hraðar hendur verði hafðar á með undirbúning á útgáfu reglugerða verður það skammt á veg komið þegar núverandi kjörtímabili lýkur og því ekki að vita hvaða dómsmrh. mun um það fjalla.

En í sambandi við það vil ég að sjálfsögðu taka undir það, sem hv. 4. þm. Reykn. sagði, að það þarf að kynna þetta mál vel eins og umferðarmálin öll og því er þarna mikið starf fram undan. En því fyrr sem þetta frv. verður afgreitt og það verður að lögum þeim mun nær færast menn því að það starf verði hægt að vinna og ljúka svo að tilgangi þessarar lagasetningar verði náð í sem ríkustum mæli.