11.02.1987
Neðri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2948 í B-deild Alþingistíðinda. (2707)

291. mál, leigunám gistiherbergja

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl. sem nauðsynlegt reyndist að gefa út til að tryggja leiguhúsnæði fyrir aðkomumenn vegna leiðtogafundarins sem hér var haldinn s.l. haust.

Eftir að ákveðið var að fundurinn yrði hér kom fljótlega í ljós að mikill skortur gæti orðið á leiguhúsnæði. Haft var þá þegar samráð við öll stærstu hótelin hér og mál það vandlega kannað. Hóteleigendur fóru þess þá á leit við ríkisstjórnina að gefin yrðu út brbl. um leigunám á nokkrum hótelum því að þeir töldu að það væri eina leiðin til þess að þeir gætu tæmt þessi hótel og tryggt nauðsynlegt leigurými fyrir það lið sem talið var að leiðtogunum mundi fylgja. Talið var rétt að verða við þessu og því gefin út umrædd brbl. sem gerðu ráð fyrir því að tímabundið yrðu tekin leigunámi Hótel Esja, Hótel Holt, Hótel Loftleiðir og Hótel Saga í Reykjavík, en að sjálfsögðu var eigendum og rekstraraðilum hótelanna jafnframt falið að sjá um rekstur þeirra eins og verið hafði.

Þetta er, herra forseti, sem sagt flutt til staðfestingar á þessum brbl. Ég geri að till. minni að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.