11.02.1987
Neðri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2958 í B-deild Alþingistíðinda. (2714)

321. mál, vaxtalög

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég get tekið undir margt af því sem síðasti ræðumaður sagði og vil byrja á því að segja að margur er knár þótt hann sé smár. Ég vildi einnig hafa haft lengri tíma til að undirbúa mig undir þessa 1. umr., en ég fagna því að þetta frv. skuli nú vera komið fram. Reyndar hefði það átt að vera komið fyrir löngu og hefði ekki átt að þurfa það tilefni sem varð hvatinn að samningu þess, þ.e. þann hæstaréttardóm sem féll í desember s.l. og hefur áður verið ræddur. Menn hefðu nefnilega átt að vera betur með á nótunum í júlílok 1984, vera framsýnni og gera sér grein fyrir því hverjar afleiðingar ákvarðanir þeirra kynnu að hafa, og hlusta t.d. betur á stjórnarandstöðuna.

Aðdragandi þessa frv. hefur verið nokkuð ítarlega rakinn hér áður í þessum umræðum í pólitískum ræðum. Það má vera að sumum finnist komið nóg en þó hlýt ég að bæta þar aðeins við áður en ég sný mér að því að ræða frv. sjálft vegna þess að tilefni þeirrar atburðarásar sem síðan leiddi til frumvarpsgerðarinnar var einmitt pólitísk mistök, ein af mörgum pólitískum mistökum þessarar ríkisstjórnar sem leitt hafa vandræði yfir ýmsa hópa fólks í þjóðfélaginu eins og einmitt síðasti ræðumaður benti á og fjöldi þessara hópa fer vaxandi. Ég hlýt að minnast á þetta í upphafi máls míns vegna þess að þetta vinnulag hefur ráðið um of í gerðum þessarar ríkisstjórnar sem nú situr.

Veigamiklar ákvarðanir hafa verið teknar og endurteknar í efnahagsmálum samkvæmt ráðleggingum sérfræðinga og ráðgjafa ríkisstjórnarinnar en oft að því er virðist án allra tengsla við fyrri ákvarðanir eða hver áhrif nýjar ákvarðanir mundu hafa á ferli þeirra sem áður voru teknar. Þessi hólfaða hugsun sem ég kýs að kalla svo sem býr að baki stjórnunarákvörðun þessarar ríkisstjórnar er mjög hættuleg og hefur sýnt sig að vera fjandsamleg fólki. Henni er stundum hampað sem rökhyggju en í raun ber hún fyrst og fremst einkenni þess hugsunarháttar sem kenndur er við karla. Hin karlmannlega hugsun einkennist m.a. af því að vera sundurgreinandi, analytisk og hefur þá gjarnan tilhneigingu til að einangra vandamál, hugsa um þau í hólfum. (ÓÞÞ: Er þetta ekki brot á jafnréttislögunum?) Síðan er ekki öllum gefið að tengja saman á ný, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, eftir að vandamálin hafa verið sundurgreind. Það hefur þessari ríkisstjórn m.a. ekki tekist. Hún stefndi hópi manna í ómæld vandræði og sumum hreinlega í gjaldþrot þegar hún bannaði verðbindingu launa á árinu 1983 og jók síðan enn við vanda þeirra með því að leyfa óheft vaxtafrelsi sumarið 1984. Á þessu ber ríkisstjórnin, þeir sem í henni sitja og þeir sem hana styðja, algera ábyrgð. Þess vegna verður stjórnin líka að bæta fyrir mistök sín í stað þess að yppta öxlum, vísa ábyrgðinni annað og segjast vera ósköp leið yfir þessum mistökum. Og ég tek undir það sem síðasti ræðumaður sagði. Henni ber að leiðrétta þau mistök sem hún hefur gert.

Sumarið 1984 þegar ákvörðun var tekin um að gefa vexti frjálsa varaði Kvennalistinn mjög við þessari ákvörðun og lýsti áhyggjum sínum yfir vaxtahækkununum, einkum vegna launafólks og húsbyggjenda. Í svipaðan streng tóku aðrir flokkar stjórnarandstöðunnar. Ég gerði þá fsp. til fjmrn., og reyndar til Seðlabankans, um það hvernig hámarksvextir yrðu ákvarðaðir. Mér var þá tjáð að samstarfsnefnd bankanna mundi sinna þessu og væntanlega gefa út um það reglur. Þessar reglur sáust aldrei. Síðan varð sú ógæfusama þróun á fjármagnsmarkaði sem leiddi til þeirra okurmála sem hér voru til umræðu á síðasta þingi og á hún beinar rætur að rekja til þessarar ákvörðunar um vaxtabreytingar sem tekin var í júlí 1984 af ríkisstjórninni. Það er ekki nóg að láta sér koma á óvart þá dóma sem falla í Hæstarétti eins og hæstv. viðskrh. minntist á áðan. Það er miklu vænlegra að vita hvað maður sjálfur er að gera, að hafa vit til þess að reyna að sjá fyrir afleiðingar gerða sinna. Það þarf fleira en rökhyggju og karlmannleg gildi við stjórnvölinn. Það þarf líka framsýni og hugsun sem umlykur og tengir þannig að manneskjurnar séu með í dæminu en ímynd þeirra standi ekki sem dauðar tölur eða leiksoppar á blaði.

Ég mun nú snúa mér að því að fjalla lítillega um þetta frv. en mér mun að sjálfsögðu gefast betra tækifæri til þess að fá skýringar við ýmsum atriðum þess í hv. fjh.- og viðskn., en þar hef ég áheyrnaraðild.

Ég vil ítreka ánægju yfir því að þetta frv. skuli nú loksins komið fram því að löngu er kominn tími til þess og þykir mér eðlilegt að lög um vexti séu í heildstæðum lögum en ekki sitt á hvað og í jafnmikilli óreiðu og þau voru. Mér sýnist að verk frumvarpshöfundar hafi að mörgu leyti verið vandasamt og tekist ágætlega og hann valið að fara nokkurn milliveg milli þess að hér ríki ákveðið vaxtafrelsi, en það fari þó ekki úr hömlu. Lögin eiga auðvitað að vera þannig að þau tryggi réttindi bæði lánara og skuldara.

Frv. skiptist í fjóra kafla. Í I. kaflanum, um gildissvið, hafa verið gerðar litlar breytingar og er hann nánast sem í gömlu lögunum. Í sambandi við II. kafla langar mig að bera fram fsp. um það hvernig venja skapast því að þar er talað um að farið skuli eftir venju. Hve lengi þarf ákveðin háttsemi að hafa staðið til þess að venja skapist um hana? Er t.d. nóg að nokkrir stórir og virkir aðilar stundi þessa háttsemi, t.d. verðbréfamarkaðir? Og hvað t.d. um þá háttsemi sem tíðkaðist á verðbólgutímum? Getur hún verið venjuskapandi?

Síðan er ljóst í þessu frv. að það hefur verið ákveðið að koma sér hjá því að meta verðtryggingu sem vexti og er hvergi gerður greinarmunur á því hvort fjárskuldbindingar séu miðaðar við vísitölu eða ekki. Það virðist alls ekki réttlátt að breytilegir vextir geti átt við með sama hætti um verðtryggðar skuldbindingar eins og þegar um óverðtryggðar skuldbindingar er að ræða vegna þess að í verðtryggingunni er nefnilega þegar fólgin skuldbinding um fullvirðisgreiðslu.

Hvað varðar kaflann um útreikning dráttarvaxta má segja að þar sé ákveðið skuldara í hag vegna þess að dráttarvextir munu þar vera lægri en nú tíðkast og má segja að það sé ágætt að mörgu leyti. Hins vegar er undarlegt að það skuli heimilt að semja um allt nema dráttarvexti. Það gæti verið að það borgaði sig. Dráttarvextir eru auðvitað hugsaðir sem einhvers konar hvatning til þess að fólk standi í skilum og ljúki skuldum sínum en ef dráttarvextirnir verða lægri en raunvextirnir eða venjulegir vextir gæti það leitt til þess að fólk tefji það að borga skuldir sínar. Þetta er umhugsunarefni sem mig langar að varpa fram og gera fsp. um hvernig það er hugsað.

Síðan er ákvæði í 10. gr. sem þegar hefur verið minnst á og það gagnrýnt. Það fjallar í raun um það að taka rétt til vaxtaákvörðunar af ríkisstjórninni og fela alfarið Seðlabankanum. Nú eru vaxtaákvarðanir í raun hagstjórnartæki og ég álít að það megi sem slíkt ekki taka af ríkisstjórn.

Það eru ýmis önnur atriði sem ég hefði gjarnan viljað minnast á í þessu frv. en ég ætla að geyma það frekar til síðari tíma og eftir umfjöllun í nefnd. Þó get ég ekki annað en tekið undir þá gagnrýni sem komið hefur fram á skilgreiningu okurs, þ.e. hversu fjarskalega rúmt það er skilgreint. Ég viðurkenni að þetta er mjög vandasamt verk og hefur örugglega ekki verið létt að taka ákvörðun um það hvernig átti að standa að því. En ég hlýt að vekja athygli á því sem segir í athugasemd um 17. gr. á bls. 12 í frv. að í raun þarf að vera um grófa misnotkun að ræða til þess að hún geti talist refsiverð. Þetta er mikið túlkunaratriði og það er spurning um hvað er gróft. Síðan er talað um óréttmætan hátt sem ætlaður sé sem eins konar fyrirvari til dómstóla um mat á refsiverðleika háttseminnar og þrengingu á efnissviði ákvæðisins. Það hafa þegar komið fram efasemdir og gagnrýni um þessa skilgreiningu og ég vil taka undir þær en jafnframt viðurkenna að það er mjög vandasamt að skilgreina þessa háttsemi svo að vel sé og um þetta hlýtur að verða fjallað nánar í nefndinni.

Að lokum vil ég fagna því aftur að frv. skuli komið fram og vil sannarlega stuðla að því fyrir hönd Kvennalistans að það fái skjóta afgreiðslu hér á þinginu, eftir að tillit hefur verið tekið til gagnrýni og athugasemda.