12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2983 í B-deild Alþingistíðinda. (2726)

305. mál, Þjóðhagsstofnun

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er sjálfsagt ekki ofmælt að ýmsir hafi orðið hissa þegar þessi till. kom fram á hinu háa Alþingi. Mér sýnist raunar að afstaða 1. flm. sé nokkuð önnur nú en þegar hann skrifaði þessa till. vegna þess að tillgr., svo stutt sem hún er, hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta þegar hefja undirbúning þess að Þjóðhagsstofnun verði lögð niður.“

Þetta er ein og hálf lína, mjög afdráttarlaust. En hvað sagði hv. 4. þm. Norðurl. v. í þessum ræðustól áðan? Þá talaði hann um að stokka upp eða gera athugun á þessari stofnun. Till. gengur ekkert út á það. Till. gengur út á það klárt og kvitt að leggja stofnunina niður. Það skyldi nú aldrei vera að ýmsir flokksbræður hins hv. 4. þm. Norðurl. v. hafi haft sitthvað við þessa tillögusmíð og tillögugerðina að athuga og hann hafi þess vegna dregið svo mjög í land sem hann gerði í sinni framsöguræðu. Till. segir: leggja niður. En í framsöguræðu segir flm.: stokka upp eða gera athugun á. Ég skrifaði það niður orðrétt eftir honum.

Það má sitthvað segja um þessa till. Ég hef það á tilfinningunni að hún sé skrifuð í einhverjum augnablikshita. Þetta er fimm mínútna till. Hún ber þess öll merki. Það er verk sem hægt er að vinna á fimm mínútum að skrifa svona vitleysu, leyfi ég mér að segja. Og ég vil líta á þá till. með þeim hætti að forstjóri Þjóðhagsstofnunar hafi þarna fengið ótvíræðustu og eindregnustu traustsyfirlýsingu sem nokkur embættismaður í ríkiskerfinu hefur fengið um langan tíma vegna þess að hér segir, með leyfi forseta:

„Nú vill svo til að forstjóri Þjóðhagsstofnunar er að láta af störfum vegna stjórnmálaafskipta og er þá kjörið tækifæri til að afnema stofnun hans.“

Ég hefði skrifað „stofnunina“, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Stofnun hans! M.ö.o.: eftir að þessi umræddi einstaklingur hefur látið af störfum á stofnunin ekki lengur neinn tilverurétt. (EKJ: Hefur kannske aldrei átt.) Mikið traust. Ja, við skulum íhuga það, hv. þm.

Hver var það sem kom þessari stofnun á fót? Ef mitt pólitíska minni bregst mér ekki var Efnahagsstofnunin fyrirrennari þessarar stofnunar og ef ég man líka rétt var það formaður Sjálfstfl., dr. Bjarni Benediktsson, sem beitti sér hvað eindregnast fyrir því að sú stofnun væri sett á laggirnar vegna þess að slíkrar stofnunar var á viðreisnarárunum talin þörf. Ég held að það hafi verið eitt af mörgum góðum verkum sem þessi forustumaður Sjálfstfl. og foringi vann að koma þessari stofnun á laggirnar. En nú koma forustumenn Sjálfstfl. og leggja til að þessi stofnun verði lögð niður af því að forstjóri hennar hefur ákveðið að taka til starfa á öðrum vettvangi. Þetta er einkennilegur málflutningur að ekki verði meira sagt.

Ég ætla ekki að gera mönnum upp neinar hvatir frekar en aðrir hér um hvað liggi að baki þessari till. En augljóst er eitt. Það liggur mikið fljótræði og fljótaskrift að baki þessari till. Hún er hvorki vel grunduð né vel unnin og ekki einu sinni vel hugsuð, því miður.

Ég verð líka að segja að það kom mér á óvart þegar ég skoðaði lista yfir flm. Ég sé að hér eru tveir hv. samþm. mínir úr sama kjördæmi. Ég spyr: Hvers vegna bauð ekki hv. 1. flm. Eyjólfur Konráð Jónsson 1. þm. Vesturl. að vera á þessari till. líka til að vera ekki að gera upp á milli þm. kjördæmisins? Honum hefur ekki verið sýndur sá sómi að bjóða honum að vera einn tillögumanna. Það kann að eiga sér einhverjar skýringar. Ég veit ekkert um það. Ég þekki ekki innviði í húsakynnum þingflokks Sjálfstfl.

En ég held að ég fari alveg rétt með að þessi stofnun varð til fyrir forgöngu dr. Bjarna Benediktssonar sem þá var formaður Sjálfstfl. Nú koma þm. Sjálfstfl. og leggja til að hún verði lögð af, skorin niður við trog þó að í framsöguræðu sé að vísu dregið verulega í land, enda hefur mönnum væntanlega gefist tími til að átta sig.

Það hefur verið gerð grein fyrir ýmsum atriðum í starfsemi þessarar stofnunar og ég skal ekkert fjölyrða um það. Auðvitað hefur þessi stofnun verið þjónustustofnun ráðuneytanna. Telur hv. flm. Eyjólfur Konráð Jónsson að þeim málum væri betur komið ef hvert ráðuneyti hefði sína hagdeild? Það getur vel verið að það sé skoðun Sjálfstfl. En þá eiga þeir ágætu menn að segja það hreint út ef hvert ráðuneyti ætti að annast þessi verk fyrir sig - eða hver á að annast hagrannsóknir og rannsóknir á efnahagsmálum ef ekki einmitt stofnun af því tagi sem hér um ræðir? Ég hygg að ef á heildina er litið og málin skoðuð grannt hafi starfsemi þessarar stofnunar á fjölmörgum sviðum gefið afar góða raun. Auðvitað má sitthvað að henni finna eins og öllum mannanna verkum og öllum opinberum stofnunum. Þær eiga ævinlega að vera háðar athugun og endurskoðun, en það á hins vegar ekki að leggja þær niður athugunar- og undirbúningslaust. Láta þegar hefja undirbúning að því að leggja niður, segir í tillögunni. Það á ekki einu sinni að athuga málið. En að vísu skal ég endurtaka að flm. dró mjög í land í sinni framsöguræðu og hefur greinilega skipt verulega um skoðun í þessu máli frá því að hann í einhverjum tilfinningahita augnabliksins hripaði þessar fáu línur á blað og þar til hann nú, kannske tveimur vikum seinna eða svo, kemur í ræðustól til að mæla fyrir tillögunni. Maður skilur það. Það er auðvitað eðlilegt.

En hér er sem sagt um eina stofnun ríkisins að ræða sem gegnt hefur töluvert veigamiklu hlutverki og uppfyllt ákveðnar þarfir, gegnt ákveðinni þjónustu, bæði við Alþingi, alþm. og ráðuneytin. Hv. flm. leggur til að þessari einingu, þessari stofnun, þar sem hefur safnast saman ákveðin sérfræðiþekking og kunnátta, verði sundrað af því að einn maður er að láta af störfum. Ég verð að segja með fullri virðingu fyrir öllum þeim ágætu þm. sem skrifa nöfn sín á þessa till.: Þetta eru ekki rök í málinu.

Það hafa raunar engin rök sem ég hef heyrt komið fram um að það beri að leggja þessa stofnun niður. Auðvitað er sjálfsagt að hún sé athugun háð og hvernig megi breyta henni og laga betur að aðstæðum. Það er sjálfsagt mál. En tillöguflutningur af þessu tagi, og það veit ég að fleiri hv. þm. geta tekið undir, þar sem till. er ein og hálf lína, grg. 9 eða 10 línur, getur ekki talist vel undirbúinn, vel ígrundaður eða vandaður og allra síst þegar allar röksemdir skortir. Þær einu röksemdir sem hér er að finna eru að nú skuli leggja þessa stofnun niður af því að einn maður er að láta af störfum - láta af störfum vegna stjórnmálaafskipta, er sérstaklega tekið fram í grg. Hvaða máli skiptir hvers vegna umræddur maður er að láta af störfum? Það skiptir engu máli.

Þeim mun oftar sem ég les þessa stuttu klausu sem kölluð er grg., þeim mun furðulegra og einkennilegra verður þetta mál.