12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2990 í B-deild Alþingistíðinda. (2732)

305. mál, Þjóðhagsstofnun

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að svara ýmsu því sem komið hefur fram í þessum umræðum sem mér hafa að vissu leyti þótt ágætar, málin skýrast og menn koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Ég vík þá fyrst að ummælum hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar. Hann hóf mál sitt á því að tala um að það væri óeðlilegt orðalag að tala um „stofnun hans“, forstjórans sem væri að hætta væntanlega og hefði verið við þessa stofnun alla tíð. Ég hef oft talað um t.d. kjördæmi hans, kjördæmi Jóns Baldvins. Ég hef talað um mitt kjördæmi. (JBH: En ekki talað um að leggja það niður, er það?) Var ekki verið að setja út á það orðalag að tala um „stofnun forstjórans“? Er ekki talað um bát skipstjórans? Er ekki talað um jafnvel sókn sóknarprestsins? Þú hefur kannske aldrei heyrt „Gunna var í sinni sveit“? Þetta er ekkert óeðlilegt orðalag. En ég veit að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hefur verið í „sinni sveit“. Hann hefði átt að halda áfram þar.

Að fyrst nú sé tækifærið. Það sé gagnrýni á mig sjálfsagt sérstaklega, 1. flm., að ég telji að nú sé fyrst tækifæri til að leggja þessa stofnun niður. Ég veit ekki betur en að ég hafi meira að segja lesið upp fyrir hv. þm. og öllum þingheimi hvað ég sagði um það efni árið 1978. Ég hef verið meira og minna á móti öllum þessum stofnunum. Ég skal játa að ég vissi ekki að þeir væru 127 samtals, þessir spekingar sem hafa verið að reikna yfir okkur kreppu í háa tíð, kreppu og launaskerðingar, gengisfellingar og allt þetta dót. Ég hélt að þeir væru ekki svona margir. En það er þá áreiðanlega hægt að fækka þeim um helming, bæði í þessari stofnun og öðrum. (Gripið fram í.) Það hef ég margsinnis lagt til í ræðum.

Hv. þm. sagði að samtals væru þessir spekingar 127 í mismunandi stofnunum að fást við hagreikninga og spár. Skildi ég það ekki rétt? Jú, ég hlýt að hafa skilið það rétt. (JBH: 177.) Nú, hvorki meira né minna en 177. Þá má fækka þeim á annað hundrað.

Og að ríkisstjórnin hafi haft tækifæri til að gera breytingar. Ég veit það ósköp vel. Ríkisstjórnir allar hafa haft tækifæri til að gera breytingar, en þær hafa því miður látið undan embættiskerfinu. Kerfið er samt við sig. Þar styður hver annan í einu og öllu og Alþingi lyppast niður fyrir þessu kerfi. Það má varla einu sinni ræða um það hér, þá verða menn hneykslaðir, einhverjir. Þessir í dag og hinir á morgun. Nú er það hlutverk hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, formanns Alþfl., að verja kerfið í rauðan dauðann. Ég held að engir aðrir hér verji þetta kerfi núna. Það verða kannske einhverjir aðrir sem gera það á morgun. En það verður ekki ég sem ver það, það er alveg öruggt mál, og það veit þingheimur allur. Ég hef aldrei gert það og mun aldrei gera. Það er ofvöxtur genginn í þetta kerfi og það vinnur ekki gagn eins og það er skipað.

Ég er spurður að því: Hverjir báru ábyrgð á byggingu húss Framkvæmdastofnunar? Ekki Eyjólfur Konráð Jónsson. Það er a.m.k. víst. Ég barðist á móti þessu líka. En veit hv. þm. ekki hverjir báru ábyrgð á því? Veit hann ekki hverjir bera ábyrgð á öllum byggingunum, „okkar byggingum“ og öðru slíku? Það er kerfið. Framkvæmdastofnun sjálf, án þess að spyrja Alþingi, byggði þetta hús. Og Þjóðhagsstofnun sjálf, án þess að spyrja Alþingi, ætlar sér að ryðjast inn á tvær hæðirnar í Seðlabanka sem ég t.d. lagði til að annaðhvort yrði forsrn., þó að forsrh. sjálfur væri í okkar virðulega gamla húsi, eða þá utanrrn. Það var Þjóðhagsstofnun sjálf sem réðist þarna inn. Að vísu féllst hæstv. forsrh. á að þetta, sem ég vil kalla hneyksli, gerðist. Það nægði ekki þetta glæsilega nýja húsnæði á Rauðarárstíg fyrir þessa stofnun, hún þyrfti líka að flytja starfsemi sína á tvær hæðir í Seðlabankanum. Þegar Alþingi ályktaði að það þyrfti að athuga hvernig best væri að hagnýta þetta húsnæði var það Þjóðhagsstofnun sem heimtaði það. Við ráðum bókstaflega engu hér og heldur ekki ríkisstjórnin. Þetta kerfi hefur vaxið okkur öllum yfir höfuð. Það er eins og enginn þori einu sinni að kvaka svolítið utan í það, hvað þá að skamma það, sem er vissulega tími til kominn að gert verði.

Hv. þm. sagði að það ætti að gera greinarmun á skýrslusöfnun og efnahagslegri ráðgjöf. Auðvitað á að gera það. En er það gert? Þessu er öllu hrært saman. Það er það sem ég er að segja og það er það sem Þórður Friðjónsson er að segja, einmitt það að það á að skilja þarna á milli. Þjóðhagsstofnun á auðvitað ekki né nein önnur stofnun bæði að gera spár og reyna svo að reikna sig eftir á inn í að þetta hafi verið réttar spár. Ég sagði áðan að það er ofurmannlegt að vera ekki eitthvað smitaður af spám sem maður sjálfur gerir. Auðvitað á að flytja allar skýrslur þangað sem þær eiga heima, í okkar virðulegu gömlu stofnun, Hagstofunni, sem þar að auki er með sæmilegt íslenskt heiti. Síðan má leyfa einhverjum spámönnum einhvers staðar og einhvers staðar, hvað sem stofnunin heitir, hún má mín vegna heita Þjóðhagsstofnun, mér er nákvæmlega sama, að gera einhverjar spár. Ég ætla ekkert að lesa þær. Þær hafa allar reynst meira og minna vitlausar. Kannske trúir enginn því ef ég segi það hér, en að gefnu tilefni ætla ég þá að lesa smáfréttastúf úr Dagblaðinu 13. jan. s.l. Það er frétt af spástefnu Stjórnunarfélags Íslands og fjallar um greinargerð og rannsóknir sem gerðar hafa verið í Seðlabankanum. Ég hef ekki getað fengið þessa greinargerð eða rannsóknir þar sem þær eru ekki taldar fullunnar. Ég hef gert tilraun til að ná í þær upplýsingar og margar aðrar í kerfinu, bæði í sambandi við þetta mál, í sambandi við beinu greiðslurnar til bænda, afurðalánagreiðslurnar og allt það árum saman. Það er kominn áratugur sem maður hefur barist í þessu. Þær eru ekkert á lausu í bankakerfinu eða þessum stofnunum þær skýrslur sem koma kerfinu illa og hafa aldrei verið. Það er alveg sama hvaða stjórn hefur setið. Það skal ég játa. T.d. var till. okkar hv. þm. Péturs Sigurðssonar flutt þegar samstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. sat, nákvæmlega eins og þessi er flutt núna þó að Sjálfstfl. sé við völd. Það skiptir ekki máli í þessu efni.

En þessi grein hefst á þessum orðum og hlustið nú vel:

„Á ráðstefnu Stjórnunarfélags Íslands fyrr í vetur sagði Ragnar Árnason hagfræðingur og lektor um þjóðhagsspár Þjóðhagsstofnunar að svo lítið samræmi væri milli spánna og raunveruleikans að ekki mætti einu sinni treysta því að þær væru vitlausar.“ - Svo lítið samræmi væri milli spánna og raunveruleikans að ekki mætti einu sinni treysta því að þær væru vitlausar!

Hann hafði þessa skýrslu undir höndum, þessi maður. Ég hef ekki fengið hana. Auðvitað hafa þessar spár verið meira og minna vitlausar. Hver getur spáð í verðbólgu og sveiflu í þjóðfélagi? Hvernig á að taka það sem eitthvert guðsorð sem sagt er í þessum spám? Ég er ekkert að lasta þessa menn fyrir það. En þegar þeir byrja að tala um: Svona verður þetta. Þetta verður svona. Aflinn verður þessi. Verðið verður þetta. Og þegar stjórnmálamenn, við hér, erum að lesa þetta upp eftir honum í löngum, löngum, löngum ræðum. Jú, jú, það er alveg ákveðið að svona verði þetta og svo á eftir á að reikna það ofan í okkur að svona hafi það orðið. Ég held að menn hljóti að fara að sjá í gegnum þetta. Þetta gengur ekki! Það þarf að breyta þarna til og að stórfækka í öllu þessu kerfi og greiða þetta í sundur.

En ég ætti kannske að lesa alla fréttina vegna þess að mér er sagt af mönnum sem hafa lesið skýrsluna að öll þessi frétt sé rétt og með leyfi forseta ætla ég að lesa hana alla og byrja þá að nýju með fyrirsögn og öllu saman:

„Þjóðhagsspár Þjóðhagsstofnunar gagnrýndar. Ekki treystandi að spárnar séu vitlausar.

Á spástefnu Stjórnunarfélags Íslands fyrr í vetur sagði Ragnar Árnason hagfræðingur og lektor um þjóðhagsspár Þjóðhagsstofnunar að það væri svo lítið samræmi milli spánna og raunveruleikans að ekki mætti einu sinni treysta því að þær væru vitlausar. Hjá hagfræðideild Seðlabankans liggur fyrir athugun á þessum spám fyrir árin 1974-1983. Athugunin tekur aðallega til fjármunamyndunar og útflutnings, innflutnings, einkaneyslu, þjóðarframleiðslu og þjóðartekna. Fram kemur að einungis spár um einkaneyslu þykja góðar. Samt felst í þeim kerfisbundið vanmat á einkaneyslunni sem telja verður alvarlegan galla. Ljóst þykir að útflutningsspár Þjóðhagsstofnunar hafa misheppnast, en bent er á að ekki verði hægt að spá sæmilega um útflutninginn þar sem sjávarafli vegi þungt og erfiðlega hafi gengið að sjá aflabrögð fyrir.

Fjárfestingarspáin reyndist einnig slök, þó betri en engin þegar spáð var á miðju spáári, en spáð er einu sinni fyrir hvert spáár og spáin venjulega endurskoðuð þrisvar á ári. Fyrsta spá um innflutning hefur reynst slök og það er talið stafa af lélegri fjárfestingarspá þar sem fjárfestingarvörur eru þriðjungur innflutningsins. Loks kemur í ljós að spár um þjóðarframleiðslu og þjóðartekjur, sem byggjast að sjálfsögðu á hinum spánum, þykja betri en engar þótt þar komi raunar fram sama kerfisbundna vanmatið og í einkaneysluspánum, sérstaklega á spáárinu sjálfu.

Af þessum niðurstöðum má draga þá ályktun að spámennsku Þjóðhagsstofnunar hafi verið verulega ábótavant á því tíu ára tímabili sem um er fjallað. Ekki þykir líklegt að þær hafi breyst í eðli sínu síðustu tvö árin þótt samanburður liggi ekki fyrir vegna þess tíma. Þeir hagfræðingar sem DV ræddi við um þetta töldu ýmist að spárnar hefðu verið skárri en engar og nothæf hjálpartæki eða þær hefðu verið of gallaðar og beinlínis blekkjandi í veigamiklum atriðum. Niðurstaða eins hagfræðings í kerfinu var raunar sú að þjóðhagsspárnar hefðu greinilega verið notaðar beinlínis í þágu stjórnvalda þar sem þær sýndu sífellt vanmat á einkaneyslu, þjóðarframleiðslu og þjóðartekjum. Þannig hafa þær alltaf virkað eins og bremsa á kröfugerð og þá um leið bjartsýni manna. En hvorki þessir hagfræðingar né aðrir voru tilbúnir til þess að ræða spádóma Þjóðhagsstofnunar í eigin nafni að svo komnu máli. Þessi spámennska þykir því greinilega fremur viðkvæmt efni til opinberrar umfjöllunar í hópi hagfræðinga.“

Það eru þessar kreppuspár sem við höfum búið við og kreppuútreikningar sem hefur verið dengt yfir lýðinn, a.m.k. alla þá tíð sem Þjóðhagsstofnun hefur starfað.

En þá er ég kominn að hv. þm. Eiði Guðnasyni.

Hann sagðist hafa orðið aldeilis hreint steinhissa þegar hann sá þessa till. Ég veit ekki nákvæmlega á hverju hann varð aðallega hissa, en hann gat þess þó að það hefði enginn rökstuðningur verið með þáltill. Ég neyðist því til þess, herra forseti, að fá leyfi til að lesa grg. Hún er stutt. Að í henni sé enginn rökstuðningur var mál hv. þm. Eiðs Guðnasonar. Hún hljóðar svona:

„Þjóðhagsstofnun hefur nú starfað á annan áratug og haft með höndum verkefni sem eðlilegast er að Hagstofan annist, auk þess sem stofnunin hefur annast svokallaða efnahagsráðgjöf við ríkisstjórnina sem ekki verður séð að orðið hafi til heilla.“ Samanber það sem ég var að lesa upp áðan. - „Í kerfinu eru nú margar stofnanir að bjástra við sömu eða náskyld verkefni og er sá frumskógur æðiflókinn. Úr öllu þessu ofskipulagi og þar með skipulagsleysi þarf að greiða, einfalda athafnasemina og minnka.“ - Vonandi skilja menn þetta.

„Nú vill svo til að forstjóri Þjóðhagsstofnunar er að láta af störfum vegna stjórnmálaafskipta og er þá kjörið tækifæri til að afnema stofnun hans. Það þarf að gera eins fljótt og við verður komið eftir kosningar svo að ný ríkisstjórn geti markað stefnu í þeim efnum, en undirbúning breytinganna er rétt að hefja strax.“

Hv. þm. Eiður Guðnason fjargviðraðist mikið yfir því og margendurtók að það væri ósmekklegt að nefna það að maðurinn ætlaði í stjórnmálaafskipti eða væri kominn í stjórnmálaafskipti. Ég get alls ekki séð að það mæli neitt á móti honum. Enginn maður verður verri fyrir að hefja stjórnmálaafskipti og get ekki skilið hvað hv. þm. Eiður Guðnason á við með því. En auðvitað met ég þennan mann mikils. Ég veit að þetta er gáfaður maður og hámenntaður þó að ég sé algerlega ósammála hans skoðunum. Það er allt annað mál. Hann er mesti krati á Íslandi. Það er hans hugsjón. Hann vill láta stjórna. Hann er stjórnhyggjumaður en ég er frjálslyndur maður. Okkur greinir á í stjórnmálaskoðunum. En hann á ekkert að fara út úr íslensku þjóðlífi fyrir það.

Ég segi: Það er einmitt kjörið tækifæri vegna þess að væntanlega fáum við manninn inn á þing og getum talað við hann um stjórnmál. Ég fagna þeirri stundu. Þá verð ég örugglega oftast ef ekki alltaf ósammála. En það breytir ekki því að hann á ekkert að fara út úr íslensku þjóðlífi. Ef hann ekki nær kjöri verður hann áfram í einhverri af þeim stofnunum sem stokkað verður upp í. Það segir ekki einu sinni í till. að það skuli leggja þessa stofnun niður. Hún hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta þegar hefja undirbúning þess að Þjóðhagsstofnun verði lögð niður.“

Síðan segir í grg.: Þetta þarf að gera eins fljótt og við verður komið eftir kosningar og ný ríkisstjórn markar stefnu í þessum efnum en undirbúning breytinga er rétt að hefja strax.

Ég hef margtekið það fram og nákvæmlega ekkert annað í ræðu minni en í þáltill. sjálfri að það sem á að gera er að hefja undirbúning þess að hún verði lögð niður og engin ákvörðun verði tekin fyrr en eftir kosningar af komandi ríkisstjórn. Hún tekur þá ákvörðun um hvort verður breytt um nafn, hvort stokkað verður upp. Ef hún verður vinstri stjórn vill hún vafalaust bara halda þessu öllu saman óbreyttu.