12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2995 í B-deild Alþingistíðinda. (2733)

305. mál, Þjóðhagsstofnun

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. „Nú vill svo til að forstjóri Þjóðhagsstofnunar er að láta af störfum vegna stjórnmálaafskipta og er þá kjörið tækifæri til að afnema stofnun hans.“

Herra forseti. Það eru að koma kosningar. Hæstv. forsrh. er að láta af störfum fljótlega. Kjörið tækifæri til að afnema forsætisráðherraembættið. Hæstv. fjmrh. er að láta af störfum senn. Kjörið tækifæri til þess að afnema fjármálaráðherraembættið. Spurning: Hv. þm. Gunnar G. Schram gerist þm. Kjörið tækifæri til þess að leggja niður prófessorsembætti eða hvað það nú var í lagadeild Háskóla Íslands. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson kominn heim úr Norðurlandi vestra. Kjörið tækifæri til þess að leggja niður það kjördæmi eða hvað? (Gripið fram í: Nei.) Nei, ekki allir sammála um það. En rökin eru þau að það er kjörið að leggja niður stofnun af því að einn maður er að láta af störfum, kjörið tækifæri.

Hv. flm. Hver eru rökin fyrir þessari till.? Þau eru þessi: Það er allt of margt fólk í bankakerfinu. Seðlabankinn hefur þanist út. Það er allt of mikil skriffinnska. Það er allt of mikill tvíverknaður. Það er sífellt verið að fjölga kerfiskörlum. Það er lítillar ráðdeildar gætt í því kerfi. Það er hægt að spara í kerfinu. M.ö.o.: Flm. er að segja: Það er hægt að spara. Við viljum draga úr ríkisafskiptum. Við viljum koma hlutunum betur fyrir.

Herra forseti. Af hverju er þessi rök ekki að finna f grg.? Eru það rök fyrir að leggja niður Þjóðhagsstofnun að það er of margt fólk í bönkunum? Af hverju koma ekki flm. með þessi rök? Af hverju þessa sýndarmennsku? Af hverju er verið að gera okkur upp skoðanir? Erum við með athugasemdir við þessa till. af því að við séum allt í einu orðnir einhverjir varðhundar þessa kerfis og þessa bákns? Eru einhver rök fyrir því? Getið þið nefnt eitthvert einasta dæmi fyrir því? Nei. Við erum að segja: Því miður er ekki lengur hægt að taka góðar og gildar yfirlýsingar flm. um að fyrir þeim vaki ekki ómerkilegar pólitískar árásir. Þær komu reyndar of mikið fram í ræðum manna. Hér er verið að segja: Það er af því að spár Þjóðhagsstofnunar hafa verið rangar. Það er af því að Þjóðhagsstofnun hefur veitt vond ráð. Það er af því að við erum að finna að störfum fyrrv. forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar. Þess vegna er nú tækifærið til að leggja niður stofnunina. M.ö.o.: Þetta er pólitískt mál. Þetta eru pólitískar árásir.

Um spár, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Það var vitnað í Ragnar Arnason, helsta efnahagsráðgjafa Alþb., og aldrei þessu vant með mikilli velþóknun. Spurning: Þegar menn reyndu að spá fram í tímann haustið 1985 um þjóðarframleiðslu, þjóðartekjur o.s.frv. kom á daginn á árinu 1986 að þær spár reyndust rangar. Menn sáu ekki fyrir stóraukinn afla. Menn sáu ekki fyrir stórhækkað verð á erlendum mörkuðum. Menn sáu ekki fyrir hrun í olíuverði og þar af leiðandi kostnaðarminnkun í þjóðarbúinu um 2 milljarða. Menn sáu ekki fyrir skyndilegar breytingar í vaxtamálum í heiminum. Enginn sá það fyrir. Enginn mannlegur máttur hefði getað séð það fyrir. Eru rök af þessu tagi nothæf til þess að segja: Þar af leiðandi eiga menn ekki að hafa neina Efnahagsstofnun, enga efnahagsráðgjöf gera engar tilraunir til að spá fram í tímann. Ég er hræddur um ekki. Niðurstaðan, sú að spár stóðust ekki, af henni dregur þú ekki þá rökréttu ályktun að þú eigir ekki að reyna að sjá fyrir fram í tímann, að þú eigir ekki að reyna að átta þig á helstu þjóðhagsstærðum þrátt fyrir að þér mistekst og þér hlýtur að mistakast svo lengi sem þú ekki ert guðlegs innsæis. Það er sitt hvað.

En nú spyr ég að gefnu tilefni: Eru hvatirnar að þessari till. þær að þið séuð að segja: Við erum að gagnrýna störf Þjóðhagsstofnunar. Við erum að gagnrýna störf forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar. Við erum að gagnrýna störf starfsmannanna þarna. Við erum að segja að spárnar hafi ekki reynst réttar. Ef þið eruð að segja það verð ég því miður að segja um leið: Þetta er lítilmannleg afstaða því að forstjórinn starfar á ykkar pólitísku ábyrgð, stjórnarmeirihlutans hérna. Það eruð þið sjálfir sem berið ábyrgð á hinum pólitísku ákvörðunum. Það að ykkur eru gefin ráð og þið kunnið ekki vel að nýta er ykkar mál, ekki hans sem ráð gefur. Þið eruð að reyna að koma ábyrgð af hlutum sem þið berið ábyrgð á yfir á embættismenn.

Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson: Ef það hefði verið til rökstuðningur í þessari till. fyrir því að það að leggja niður Þjóðhagsstofnun væri tillaga um sparnað í ríkisrekstri og ef þið hefðuð svarað því að eftir að hafa lagt niður þessa stofnun hefðuð þið komið fyrir betur og með ódýrari og hagkvæmari hætti efnahagslegri úrvinnslu og efnahagslegri ráðgjöf, þá hefði hv. þm. getað talað við mig eins og hann var að gera en ekki fyrr. Mér var nefnilega bent á að þessi till., bara um það að leggja niður þessa stofnun, framkallar eina spurningu: Hvar ætlið þið, hv. tillögumenn, að láta vinna þá gagnavinnslu sem um er að ræða? Ætlið þið að láta hætta henni? Hvar ætlið þið að láta vinna það úrvinnslustarf úr þessum gögnum sem um er að ræða? Hvar ætlið þið yfirleitt að hafa hagdeildarstarfsemi stjórnarráðsins á Íslandi? Ætlið þið bara að leggja það niður? Ef þið ætlið ekki að leggja það niður verðið þið að gera svo vel að svara því hvar þið ætlið að koma því fyrir. Ég er búinn að sýna fram á það í fyrsta lagi að hluti af þessari starfsemi getur ekki átt heima á Hagstofu, því miður. Hér er um að ræða hagdeild stjórnarráðsins. Eruð þið þá að tala um að þið ætlið að koma upp hagdeildum í hverju einasta ráðuneyti eða ætlið þið að koma þessu einhvers staðar annars staðar fyrir? Segið það hreint út úr pokahorninu. Ætlið þið að leggja þessa starfsemi niður? Af hverju eruð þið með þá sýndarmennsku að tala um ráðdeild og sparnað sem vakir fyrir ykkur en nefna til stofnun sem er dæmi um ráðdeild og sparnað í ríkisrekstri í samanburði við allar þær stofnanir sem m.a. hýsa þá 177 hagfræðinga sem ég var að nefna áðan? Af hverju þessa sýndarmennsku og af hverju að gera öðrum upp skoðanir? Er þessi till. um það að vinna bug á kerfinu? Er þessi till. um það að vinna bug á æviráðningu embættismanna? Er þetta till. um það og er einhver að andmæla því að það sé æskilegt að færa menn til í kerfinu? Er þetta yfirleitt till. um nokkurn skapaðan hlut nema fimm mínútna vitleysa?

Það hlægir mig mest þegar hv. þm. eins og Birgir Ísl. Gunnarsson og Gunnar Schram koma og svara þessum rökum með því að segja: Nú eru talsmenn Alþfl. að verja eitthvert kerfi. Við erum ósköp einfaldlega að biðja ykkur um að gera eitt. Verið eins og heiðarlegir menn. Segið þið það ef þið viljið hafa pólitískar árásir á forstjóra Þjóðhagsstofnunar. Komið þið þá hreint til dyranna, segið þið það. Verið ekkert að fela þetta bak við hræsni.

Ef þið eruð hins vegar að tala um tillögugerð af viti, um það að þið séuð að auka sparnað eða auka hagkvæmni í þessum störfum, komið þið á með rökin fyrir því. Hvernig ætlið þið að koma þessum hlutum fyrir öðruvísi? Það liggur alveg ljóst fyrir að till. um að leggja stofnunina niður er ekki svar. Hvar ætlið þið að koma fyrir þeirri starfsemi sem heitir söfnun og úrvinnsla gagna? Ætlið þið að færa það inn í Hagstofu? Staðreynd er sú að þá eruð þið að búa til tvíverknað. Hverjir sinna núna þeim verkefnum að annast úrvinnslu þessara gagna og gerð þjóðhagsreikninga? Þá væruð þið að fjölga því starfsliði inni í Hagstofunni og þið væruð líka að hafa það fólk inni í stjórnarráði. Þetta eru smámunir í fjárhagslegu tilliti borið saman við það sem við hv. þm. Eyjólfur Konráð ættum að vera að ræða ef við erum að tala í alvöru um sameiginleg áhugamál um að hafa taumhald á kerfinu. En það vantar öll rök. Því miður. Það er leiðinlegt til þess að vita að þið skulið hafa fallið í þá gryfju að búa hér til sýndartillögu sem er pólitísk árás úr launsátri.