12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3001 í B-deild Alþingistíðinda. (2738)

302. mál, umhverfismál

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Fyrsti flm. þessarar till. vitnaði í samþykkt ríkisstjórnar frá 1978. Ég átti sæti í þeirri ríkisstjórn og þó að sú samþykkt hafi verið gerð var ég andvígur þeirri samþykkt. Ég tel að það sé ekki til þess að auka umhverfisvernd að stofna eitt nýtt báknið enn þá og setja öll umhverfismál undir eitt og sama ráðuneytið og ég hef aldrei fengið það skilið af hverju félmrn. ætti að verða umhverfis- og félmrn. Hvað á að gera við þær stofnanir sem hafa að undanförnu haft og hafa lögum samkvæmt með þessa þætti að gera? Hvað er um samvinnu á milli þeirra? Er hún slæm eða er hún góð? Hefur henni farið aftur á undanförnum árum eða hefur orðið einhver þróun í rétta átt?

Það er ekki höfuðatriðið að stofna til nýs ráðuneytis. Aðalatriðið er það að auka meira umhverfisverndina en nú er og að því leyti til er ég sammála flm, þessarar till. Það hefur verið gert. Andstaða ráðherra Sjálfstfl., eins og hv. ræðumaður nefndi það, taldi hann að stafaði af því að þeir vildu ekki missa verkefni úr sínum ráðuneytum. Ég er einlægur umhverfisverndarmaður og tel að við eigum að láta þau mál miklu meira til okkar taka, en ég sé enga ástæðu til þess að fara að stofna nýtt ráðuneyti og umbylta því starfi sem hefur verið unnið á undanförnum árum.

Ég nefni svona sem eitt dæmi að á síðasta löggjafarþingi voru samþykkt lög um varnir gegn mengun sjávar. Lögin eiga m.a. að tryggja hér á landi markvissari framkvæmd ýmissa alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar sem Ísland hefur staðfest. Það er óþarfi að fjölyrða um mikilvægi verndunar hafsins gegn mengun á fiskimiðum landsmanna. Gildi alþjóðasamninga í verndun hafsins gegn mengun er afar mikið í ljósi þess að mengunaráhrif í sjó geta haft mun alvarlegri afleiðingar á hafsvæðum fjarri mengunarvaldi en á hafsvæði sem nærri eru, allt eftir því hversu miklir hagsmunir eru í húfi. Alþekkt er að mengun berst með hafstraumum og lífverum um hafið. Lega landsins í leið öflugra hafstrauma gefur einnig sérstakt tilefni til þess að við fylgjumst vel með þróun mengunar hafsins í heiminum og þá sérstaklega á nærliggjandi hafsvæðum. Vaxandi mengun sjávar við strendur og á innhöfum Norður- og Austur-Evrópu og áhrif mengunarinnar á almenningsálitið í þessum löndum leiðir hugann að því að e.t.v. séu viðskiptalegir hagsmunir í hættu alllöngu áður en mengunin er komin á alvarlegt stig, sé eingöngu miðað við heilsufarsleg áhrif á almenning vegna neyslu sjávarfangs. Hliðstæð viðhorf almennings komu einnig fram í sambandi við kjarnorkuslysið í Chernobyl sem öllum er í fersku minni.

Fyrirhuguð bygging endurvinnslustöðvar fyrir brennsluefni kjarnaofna nyrst í Skotlandi í Dounreay hefur verið skoðuð sérstaklega af Geislavörnum, Hafrannsóknastofnun, Siglingamálastofnun og fulltrúa Íslands hjá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni. Það er álit þessara stofnana - en því áliti hefur verið dreift til allra þm. - að þrátt fyrir að ekki sé talin hætta á verulegum heilsufarslegum áhrifum af áfallalausri starfsemi þessarar stöðvar, ef reist yrði, muni fyrirhuguð starfsemi engu að síður auka geislavirka mengun á hafsvæðinu umhverfis landið og mengunarhættu vegna hugsanlegra slysa, bæði við flutning geislavirkra efna með skipum og vegna óhappa sem ekki er hægt að útiloka að geti orðið í endurvinnslustöðinni. Af þessum ástæðum fól ég, með bréfi 14. jan. s.l., Siglingamálastofnun ríkisins í samvinnu við Geislavarnir, Hafrannsóknastofnun og fulltrúa Íslands hjá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni að undirbúa að málið yrði tekið fyrir á aðalfundi samningsaðila Parísarsamningsins svokallaða, um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum, en sá samningur nær einmitt til mengunar af völdum geislavirkra efna. Þessi fundur verður haldinn í júní í sumar. Jafnframt var forstjóra Siglingamálastofnunar falið að kynna viðhorf Íslands til málsins innan samstarfsnefndar um mengunarmál sjávar með það fyrir augum að kanna möguleika samstöðu Norðurlandanna í þessu máli. Fundur var í gær í norrænu samstarfsnefndinni þar sem málið var kynnt og var þar tekið undir sjónarmið Íslendinga í þessu máli. Það var ákveðið að málaleitan Íslendinga um sameiginlega tillögugerð verði tekin fyrir á fundi umhverfisráðherra Norðurlanda í Helsingfors 25. þ.m. Það mun því væntanlega skýrast á næstu vikum hvort um sameiginlega tillögugerð Norðurlandanna verður að ræða í þessu máli eða hvort Ísland eitt eða með öðrum ríkjum flytur málið á aðalfundi Parísarsamningsins.

Jafnframt þessu get ég skýrt frá því að fram hafa farið viðræður á milli Siglingamálastofnunar, Hafrannsóknastofnunar og Geislavarna um mælingar á geislavirkum efnum í sjó hér við land nú á þessu ári. Mælingar þessar, sem mögulegt mun verða að framkvæma alfarið hér á landi með tilkomu nýs tækjabúnaðar Geislavarna, ættu að geta gefið gagnlegar upplýsingar um geislavirk efni í hafinu hér við land, upplýsingar sem nauðsynlegt er að aflað verði síðan með reglulegu millibili.

Ég veit að það er skoðun siglingamálastjóra að samstarf við eftirtaldar stofnanir í sambandi við þennan þátt mengunarvarna, Hollustuvernd ríkisins, Geislavarnir ríkisins og Hafrannsóknastofnun, hafi gefist vel. Í áliti sínu segir siglingamálastjóri: Í lögum um varnir gegn mengun sjávar eru ákvæði sem eiga að tryggja eðlileg samskipti og samráð þessara stofnana og koma í veg fyrir tvíverknað og skörun og draga um leið úr réttaróvissu. Ég segi: Er þetta ekki á réttri leið? Er þetta samstarf ekki ákjósanlegt? Hvers vegna þarf endilega að fá eitthvert annað ráðuneyti? Hvað á þá að gera við Hafrannsóknastofnunina, við Geislavarnir, við Hollustuvernd, við Siglingamálastofnun? Á að stofna eitthvað nýtt og fella niður þessa starfsemi og taka það út úr alþjóðasamskiptum sem þessar stofnanir hafa margar hverjar verið í í jafnvel mörg ár? Ég sé ekki að það sé breyting til batnaðar að fara að stofna þetta nýja apparat og á þessu hefur staðið. En þó að staðið hafi á löggjöf hefur samræmingin verið í fullum gangi víða Ístjórnkerfinu og á milli stofnana. Ég treysti miklu betur í sambandi við mengun sjávar stofnunum eins og Siglingamálastofnun og Hafrannsóknastofnun til að sinna þessum málum en einhverju nýju ráðuneyti þó að það heiti umhverfis- og félagsmálaráðuneyti. Ég sé því ekki að till., eins og hún er fram sett og orðuð, sé til bóta frá því sem nú er. Þetta er ástæðan fyrir því að ekki hefur verið flutt frv. um eitthvert sérstakt umhverfismálaráðuneyti en ekki andstaða, hvorki mín né annarra, gegn því. Það er skammur tími sem hver maður er ráðherra en ráðuneytin halda áfram og stofnanir og það er nauðsynlegt að nýta það starf sem þar hefur verið unnið á hverjum tíma.