12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3007 í B-deild Alþingistíðinda. (2741)

302. mál, umhverfismál

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Vegna þess máls sem hér er á dagskrá vil ég nefna það að umhverfismálin eiga sér nokkuð langa sögu í sölum Alþingis.

Þrisvar sinnum hafa fulltrúar Sjálfstfl. flutt frv. til laga um umhverfismál hér á Alþingi. Síðast var það á þinginu 1983-1984 að við nokkrir þm. fluttum sérstakt lagafrv. um það efni. Það er mála sannast að þau frv. náðu ekki fram að ganga. Raunar stöðvaðist frekari tillöguflutningur af okkar hálfu vegna þess að félmrh. lýsti því yfir að hann væri að undirbúa sérstakt frv. sjálfur um þessi mál og varð því ekki um frekari aðgerðir af okkar hálfu að ræða.

Þetta sýnir að mönnum hefur lengi verið ljós nauðsyn þess að sett verði samræmd heildarlöggjöf um umhverfismál á Íslandi. Það er hin mesta nauðsyn og þess vegna er sú tillaga sem hér er á dagskrá í dag góðra gjalda verð. Í því sambandi minni ég á þær tillögur sem liggja einnig fyrir þinginu á þskj. 90, sem hér var minnst á áður, og till. til þál. á þskj. 190, um stefnumótun í umhverfismálum. Ég flyt það mál ásamt nokkrum þm. Sjálfstfl.

Í því frv. sem við sjálfstæðismenn fluttum hér á þinginu 1983-1984 var gert ráð fyrir samræmdri heildarstjórn umhverfismála í stjórnardeild í Stjórnarráði Íslands. Þar var nefnt félmrn. Þar voru önnur ráðuneyti einnig nefnd. Málið var haft opið ef svo má segja. Forsrn. var þar einnig nefnt sem ráðuneyti sem þar kæmi til greina.

Mér finnst að sumu leyti að menn hafi verið að deila hér um keisarans skegg í umræðum um þetta mál. Málið snýst raunverulega ekki um það hvort þetta á að vera sjálfstætt ráðuneyti eða ekki. Kjarni málsins er: Á hvern hátt getur Alþingi komið á samræmdri yfirstjórn, samræmdri og skynsamlegri heildarstjórn í þessum málum sem eru nánast munaðarlaus í íslenska stjórnkerfinu nú og vanrækt bæði af Alþingi og stjórnvöldum. Það er einmitt sú samræmda stefnumótun er þörf er á, sem felst í till. á þskj. 190 sem ég nefndi áðan og ég flyt ásamt fleiri þm. Að því er einnig vikið í þeirri till. sem hér er á dagskrá í dag og því ber að fagna.

Ég vil leggja áherslu á að meginatriðið er að unnið sé að því að koma á skipulegri yfirstjórn umhverfismála í Stjórnarráði Íslands, svo að ég vitni í till. á þskj. 190. Það er kjarni málsins, hvort sem það verður deild eða ekki. Fyrst ber að vinna að þessari skipulagningu og stefnumótun. Síðan getum við tekið ákvörðun um nákvæm smáatriði í stjórnsýsluforminu. Það eru atriði sem ekki eru jafnáríðandi og hin, að á samræmdri stefnumótun verði þegar í stað tekið.