12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3014 í B-deild Alþingistíðinda. (2746)

313. mál, stjórnstöð vegna leitar og björgunar

Helgi Seljan:

Herra forseti. Örstutt hér vegna stuðnings við þá hugmynd um framkvæmd sem hér er lögð til. Þar er greinilega góð meining á bak við. Sem allra best samræming er án efa öllum til góðs, fyrst og síðast þó þeim sem á hjálp og aðstoð þurfa að halda. Einnig ætti ósanngjörn gagnrýni og óþörf, sem oft myndast í sambandi við svona viðkvæma hluti, síður til að koma. Dæmin eru til um gagnkvæmar ásakanir í þessum efnum, fullyrt að betur hefði mátt gera með betri samskiptum, betra samstarfi. Ég segi aðeins um það: Slíkt hryggir mann óneitanlega þegar maður þekkir til hins góða vilja hjá öllum þeim aðilum sem að þessum málum starfa og þeim mikla vilja sem þar er á að bregða sem fyrst og best við í hverju tilfelli. Í slíkum viðkvæmnismálum er án efa erfitt um að dæma og máske aldrei unnt, enda oft um þannig mál að ræða að ekki er unnt úr að bæta og skiptir þá máske litlu eftir á um þær ásakanir sem fram koma og engum geta orðið til góðs.

Ég held að eitt sé alveg víst í þessum efnum: að það gerist ekki með vilja hjá neinum björgunaraðila eða neinum þeim aðila sem að þessum málum kemur að seinkun verði á aðgerðum og því síður að eitthvað fari úrskeiðis. Vitanlega gerist það fyrir mannleg mistök af einhverju tagi, en ekki af vilja. Ég held að það sé nauðsynlegt gagnvart öllum þeim aðilum sem að þessu starfa að laða það besta fram, þekkinguna, áhugann, viljann og kannske sjálfsfórnina þá fyrst og síðast í þessum efnum. Það hljóta allir einlæglega að vilja leggjast á eitt án tillits til þess innan hvaða stofnunar eða innan hvaða félags menn starfa.

Þessi till. þarf því góða athugun, en hún þarf í meðferð sinni að byggjast á samkomulagi og velvilja allra þeirra sem þar eru til kallaðir og til þess leiðir tillagan vonandi.