12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3016 í B-deild Alþingistíðinda. (2749)

313. mál, stjórnstöð vegna leitar og björgunar

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég þakka jákvæðar umræður og undirtektir við þessa till. Ég ætla að fjalla um örfá atriði.

Hér hefur verið nefnt forræði Slysavarnafélags Íslands og hið mikla starf sem það félag gegnir. Þarna er bæði um að ræða túlkunaratriði og samkomulagsatriði. Ég get sagt, fyrir mig að mér finnst eðlilegt að Slysavarnafélag Íslands hafi eins og það hefur haft um árabil forræði á ströndum landsins og sú staða hefur komið upp allvíða. Mér finnst hins vegar eðlilegt þegar komið er að starfi úti á hafinu, björgunar- og hjálparstarfi úti á hafinu, að þá komi Landhelgisgæslan til skjalanna því að þar er skipaflotinn, þar er flugvélaflotinn, sem helst er að treysta á, og þar um borð eru þau loftskeyta- og stjórntæki sem geta bæði sinnt starfi á milli skipa og flugvéla, þannig að þessa kosti þarf auðvitað að nýta.

Deilt hefur verið um það hver ætti að hafa hið opinbera samband við aðrar erlendar stjórnstöðvar. Það er mál sem þarf að leysa en á að leysast að mínu mati nær af sjálfu sér með því að setja á stofn slíka stjórnstöð.

Það er ekki aðeins um að ræða þætti í starfi Slysavarnafélagsins varðandi hinar almennu sveitir félagsins um allt land, sem eru eins og net í kringum allt landið, björgunarnet í kringum allt landið, heldur einnig mjög mikilvæga þætti eins og Tilkynningarskylduna sem Slysavarnafélagið sér um og hlýtur að sjá um áfram. Þar er um að ræða frekari uppbyggingu og þróun sem er mjög spennandi. Það er líka um að ræða þann þátt sem Slysavarnafélagið sinnir í starfi sjómannafræðslunnar sem nú er verið að byggja upp fyrir alla starfandi sjómenn landsins og í framtíðinni fyrir miklu fleiri, ekki aðeins sjómenn heldur einnig landmenn sem sinna ýmsum störfum í hinum ýmsu atvinnugreinum. Á ég þar t.d. við eldvarnarstarf sem hlýtur að tengjast þessum skóla í framtíðinni.

Það má einnig nefna björgunarskipið Sæbjörgu sem er mjög spennandi þáttur í starfi Slysavarnafélagsins og á ugglaust eftir að setja mikinn svip á það starf á komandi árum og gleðilegt að nýlega voru vélar skipsins gangsettar á ný eftir allangt hlé svo að vart líður langur tími þar til Sæbjörg fer aftur að sigla í kringum landið.

Varðandi t.d. þætti í starfi Landhelgisgæslunnar má nefna þyrluflugið sem er einn stórkostlegasti þátturinn í björgunarstarfinu hér við land. Starfsmenn Gæslunnar á þeim vettvangi hafa sýnt dugnað og árvekni í að koma þar málum í gott horf og það hefur sýnt sig að það er mjög mikilvægt í öllu þessu starfi.

Þannig væri hægt að halda áfram að telja upp hina ýmsu aðila, eins og hjálparsveitir skáta, flugbjörgunarsveitir og marga fleiri, þar sem menn leggja á sig ómælt starf til þess að byggja upp þetta net sem við höfum svo mikla þörf fyrir og varðar mannslíf. En ástæðan fyrir því að tiltekið er að æskilegt sé að húsnæði slíkrar stöðvar sé í tengslum við Reykjavíkurflugvöll er einfaldlega sú að þar er mest svigrúmið til að koma svona stjórnstöð fyrir. Það þarf að gera hana vel úr garði, aðgengilega og rúmgóða og þar er mest svigrúm. Þar eru allmargir þeirra aðila sem ætlað er að vera í framkvæmdastjórn og Slysavarnafélagið með allt sitt góða kerfi út um allt land á ugglaust auðvelt með að aðlaga sig því að hafa þar einn þátt þessarar starfsemi í einni og sameiginlegri stjórnstöð.

Það má líka geta þess að í lögunum um Landhelgisgæslu Íslands segir beinlínis að Landhelgisgæslan eigi að veita hjálp við björgun manna úr sjávarháska eða á landi. Það segir einnig að Gæslan eigi að bjarga bátum eða skipum, sem kunni að vera strönduð eða eiga í erfiðleikum á sjó við Ísland, ef þess sé óskað. Þarna erum við því að fjalla um þætti þar sem saman fer lagasetning, opinberar stofnanir og svo starf sjálfstæðra og frjálsra félaga sem eru þrír af þeim fimm aðilum sem ætlað er að vera í framkvæmdastjórn.

Ég ítreka þakkir fyrir góðar undirtektir við þetta mál, vona að því farnist vel í meðferð þingsins og óska að till. verði að lokinni umræðu vísað til allshn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.