12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3023 í B-deild Alþingistíðinda. (2753)

306. mál, veiting sterkra drykkja á vegum ríkisins

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð sem innlegg í þessa umræðu um þá till. sem hér liggur fyrir á þskj. 542, um afnám veitinga sterkra drykkja á vegum ríkisins.

Það mætti halda, eftir þær upplýsingar sem 1. flm. þessarar till. gaf hér, hv. 7. landsk. þm., um að hún hefði orðið fyrir vonbrigðum með þm. Sjálfstfl. og beðið lengi eftir að þeir vildu vera með á þessari till. en enginn hefði gefið sig fram, að þm. Sjálfstfl. væru eitthvað drykkfelldari en annarra flokka þm. Þess vegna fannst mér ástæða til að koma í ræðustólinn og lýsa því yfir að það sé hreint ekki ástæða eða tilefni til að halda að svo sé. Það geta auðvitað verið ýmsar ástæður fyrir því að þm. séu ekki tilbúnir að taka þátt í flutningi þáltill., jafnvel þó þeir séu efnislega ekki á móti málinu sem slíku.

Ég minnist þess að sjálf hafi ég verið meðflm. og ég held með hv. 2. þm. Austurl. o.fl. að svipaðri þáltill. fyrir nokkrum árum. Ég man ekki hvenær það var, en sú till. var aldrei afgreidd í gegnum þingið frekar en oft gerist, jafnvel með góð mál.

Ég er sannfærð um að þm. Sjálfstfl. eru ekki síður áhugasamir um að minnka ofneyslu áfengis í landinu, en þetta er kannske spurning um hvaða aðferðir menn telja að sé heppilegt að hafa í þeim efnum. Hér fylgir á þessu þskj. fylgiskjal sem er opið bréf til ríkisstjórnar og alþm., „Heilbrigði fyrir alla árið 2000.“ Ég verð að segja að þegar þessi áskorun kom fyrst fyrir mín augu og eyru kom mér í hug hvort þarna væri ekki of mikið færst í fang að ætla sér það markmið að ná heilbrigði fyrir alla árið 2000, hvort það væri raunhæft að ná slíku fyrir heila þjóð. En þegar betur er að gáð held ég að það sé óhætt að álykta sem svo að þetta sé hreint ekki óraunhæft miðað við þau markmið sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur sett sér.

Það er óhætt að segja að oft hafa verið unnin stórvirki, meira að segja hér á landi, af hálfu læknavísindanna í útrýmingu langvinnra og alvarlegra sjúkdóma. Það er alltaf verið að finna ný og betri lyf og betri aðferðir. Nú er svo komið að menn eru farnir að viðurkenna að ofneysla áfengis, áfengissýkin, sé sjúkdómur. Það hafa verið unnin stórvirki hér á landi eins og víða annars staðar til að hjálpa því ólánssama fólki sem hefur orðið þeim sjúkdómi að bráð.

Það er staðreynd að neysla áfengra drykkja hefur aukist og er vissulega áhyggjuefni hve aldur þeirra hefur lækkað sem neyta þess. Oft er ofnotkun áfengis undanfari notkunar annarra vímuefna, en eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. er um tvenns konar vímuefni að ræða, annars vegar þau löglegu, sem hann vildi meina að menn kölluðu góðu fíkniefnin, og svo hins vegar þessi ólöglegu sem væru kölluð þau vondu. Ég er ekki alveg sammála því að menn vilji kalla áfengisneyslu góð fíkniefni því þegar orðið er um ofnotkun að ræða getur það aldrei verið gott. En staðreyndin er sú að ólöglegu fíkniefnin er nokkuð sem við ekki þekkjum og þess vegna óttumst við þau. Það er ekki óeðlilegt að t.d. foreldrar séu áhyggjufullir vegna barna sinna vegna þess að þeir þekkja ekki einkennin. Þeir geta jafnvel ekki fylgst með því hvort barnið eða unglingurinn hefur verið að fikta við þessi ólöglegu efni því það fylgir þeim ekki lykt á sama hátt og þegar áfengis er neytt. Því er kannske ekki óeðlilegt að viðhorf t.d. foreldra sé annað gagnvart þessum ólöglegu fíkniefnum en áfengi þó að foreldrar hafi að sjálfsögðu ekki síður áhyggjur af því. Það er þó betra að fylgjast með hvað þar er að gerast.

En þar sem áfengið er þetta löglega fíkniefni, ef við viljum kalla það svo, er held ég raunhæfasta leiðin í baráttunni við ofneyslu þess áróður og fræðsla og meiri áróður og meiri fræðsla. En það er með hann eins og svo margt annað að það er ekki sama hvernig sá áróður fer fram. Það er jafnvel ekki sama hver er með áróðurinn, hvar hann er og hvenær. Auðvitað er í fullu gildi þetta heilræði góðtemplara til æskufólksins að drekka aldrei fyrsta staupið, en það er ekki alltaf hlustað á slík heilræði því það er, eins og ég sagði áðan, ekki alveg sama hvernig og hvar þau eru sögð. Ef við hugleiðum drykkjuvenjur, og við tökum það sem þessi þáltill. fjallar um, í opinberum veislum, hvernig drykkir eru bornir fram í opinberum veislum eins og yfirleitt alls staðar annars staðar, þá er gengið út frá því að það sé áfengi sem boðið er upp á. Þeir sem vilja jafnvel taka sér óáfenga drykki eru fólkið með sérþarfirnar. Þeir fá vatnsglösin með kókinu eða appelsíninu í. Þeim eru almennt ekki bornir drykkir sem eru á sama hátt og vínin í fallegum glösum og jafnvel fallegir á litinn. Það er sem sagt almennt ekki lögð áhersla á að bjóða gestum upp á óáfenga drykki. Það er lögð megináhersla á áfengu drykkina. Ég held að ef það yrði t.d. lögð áhersla á að taka þarna upp nýja siði, að óáfengu drykkjunum í veislum, hvort sem þær eru opinberar eða ekki, væri gert jafnhátt undir höfði og hinum, þá mundi það eitt mörgu geta breytt og svo það að gera átak í því að breyta venjum fólks, hafa uppi áróður og jafnvel að koma því í tísku að drekka óáfenga drykki eins og þá áfengu, að það sé alveg eins sniðugt og að það sé alveg eins fínt að neyta óáfengra drykkja.

Í þessu sambandi má t.d. minna á tóbaksvarnanefndina sem hefur unnið skipulagt og markvisst forvarnarstarf sem viðurkennt er að hefur skilað árangri. Nú þykir ekki lengur fínt að reykja, menn eru jafnvel feimnir við það, menn biðja um leyfi og menn mega ekki reykja hvar sem er. Það er ekki lengur sjálfsagt að eiga allar tegundir af sígarettum og vindlum á heimilunum og jafnvel láta gestir sem koma inn á heimili sér ekki detta í hug að kveikja í vindlingi án þess að spyrja húsráðendur hvort þeir megi það.

Tími minn er liðinn, herra forseti, en ég vildi gera þessa smáathugasemd vegna orða 1. flm., hv. 7. landsk. þm., um það sem sneri að þingflokki Sjálfstfl. vegna þess að þeir eru ekki meðflutningsmenn á till. þessari. Það þarf ekki að þýða að þeir hafi aðrar skoðanir á málinu en aðrir hv. þm.