16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3037 í B-deild Alþingistíðinda. (2776)

342. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt, með síðari breytingum. Þetta er 342. mál deildarinnar sem flutt er á þskj. 596.

Frv. er flutt í tengslum við frv. um staðgreiðslu skatta. Þessi frumvörp og önnur sem þeim tengjast eru samin af starfsmönnum fjmrn., ríkisskattstjóra og starfsmönnum hans í samvinnu við nefnd sem fjmrh. skipaði s.l. haust í þeim tilgangi að endurskoða lög um tekju- og eignarskatt.

Undanfarin ár hafa farið fram miklar umræður um skattamál víða á Vesturlöndum og róttækar skattkerfisbreytingar verið lögfestar. Breytingarnar í Bandaríkjunum, sem gerðar voru á síðasta ári, eru alkunnar, en margar aðrar þjóðir hafa einnig gert miklar breytingar á skattheimtu. Víðast hefur náðst breið pólitísk samstaða um breytingar á skattkerfi af þessu tagi þar sem slíkar tillögur hafa verið bornar fram. Meginmarkmið með skattkerfisbreytingunum í þessum löndum hefur verið að gera skattlagningu einfaldari, skilvirkari og auðskiljanlegri öllum almenningi. Skattstigi hefur verið einfaldaður með því að fækka þrepum og fella þau hæstu niður til að lækka jaðarskatta. Áhersla hefur færst frá því að beita tekjuskatti til þess að færa fjármuni frá þeim tekjuháu til hinna sem lægri tekjur hafa í það að reyna að tryggja að þeir sem hafa svipaðar tekjur greiði sambærilega skatta að öðru jöfnu. Staðgreiðslu hefur víðast hvar verið komið á og hefur hún því ekki verið liður í þessum skattkerfisbreytingum í öðrum löndum.

Með frv. þessu er gerð tillaga um allróttæka breytingu á reglum um álagningu beinna skatta á einstaklinga hér á landi. Tillögur þessar eru annars vegar gerðar með tilliti til þess að róttæk einföldun álagningarreglna er skilyrði þess að við verði komið einföldu og skilvirku staðgreiðslukerfi og hins vegar í þeim tilgangi að álagningarkerfið sjálft verði einfaldara og skiljanlegra þeim sem við það eiga að búa.

Þótt skattkerfið hérlendis, sem byggir á lögum um tekju- og eignarskatt nr. 40 frá 1978, með síðari breytingum, sé tiltölulega einfalt miðað við skattkerfi í ýmsum öðrum löndum hefur gagnrýni á það farið vaxandi hin síðari ár. Í skýrslu nefndar sem kannaði umfang skattsvika og lögð var fyrir Alþingi 18. apríl 1986, sbr. ályktun Alþingis frá 3. maí 1984, er m.a. bent á nauðsyn þess að einfalda skattalögin og fækka skatttegundum. Í skýrslu nefndarinnar segir annars, með leyfi forseta:

„Aftur hefur sigið á ógæfuhliðina fyrir lögum um tekju- og eignarskatt síðan 1978, sbr. stofnlögin nr. 40/1978 og lög nr. 75/1981, með síðari breytingum. Undanþágum, frádráttarliðum og valkostum hefur sífellt fjölgað. Einfalda má lögin með því m.a. að koma til móts við mismunandi sérþarfir í tryggingalöggjöf, húsnæðislöggjöf og kjarasamningum í stað þess að gera það í skattalögunum sjálfum.“

Síðan segir í áliti nefndarinnar enn fremur, með leyfi forseta:

„Niðurfelling undanþága og fækkun frádráttarliða auðvelda öll skattskil, getur stytt fresti, dregur úr vinnuálagi á skattstofunum og gerir þeim kleift að sinna betur endurskoðun skattframtala og rannsóknum. Með því eykst aðhald og upplýstum brotum fjölgar.“

Núverandi tekjuskattslög eru að vísu ekki mjög flókin að því er varðar skattlagningu launatekna og líklega einfaldari og fremri hliðstæðri löggjöf í nágrannalöndum okkar. Engu að síður eru þær reglur sem í gildi eru um útreikning skatta margar og þau hugtök sem notuð eru svo flókin að venjulegur skattborgari leggur yfirleitt ekki á sig að kunna skil á þeim öllum. Tekjutengdir skattar til ríkis og sveitarfélaga og til ýmissa sérverkefna eru margir og byggjast á mismunandi grunni án þess að fyrir því séu augljós rök. Allt gerir þetta skattkerfið torskiljanlegt þeim sem við það eiga að búa.

Í umræðum um skattamál á síðustu árum hefur skattlagning eignatekna einnig komið til umfjöllunar, tengsl hennar við skattlagningu annarra tekna, skattlagningu eigna og áhrif hennar á sparnað. Eftir að sá árangur hefur náðst að fjármagn og sparifé ber jákvæða raunvexti eru spurningar um skattlagningu eignatekna í samanburði við aðrar tekjur áleitnari en áður var. Enn fremur hefur reynsla síðustu ára leitt í ljós að full þörf er á að endurskoða reglur um skattlagningu fyrirtækja. Þarf í því sambandi að athuga einföldun skattlagningar, frádráttarheimildir, afskriftarreglur o.fl.

Staðgreiðsla opinberra gjalda hefur verið til umræðu hér á landi um margra ára skeið. Frumvörp um það efni voru lögð fram á Alþingi á árunum 1977 og aftur 1981. Þau frumvörp þóttu þá býsna flókin og varð ekki af að Alþingi tæki málið þá til afgreiðslu.

Í fjmrn. hefur á liðnum árum verið unnið að endurskoðun allra meginþátta tekjuöflunarkerfis ríkisins. Lagt hefur verið fram á Alþingi frv. til l. um virðisaukaskatt sem kæmi í stað söluskatts sem er langstærsti tekjustofn ríkissjóðs. Einnig hefur verið lagt fram frv. til tollalaga og frv. til l. um tollskrá er tilbúið til framlagningar. Beinir skattar eru á eftir sölugjöldum og innflutningsgjöldum þriðji stærsti tekjustofn ríkisins. Endurskoðun beinna skatta er liður í heildarendurskoðun tekjuöflunarkerfisins. Í þeim tilgangi að vinna að henni og með hliðsjón af þeim atriðum varðandi tekjuskatt sem ég hef nefnt hér að framan, þ.e. einföldun skattkerfisins, skattlagningu eignatekna, skattlagningu fyrirtækja og staðgreiðslu skatta, skipaði ég í nóvember á síðasta ári starfshóp til að gera tillögur um breytingar á skattalögunum. Með skipunarbréfi var starfshópnum m.a. falið að kanna eftirfarandi:

1. Einföldun skattkerfisins, m.a. með afnámi sérstakra frádráttarliða og lækkun skattþrepa.

2. Skattlagningu á fjármagnstekjur og aðrar eignatekjur og samhengi slíkrar skattlagningar og eignarskatts, einnig skattlagningu á tekjur í formi hlunninda.

3. Skattlagningu á fyrirtæki, m.a. með tilliti til afskriftarreglna og þess hvort lækka megi álagningarhlutfall en fella niður í staðinn fjárfestingar- og varasjóðstillag.

4. Að kanna staðgreiðslu skatta og hvernig hún tengdist öðrum breytingum á skattalögum.

Við gerð kjarasamninga Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna í desember s.l. voru skattamál einnig tekin til umræðu og sendu samningsaðilar ríkisstjórninni hinn 5. des. sérstakt minnisblað um breytingar á tekjuskattskerfinu. Því svaraði fjmrn. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar með bréfi 6. des. þar sem segir m.a.:

„Ríkisstjórnin telur tillögur þessar um einföldun tekjuskattskerfisins og staðgreiðslu tekjuskatts mikilvægt innlegg í þá umfjöllun sem nú fer fram um breytingar á skattkerfinu. Hugmyndir þessar hafa verið athugaðar eftir því sem unnt hefur verið á skömmum tíma, m.a. af nefnd sem nú starfar á vegum fjmrn. að því verkefni að endurskoða tekjuskattslögin. Hér er um afar róttækar breytingar á tekjuskattsálagningu að ræða sem kalla á viðamikla lagasetningu. Undirbúningur slíkrar lagasetningar krefst margvíslegra athugana á áhrifum þessara breytinga áður en unnt er að taka endanlegar ákvarðanir um einstaka þætti. Hluti breytinganna samkvæmt hugmyndum samningsaðila er þess eðlis að hann snertir mjög sveitarfélög og aðra aðila með sjálfstæð verkefni samkvæmt lögum og verður ekki um hann fjallað án aðildar þeirra.

Fjmrn. mun fela nefnd þeirri sem að framan greinir að taka tillögur þessar til umfjöllunar og úrvinnslu og mun hún hafa í því efni samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Í þeirri vinnu og í því samstarfi verður lögð áhersla á að gera skattkerfið einfalt, draga úr möguleikum á undanskoti tekna og breikka skattgrunninn með því að draga inn í hann allar tekjur og tekjuígildi og fella niður frádráttarliði. Það svigrúm sem þarna myndast verður fyrst og fremst notað til að hækka skattleysismörk og einnig til að lækka skatthlutfall, enda mun slíkt hvetja til bættra skattskila. Áhersla mun lögð á að frv. um þetta efni verði lagt fram á því þingi er nú situr þannig að unnt verði að taka upp staðgreiðslu beinna skatta í ársbyrjun 1988.“

Eftir að yfirlýsing þessi lá fyrir var ákveðið að tillögur um einföldun skattkerfisins og nauðsynlegar breytingar vegna staðgreiðslu á tekjuskatti einstaklinga skyldu vera forgangsverkefni starfshópsins þannig að unnt yrði að skila áliti og frumvarpsdrögum fyrir lok janúarmánaðar 1987. Vinnu við víðtækari breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt, t.d. vegna skattlagningar fjármagnstekna og annarra eignatekna og vegna skattlagningar fyrirtækja, var þannig vikið aftur fyrir tillögur um breytingar á tekjuskatti einstaklinga. Ráðgert er að starfshópurinn snúi sér að þessum verkefnum í beinu framhaldi af afgreiðslu þeirra frumvarpa sem nú liggja fyrir. Vegna þessara breytinga á verkefnum starfshópsins var nokkrum af starfsmönnum ráðuneytisins og ríkisskattstjóraembættisins falið að starfa með hópnum og bættist efnahagsráðunautur ríkisstjórnarinnar einnig í þann hóp í janúar 1987.

Frv. um þetta ásamt hliðarfrumvörpum er afrakstur af starfi þessara aðila. Hafa þeir átt ágætt samstarf við Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands um málið sem og félmrn. um þann þátt þess sem að sveitarfélögunum snýr, en það ráðuneyti hefur annast samskipti við fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga og samið frv. til l. um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem nauðsynlegar eru vegna staðgreiðslu opinberra gjalda.

Í frv. því sem hér er til umræðu er gert ráð fyrir að lagður verði á einn tekjuskattur til ríkisins sem komi í stað núverandi tekjuskatts, sjúkratryggingagjalds, gjalds til Framkvæmdasjóðs aldraðra, sóknargjalds og kirkjugarðsgjalds. Þessi tekjuskattur innheimtist ásamt útsvari til sveitarfélags þannig að í reynd verður um að ræða eitt álagningarhlutfall fyrir alla launþega að öðru leyti en því að frávik í útsvarsálagningu milli einstakra sveitarfélaga kemur fram við uppgjör eftir á samkvæmt álagningu á framtal. Þeim aðilum sem nú njóta tekna af þeim sérsköttum er hverfa verður á móti tryggð hlutdeild í hinum sameiginlega skatti.

Ég vil á þessum stað vekja athygli hv. þdm. á því að við lokafrágang á frv. urðu þau mistök að í 10. gr. þess stendur að 75% þess persónuafsláttar sem ekki nýtist einstaklingi verði millifæranlegur til maka. Sama villa er í athugasemdum þar sem að þessu efnisatriði er vikið. Eins og fram hefur komið í kynningu og var m.a. í þeim gögnum sem kynnt voru fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna er ætlunin að hér verði um að ræða 80% hlutfall í stað 75%. Ég mun vegna þessa skrifa þeirri þingnefnd sem fær málið til meðferðar og óska eftir því að nefndin flytji brtt. til leiðréttingar á þessum mistökum og í umfjöllun minni um þetta mál verður gengið út frá því sem ætlað var og ákveðið var að hlutfallið verði 80% .

Meginbreytingum samkvæmt frv. má skipta í tvo þætti. Annars vegar er myndaður einn sameiginlegur og breyttur skattstofn og hins vegar er álagningarreglum breytt verulega. Í gildandi lögum eru stofnar til ákvörðunar útsvars og tekjuskatts mismunandi. Í frv. er hins vegar lagt til að framvegis verði einn stofn myndaður af öllum vergum greiðslum vinnuveitenda til launþega, þ.e. inn í stofninn gangi allar launagreiðslur auk ýmissa sérstakra liða, svo sem bifreiðastyrkja, dagpeninga og annarra starfstengdra greiðslna, fríðinda og hlunninda. Enn fremur er gert ráð fyrir að lífeyrir og tryggingabætur og allar slíkar greiðslur verði hluti skattstofnsins en hluti þeirra hefur verið utan útsvarsstofns. Þessi nýi stofn mun samsvara núgildandi útsvarsstofni að viðbættum þeim frádráttarliðum sem nú eru heimilaðir við myndun hans. Þeir eru skyldusparnaður, kostnaður á móti ökutækjastyrk og dagpeningum, hlunnindi, verkfæra- og hljóðfærapeningar, helmingur greiddra meðlaga og námsfrádráttur. Enn fremur hækkar stofninn um elli- og örorkulífeyri almannatrygginga. Vegna breytts álagningarkerfis, einkum mikillar hækkunar á persónuafslætti, mun síðasttalda atriðið þó ekki valda álagningu gjalda nema til komi aðrar tekjur í verulegum mæli. Sama máli gegnir um námsfrádrátt. Tekjur námsmanna munu af sömu ástæðum að öllu jöfnu ekki leiða til skattlagningar.

Sú leið var valin að því er varðar bifreiðastyrki, dagpeninga og þess háttar greiðslur að gera ráð fyrir að af þessum liðum verði greiddur skattur í staðgreiðslukerfinu. Hins vegar eru sérstök ákvæði til að koma í veg fyrir að menn greiði skatt af raunverulegum kostnaði sem þeir hafa, til að mynda vegna notkunar bíla í þágu vinnuveitenda eða á ferðalögum vegna starfs síns. Þau ákvæði eru hins vegar þrengri en nú er og áformað að fylgja því betur eftir að liðir þessir verði ekki notaðir til undanskots á sköttum. Þær talnalegu upplýsingar sem fyrir liggja sýna svo að ekki verður um villst að þessir liðir eru nú í allmiklum mæli notaðir til að koma tekjum fram hjá skattlagningu.

Mismunur á tekjuskattsstofni og útsvarsstofni er einkum fólginn í því að ekki eru í báðum tilfellum heimilaðir sömu frádráttarliðir. Í frv. er gert ráð fyrir einum sameiginlegum skattstofni, eins og að framan er greint, sem fæst með því að bæta við núverandi útsvarsstofn flestum þeim frádráttarliðum sem nú eru leyfðir.

Samkvæmt framtölum 1986 vegna tekna á árinu 1985 var útsvarsstofn um 57,9 milljarðar kr. hjá um 161 000 framteljendum. Með þeim breytingum sem í frv. felast hefði sameiginlegur skattstofn á árinu 1986 orðið 64,7 milljarðar kr. Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir að af 1,4 milljörðum kr. í bifreiðastyrkjum og dagpeningum, sem samkvæmt framansögðu mynda viðbótarskattstofn, verði 500 millj. kr. viðurkenndar við framtal sem kostnaður sem ekki beri að greiða skatt af. Þótt skattstofninn hækki samkvæmt þessu um rúmlega 7 milljarða kr. eða um 12% mun það ekki leiða til samsvarandi hækkunar álagningar þar sem verulegur hluti þessarar hækkunar er elliog örorkulífeyrir, sem er nú þegar hluti tekjuskattsstofns, og námsfrádráttur en þessar tekjur renna að mestum hluta til þeirra sem ekki munu greiða skatt vegna hinnar miklu hækkunar á persónuafslætti.

Auk framangreindra frádráttarliða, sem ásamt gildandi útsvarsstofni mynda hinn nýja skattstofn, eru felldir niður frádráttarliðir sem eingöngu hafa haft áhrif á tekjuskatt. Þar sem þessir frádráttarliðir hafa ekki haft áhrif á útsvarsstofn breyta þeir ekki fyrirhuguðum skattstofni frá því sem að framan er greint. Um er að ræða eftirfarandi liði:

Sjómannafrádráttur, fiskimannafrádráttur, kostnaður við stofnun heimilis, iðgjöld í lífeyrissjóði, stéttarfélagsgjöld, iðgjöld af lífsábyrgð, vaxtagjöld til frádráttar, gjafir til menningarmála og fastur frádráttur.

Í stað tveggja fyrstnefndu frádráttarliðanna er gert ráð fyrir að upp verði tekinn sérstakur sjómannaafsláttur. Vegna þess hve stór hluti framteljenda, eða um 80%, notar heimild til fasts frádráttar hafa aðrir frádráttarliðir lítið að segja nema vaxtafrádrátturinn og nýtast þeir ekki nema í tengslum við hann. Gert er ráð fyrir að í stað vaxtafrádráttar komi sérstakar húsnæðisbætur.

Tekjuskattsstofn 1986 að teknu tilliti til frádráttarheimilda var 51,1 milljarður kr. hjá um 161 000 gjaldendum. Fyrir utan breytingar á skattstofni eru meginbreytingar frv. fólgnar í breyttum reglum um álagningu gjalda á skattstofninn.

Frv. þetta er samið í þeim tilgangi fyrst og fremst að einfalda álagningarkerfið og m.a. að skapa þannig forsendu fyrir einfaldari innheimtu í staðgreiðslu. Frv. gerir því ekki ráð fyrir neinni verulegri breytingu á skattheimtu eða lækkun skatta, enda væri slíkt ekki raunhæft nema í tengslum við önnur tekjuöflunaráform eða lækkun útgjalda að verulegu marki.

Til þess að auðvelda þær breytingar sem frv. felur í sér var þó ákveðið að gera ráð fyrir nokkurri lækkun tekjuskatta til ríkisins. Við samningu frv. var eftir því sem unnt var reynt að ná þeim markmiðum að tekjur þeirra opinberu aðila, sem málið snertir, héldust sem næst óbreyttar frá því sem þær voru á árinu 1986 og að dreifing skattbyrði raskaðist ekki verulega frá þeim tíma að öðru leyti en því að náð yrði settu marki um skattleysismörk. Að því er varðar tekjur ríkissjóðs var þó tekið tillit til þess að áður hafði verið ákveðin lækkun tekjuskatta um 300 millj. kr. sem kemur til framkvæmda við álagningu skatta á árinu 1987.

Álagningarreglur fyrir þau gjöld sem frv. þetta fjallar um eru nú margar og þó að hver um sig geti verið einföld virka þær í heild sem allflókið úrlausnarefni og ekki er auðgert að meta áhrif þeirra saman. Við athugun sýndi sig þó að framangreindum markmiðum um tekjuöflun og dreifingu skatta var unnt að ná með tiltölulega einföldu álagningarkerfi með einum skattstofni, einu skatthlutfalli og einum almennum skattafslætti. Auk þess er sérstökum markmiðum varðandi einstaka hópa náð með bótum eða afsláttarliðum sem ekki tengjast skattstofni. Gert er ráð fyrir að í stað tekjuskatts, sjúkratryggingagjalds, framlags í Framkvæmdasjóð aldraðra, sóknargjalda og kirkjugarðsgjalds komi eitt skatthlutfall, 28,5%. Við það er áætlað að bætist útsvar til sveitarfélaga, 6,25% af skattstofni. Sameiginlegt skatthlutfall yrði því 34,75%. Það útsvarshlutfall sem að framan greinir, 6,25%, er áætlað með tilliti til þess að tekjur sveitarfélaga af þessum tekjustofni verði hinar sömu og verið hefur. Ekki er fjallað um útsvarsákvörðunina í frv. þessu en framangreind tala er það hlutfall sem að mati fjmrn. hefði gefið sveitarfélögunum sömu tekjur af útsvari og þau höfðu á árinu 1986 og næstu árum þar á undan.

Frá hluta ríkissjóðs í þannig reiknuðum skatti dregst persónuafsláttur og sjómannaafsláttur. Af hluta ríkissjóðs greiðast einnig barnabætur og húsnæðisbætur, svo og hlutdeild sókna og kirkjugarða en miðað er við að tekjur þeirra verði hinar sömu og verið hefur. Persónuafslátturinn, sem dregst frá hinum sameinaða skatti, er að fjárhæð 11 500 kr. á mánuði á hvern skattgreiðanda miðað við verðlag í febrúar 1987. Gert er ráð fyrir að skattafslátturinn verð millifæranlegur til maka að 4/5 hlutum. Kveðið er á um að hann verði hækkaður tvisvar á ári til samræmis við breytingar á verðlagi eins og þær mælast með lánskjaravísitölu. Afsláttur þessi svarar til þess að tekjur neðan við u.þ.b. 33 000 kr. á mánuði séu skattfrjálsar hjá einstaklingum og 5966 000 kr. á mánuði hjá barnlausum hjónum en hjá öðrum yrðu skattfrelsismörkin hærri sem nemur barnabótum.

Gert er ráð fyrir að barnabætur verði óbreyttar frá því sem þær eru á þessu ári að öðru leyti en því að bætur til einstæðra foreldra verða tvöfaldar þær bætur sem hjón eða sambúðarfólk á rétt á. Barnabótaauki er að öllu leyti hafður óbreyttur. Gert er ráð fyrir að bætur þessar hækki eftir sömu reglu og persónuafsláttur, þ.e. eftir hækkun lánskjaravísifölu. Í stað vaxtafrádráttar húsbyggjenda er gert ráð fyrir húsnæðisbótum 55 000 kr. á ári í sex ár til þeirra sem byggja eða kaupa íbúðarhúsnæði í fyrsta sinn og verða þær útborganlegar séu þær hærri en álagður skattur viðkomandi. Tekjumissir ríkissjóðs vegna núgildandi ákvæða um vaxtafrádrátt var við álagningu á árinu 1986 um 530 millj. kr. og er bótafjárhæð frv. miðuð við að kosta ríkissjóð u.þ.b. sömu fjárhæð.

Í frv. er miðað við að húsnæðisbætur verði greiddar í sex ár vegna fyrstu íbúðar. Ætla má að þegar fram í sækir verði samtímis greiddar bætur vegna um 10 200 íbúða. Bætur á íbúð að fjárhæð rúmlega 50 000 kr. miðað við árið 1986 hefðu því kostað ríkissjóð það sama og vaxtafrádrátturinn. Í frv. er sú fjárhæð færð í 55 000 kr. í febrúar 1987 með tilliti til verðlagsbreytinga til 1. febrúar og eftir það breytist hún í samræmi við lánskjaravísitölu. Þó að hér sé gert ráð fyrir sama fé og áður í þennan þátt er ljóst að með hinu nýja fyrirkomulagi verður dreifing fjárins jafnari en áður. Nú njóta þeir mest í vaxtafrádrætti sem greiðastan aðgang hafa að lánum. Dreifing frádráttarins sýnir að hann vex með hækkandi tekjum. Samkvæmt frv. munu allir sem byggja í fyrsta sinn njóta afsláttarins að jöfnu. Mun hann á þeim sex árum sem hann er við lýði svara til 65-70% af vöxtum af hámarksláni Húsnæðisstofnunar.

Í stað sjómannafrádráttar og fiskimannafrádráttar gerir frv. ráð fyrir sérstökum afslætti frá skatti, sjómannaafslætti, er nemur 150 kr. á skráningardag. Fjárhæð sjómannaafsláttar er miðuð við að hafa svipuð áhrif hjá sjómönnum og núverandi frádráttarreglur hafa hjá sjómanni með meðaltekjur. Meðaltekjur sjómanna á árinu 1985 voru um 1 millj. kr. og er áætlað að frádráttarreglurnar hafi leitt til þess að skattar sjómanns með þær tekjur hafi lækkað um rösklega 50 000 kr. Er afslátturinn því ákveðinn 150 kr. á dag miðað við 360 daga eða 4500 kr. á mánuði. Áætla má að sjómannaafsláttur þessi kosti ríkissjóð sem næst hið sama og fyrra fyrirkomulag en dreifist hins vegar með jafnari hætti en áður var milli þeirra sem hans njóta.

Í þessum lögum eru sóknargjöld og kirkjugarðsgjöld ekki ákveðin en hins vegar miðað við að þau verði ákveðin þannig að tekjur af þeim verði hinar sömu og á árinu 1986. Verði ekki svo þarf að endurskoða skatthlutfallið með tilliti til þess.

Ég hef hér gert grein fyrir þeim meginbreytingum sem frv. þetta felur í sér en þeim og forsendum þeirra er nánar lýst í athugasemdum með frv. Ég vil í framhaldi af því gera nokkra grein fyrir helstu áhrifum sem vænta má að það hafi á tekjuöflun ríkissjóðs annars vegar og skattgreiðslur hins vegar ef það verður að lögum. Til þess að meta áhrif breytinga álagningarkerfisins á tekjur ríkissjóðs var Reiknistofnun Háskóla Íslands fengin til að gera samanburð á mismunandi álagningu á grundvelli úrtaks úr framtölum fyrir árið 1985. Til þess að meta áhrif kerfisbreytinganna sem slíkra voru áhrif vaxtafrádráttar, sjómannafrádráttar og nýting persónuafsláttar til greiðslu á eignarskatti tekin út úr álagningu á árinu 1986 og hún endurunnin þannig breytt. Til samanburðar var álagning áætluð eins og hún hefði orðið í staðgreiðslu á árinu 1986. Til þess voru tekjur ársins 1985 hækkaðar um 33,5% sem er áætluð meðalhækkun tekna á mann á milli áranna 1985 og 1986 og búinn til nýr skattstofn eins og honum er lýst í frv. Að því loknu var álagning reiknuð eftir tilhögun frv. Álagning þessi tók ekki mið af húsnæðisbótum né sjómannaafslætti, en þar sem samsvarandi liðir höfðu verið teknir út úr viðmiðuninni og ætlað er að kostnaður við þá sé hinn sami í báðum kerfunum hefur það ekki áhrif á niðurstöðurnar. Sama er að segja um sóknargjald og kirkjugarðsgjald. Þau eru í báðum tilvikum utan samanburðarins. Útreikningar þessir sýna að við þessa breytingu má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs lækki um nær 300 millj. kr. til viðbótar við þá lækkun sem ákveðin var með lögum í lok s.l. árs.

Eins og fram hefur komið felur frv. þetta í sér verulega hækkun skattleysismarka. Að sjálfsögðu þýðir það að ríkissjóður verður af tekjum sem nemur þeim skatti sem greiddur var af tekjum neðan þeirra auk þess sem skattar af tekjum sem komu til skattlagningar og voru ofan skattleysismarkanna lækka nokkuð. Í þessum þáttum felst sú lækkun sem kemur fram í tekjum ríkissjóðs. Á móti þessari lækkun kemur nokkur hækkun af breikkuðum skattstofni. Sú hækkun mun að því er ætlað er fyrst og fremst stafa af því að skattlagðar verða tekjur sem ekki hafa verið skattlagðar í núverandi kerfi. Enn fremur standa vonir til að með breyttum ákvæðum í 59. gr. laganna um viðmiðunartekjur, staðgreiðslukerfinu sjálfu og bættum möguleikum á eftirliti muni tekjur einstaklinga með rekstur skila sér betur til skattlagningar en verið hefur. Ekki hefur verið tekið tillit til þessa í framangreindum útreikningum. Að því leyti sem frv. gerir ráð fyrir hækkun skatta er því ekki um að ræða hækkun hjá þeim sem þegar greiða af öllum sínum tekjum heldur það að reynt er að koma því til leiðar að þeir sem hafa svipaðar tekjur greiði einnig sambærilega skatta.

Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs lækki nokkuð við þessar breytingar þegar ekki er reiknað með áhrifum af skilvirkari skattheimtu. Samkvæmt þeim mælikvarða sem almennast hefur verið notaður á skattbyrði, þ.e. hlutfallinu skattur á móti heildartekjum, er um nokkra lækkun skattbyrði að ræða sem svarar u.þ.b. 0,3% af heildartekjum. Þegar tekið er tillit til þess að þær auknu skatttekjur sem reiknað er með koma af tekjum sem ekki hefur náðst að skattleggja er ljóst að lækkun skattbyrði hjá þeim sem hingað til hafa greitt skatta samkvæmt settum reglum af öllum sínum tekjum í hvaða formi sem er er nokkru meiri eins og fram kemur.

Áhrif breytinganna á skatta einstaklinga stafa af tvennu. Annars vegar eru áhrif af breyttu álagningarkerfi og hins vegar áhrif af breyttum skattstofni, þ.e. niðurfellingu frádráttarliða o.fl. Áhrifin af álagningarkerfinu einu saman eru jafnframt heildaráhrifin fyrir þá sem ekki nutu eða munu njóta ívilnana af einu eða öðru tagi í formi sérstakra frádrátta eða afsláttarliða. Þessi áhrif hafa verið metin með líkani af breyttu álagningarkerfi án breytingar á skattstofni að öðru leyti en því að felld var niður 10% frádráttarregla við myndun tekjuskattsstofns. Útreikningar þessir eru birtir sem fskj. með frv.

Útreikningar þessa líkans sýna í stórum dráttum að áhrif breytinganna fyrir þessa aðila eru annars vegar hækkun skattleysismarkanna eins og að var stefnt og að ofan þeirra lækka skattar sem nemur allt að 5-6% af tekjum næst mörkunum en minna eftir því sem ofar dregur. Þessi áhrif eru næsta jöfn hjá mismunandi hópum nema hjá einhleypum þar sem þau eru nokkuð minni en hjá öðrum. Þessir útreikningar staðfesta það sem fyrr var sagt að horfur eru á að skattbyrði lækki hjá þeim sem ekki njóta nú ívilnana. Þegar metin eru áhrifin á aðra og heildaráhrif breytinganna verður að taka tillit til þess að skattstofninn breikkar nokkuð. Þau áhrif má lesa út úr útreikningum Reiknistofnunar Háskólans sem vitnað var til hér að framan. Lokaútreikningar lágu það seint fyrir að ekki tókst að prenta þá með frv. en þeir hafa verið sendir þingflokkum til skoðunar.

Í útreikningum þessum koma fram áhrif breytinganna að meðtöldum áhrifum af stækkun skattstofnsins. Þeir sýna sem vænta má minni mismun en þeir sem vitnað er til hér að framan. Samkvæmt þeim lækkar skattbyrði yfirleitt vel upp fyrir miðjan tekjuskattsstigann en þar fyrir ofan er niðurstaðan breytileg. Auk áhrifa af breyttum skattstofni hefur brottfall vaxtafrádráttar hér áhrif svo og sjómannafrádráttar en allir þessir þættir hafa meiri áhrif í ofanverðum skalanum en neðar í honum.

Í heild má segja að með breytingum samkvæmt frv. þessu og þeirri lækkun á tekjuskatti sem í því felst hafi tekist að ná þeim markmiðum sem að var stefnt, þ.e. að hækka skattleysismörkin og lækka skatthlutföllin samfara einföldun kerfisins.

Við undirbúning þessa frv. og annarra sem því tengjast hefur verið haft samstarf við fjölmarga aðila er láta sig varða þessi efni. Þær undirtektir sem tillögur þessar hafa fengið eftir að þær urðu kunnar bera með sér að þær njóta mjög almenns og víðtæks stuðnings. Því er þess að vænta að hér á hinu háa Alþingi fái frv. greiðan framgang og mikið liggur við að það nái fram að ganga á þessu þingi þannig að þessar breytingar geti ásamt með staðgreiðslukerfinu tekið gildi í byrjun næsta árs. Ég vænti góðrar samvinnu við hv. þingdeildarmenn um það efni. Rétt er að taka fram að óhjákvæmilegt er að ræða í einu samhengi meginefni þessa frv., svo og þess frv. sem er á dagskrá deildarinnar í dag um staðgreiðslu skatta. Svo tengd eru þessi mál efnislega. Ég vænti einnig góðrar samvinnu við hv. þingdeildarmenn um það efni.

Frú forseti. Ég legg til að máli þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.