16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3047 í B-deild Alþingistíðinda. (2778)

340. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Það er 340. mál deildarinnar á þskj. 594. Með frv. þessu er lagt til að gerð verði sú grundvallarbreyting á skattkerfi hér á landi að innheimta tekjuskatts og útsvars verði í formi staðgreiðslu. Staðgreiðsla opinberra gjalda hefur verið til umræðu hérlendis um margra ára skeið og frv. þar að lútandi voru lögð fram á Alþingi á árunum 1977 og aftur á árinu 1981. Málið er hins vegar nú í mjög breyttu formi frá því sem áður var. Er þar bæði um að ræða annað fyrirkomulag staðgreiðslunnar og mikla einföldun skattkerfisins sjálfs. Samhliða þessu frv. um sjálfa skattinnheimtuna eru lögð fram önnur frv. þar sem gert er ráð fyrir ýmiss konar einföldun í skattkerfinu og nauðsynlegum breytingum á öðrum lögum til samræmis við ákvæði þessa frv.

Í fyrsta lagi er þar um að ræða frv. til laga um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt, með síðari breytingum, sem þegar hefur verið gerð grein fyrir. Í því frv. er m. a. að finna ákvæði um ýmsar breytingar á skattstofni og skattálagningu auk ákvæða um skatthlutfall og skattafslátt.

Í öðru lagi fylgir sérstakt frv. um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og ýmis tímabundin úrlausnarefni sem fylgja breytingu úr núverandi kerfi eftirágreiddra skatta yfir í staðgreiðslu. Um alla tilhögun í því sambandi vísast til þess frv. og athugasemda með því.

Þriðja frv. snertir breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga til samræmis við þetta frv. Loks þarf að gera breytingar á lögum um kirkjugarðsgjald og sóknargjald vegna samruna þessara gjalda við tekjuskattinn eins og áður hefur komið fram.

Ég hef þegar í framsöguræðu fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt gert grein fyrir meginþáttum þeirra breytinga á skattkerfinu sem eru forsenda þess frv. sem hér er til umræðu. Þeim atriðum eru auðvitað einnig gerð ítarleg skil í athugasemdum með frv. Staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars samkvæmt frv. þessu nær til almennra launþega og einstaklinga með atvinnurekstur. Staðgreiðsla skatta af tekjum launþega er í höndum launagreiðenda en einstaklingum með atvinnurekstur ber að reikna sér endurgjald og miðast mánaðarlegar skattgreiðslur þeirra við þær tekjur, þó eigi lægri en þær tekjur sem viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra ákveða.

Það staðgreiðslukerfi sem frv. þetta gerir ráð fyrir byggir á tiltölulega einföldum grunni þar sem sömu frádráttarreglur gilda um alla launamenn. Einstaklingsbundin frávik koma til afgreiðslu við eftiráuppgjör þegar framtali staðgreiðsluársins á undan hefur verið skilað. Þá koma skattar á eignir einnig til álagningar. Sérstakir afsláttarliðir eins og sjómannaafsláttur og húsnæðisbætur koma til útreiknings utan við staðgreiðslukerfið sjálft. Sama er að segja um barnabætur sem greiddar verða hlutaðeigandi aðilum beint.

Í aðalatriðum gengur kerfið þannig fyrir sig að launþegi afhendir aðallaunagreiðanda sínum skattkort í upphafi árs eða þegar hann hefur störf. Á skattkortinu koma fram persónubundnar upplýsingar um viðkomandi skattgreiðanda, upplýsingar um skatthlutföll og staðfesting ríkisskattstjóra á því að hlutaðeigandi skattgreiðandi eigi rétt á persónuafslætti. Stundi maki launþegans ekki launað starf er heimilt að leggja skattkort hans inn hjá launagreiðanda hins makans og kemur persónuafsláttur tekjulausa makans til frádráttar skatti hins að 4/5 hlutum.

Aðeins aðallaunagreiðanda, þ.e. þeim launagreiðanda sem afhent hefur verið skattkort launþegans, er heimilt að draga persónuafslátt frá skatti viðkomandi launþega. Öðrum launagreiðendum ber að innheimta og standa skil á fullum skatti samkvæmt skatthlutfalli án afsláttar.

Þegar laun eru greidd reiknar launagreiðandinn skatt af launum viðkomandi og dregur frá persónuafsláttinn og millifærðan persónuafslátt maka ef því er að skipta. Skatturinn skiptist milli sveitarfélags og ríkisins í þeim hlutföllum sem lögin gera ráð fyrir og leggjast greiðslurnar inn á tilgreindan reikning eða reikninga í bankastofnunum eða póststöð ásamt með skilagrein. Nánari reglur verða síðan settar um skiptingu á innheimtufé, staðgreiðslu á milli ríkissjóðs og sveitarfélaga.

Eftir að staðgreiðsluárinu er lokið fer fram endanleg álagning tekjuskatts og útsvars. Kemur þá í ljós hvort munur er á álögðum skatti og þeim skatti sem inntur hefur verið af hendi með staðgreiðslunni. Eigi gjaldandi inni eftirstöðvar af staðgreiðslu ganga þær fyrst til skuldajöfnunar á öðrum ógoldnum en gjaldföllnum opinberum gjöldum, en eru ella endurgreiddar með verðbótum, og eru það nýmæli. Skuldi gjaldandi hins vegar tekjuskatt og útsvar koma þau til innheimtu með verðbótum ásamt öðrum opinberum gjöldum, eins og til að mynda eignarskatti, sem lögð kunna að vera á viðkomandi skattgreiðanda.

Eins og frv. þetta ber með sér hefur verið lagt kapp á að gera staðgreiðslukerfi skatta eins einfalt í framkvæmd og unnt er. Forsenda þess er róttæk einföldun skattkerfisins sjálfs, einn skattstofn, eitt skatthlutfall og einn almennur afsláttur, svo og að endurgreiðsla skatta í formi barnabóta, húsnæðisbóta og sjómannaafsláttar verði framkvæmd utan staðgreiðslukerfisins sjálfs. Af þessum ástæðum má ætla að framkvæmd staðgreiðslu muni ekki hafa í för með sér verulegar breytingar í vinnu og kostnaði frá því sem nú er. Að sjálfsögðu fylgir upptöku þessa ýmis stofnkostnaður, gerð tölvukerfa til að taka á móti upplýsingum og miðla þeim, svo og undirbúningur fræðslu- og upplýsingastarfsemi af ýmsu tagi.

Með góðum rökum má ætla að þegar fram í sækir muni þær breytingar á skattkerfinu sem í frumvörpum þessum felast leiða til hagræðis og aukins árangurs í innheimtu. Einföldun skattkerfisins mun gera framtöl einfaldari og úrvinnsla þeirra mun ekki krefjast sömu vinnu og nú er. Þeim starfskröftum sem þannig losna verður unnt að beina að verkefnum við eftirlit og aðhald, einkum hjá fyrirtækjum og einstaklingum í rekstri en þeim þáttum hefur allt of litið verið unnt að sinna hingað til. Í því sambandi má benda á skýrslu skattrannsóknarstjóra um árangur af starfi embættis hans á s.l. ári sem sýnir að verulegs árangurs er að vænta af skipulögðum vinnubrögðum á þessu sviði.

Staðgreiðsla skatta hefur í allmörg ár verið á verkefnalista ríkisstjórna og Alþingis. Með frumvörpum þeim um staðgreiðslu skatta og önnur skattamál sem nú liggja fyrir hinu háa Alþingi er lagður góður grundvöllur að afgreiðslu Alþingis á málum þessum. Svo virðist sem víðtæk samstaða sé um mál þessi í þjóðfélaginu og er slíkt mjög mikils um vert þegar um er að ræða jafnmikilvægan málaflokk og innheimtu og álagningu skatta. Af hálfu samtaka launafólks hefur ítrekað verið óskað eftir að staðgreiðsla skatta yrði tekin upp. Í lok síðasta árs óskuðu stærstu samtök þeirra eftir því við ríkisstjórnina að hún beitti sér fyrir máli þessu.

Með staðgreiðslu skatta losna launamenn við að bera í sífellu skattabagga frá síðasta ári sem getur komið sér illa í misjöfnu árferði og gerir þeim kleift að aðlaga vinnuálag sitt þörfum sínum hverju sinni án tillits til skatta af tekjum liðins tíma.

Frá sjónarmiði efnahagsstjórnunar er staðgreiðslukerfi einnig betri kostur en það kerfi sem verið hefur við lýði. Í breytilegu árferði og hagsveiflum hefur núverandi kerfi yfirleitt virkað andstætt við þær kröfur sem gera þarf til góðs hagstjórnartækis. Staðgreiðslukerfið mun hins vegar stuðla að jafnvægi, draga fé frá neyslu á þenslutímum, en draga úr skattbyrði ef kaupmáttur dregst saman.

Frú forseti. Ég legg til að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn.