16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3054 í B-deild Alþingistíðinda. (2780)

340. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Hér eru til umræðu hin mikilvægustu mál og skammur tími til stefnu til þess að fjalla um þau, eigi þau að hljóta eðlilega athugun og umfjöllun í meðförum þingsins svo sem nauðsynlegt er. Þar sem nú er ljóst að þing situr ekki svo ýkjalengi úr þessu, þá hefði mátt gefast meiri tími til umfjöllunar um þessi mál. Sömuleiðis er þess auðvitað að geta að þingflokkar stjórnarandstöðunnar hafa ekki haft mjög rúman tíma til að setja sig inn í öll atriði þeirra flóknu frumvarpa og þeirra breytinga sem frv. munu hafa í för með sér. Ég þakka hæstv. fjmrh. að vísu fyrir það að hafa kallað á fulltrúa stjórnarandstöðunnar í síðustu viku, tveimur dögum eða svo áður en frumvörpin voru lögð fram, og afhent þeim frumvörpin í handriti. Það er góðra gjalda vert. En engu að síður eru atriðin sem krefjast athugunar svo mörg að það er borin von að þingflokkar stjórnarandstöðunnar hafi haft tækifæri til að skoða þessi mál ofan í kjölinn svo sem vert væri og eflaust mun málflutningur minn hér bera þess einhver merki að við tímaskort hefur verið að stríða og ýmislegt verður þess vegna sjálfsagt ósagt.

Ég vil byrja á því, virðulegi forseti, að beina nokkrum orðum til hæstv. fjmrh. Ég er nefnilega ekki alls kostar ánægður með hvernig hann hefur tekið efasemdum, sem ýmsir hafa látið í ljós um að þetta væri nægur tími til að búa þetta mál svo vel úr garði sem vert er, og athugasemdum og ábendingum um eitt og annað. Ég minnist þess að hafa hlustað á hæstv. ráðh. í útvarpi segja sem svo um afstöðu Alþfl. að það væri greinilegt að Alþfl. ætlaði að beita öllum tiltækum ráðum til að tefja þetta mál. Ég verð að segja það í fullri hreinskilni að mér finnst þetta ekki vera viðfelldinn málflutningur og satt best að segja hefur hæstv. fjmrh. komið mér svolítið á óvart í þessu efni. Að leggja það að jöfnu að menn lýsi einhverjum efasemdum um ákveðin atriði og að þeir hyggist tefja framgang málsins í hvívetna. Þetta þykir mér ekki að öllu leyti heiðarlegur eða sanngjarn málflutningur, ég verð að segja það alveg hreint eins og er.

Í upphafi máls míns vil ég taka það skýrt fram að Alþfl. styður staðgreiðslukerfi skatta og mun greiða fyrir því máli hér á hinu háa Alþingi. Þetta vil ég að komi skýrt fram vegna þess sem hæstv. fjmrh. hefur áður sagt. Um þetta á ekki að ríkja nokkur efi eða vafi. Staðgreiðslukerfi skatta er gamalt baráttumál Alþfl. og nýtt. Yfirlýsingar um það er að finna í stefnuskrá Alþfl. og á þessu hefur aldrei leikið nokkur minnsti vafi. Þegar svo samherjar okkar í verkalýðshreyfingunni hafa tekið þetta mál upp, þá fögnum við því auðvitað. Þegar þeir hafa með þeim hætti sem allir þekkja þrýst á ríkisstjórnina til að veita málinu framgang og ríkisstjórnin tekið því vel og gert viðeigandi ráðstafanir, þá lýsum við auðvitað stuðningi við það mál. Og ég endurtek enn einu sinni að við munum greiða fyrir þessu máli.

Hitt er svo annað mál að hér er náttúrlega ekki um heildarendurskoðun skattkerfisins að ræða. Hér er aðeins verið að fjalla um einn þátt, eina fléttuna í miklu, miklu gildara reipi og þar er margt enn ófléttað. Það hefur raunar komið fram í framsöguræðum hæstv. fjmrh. fyrir þeim frumvörpum sem hér er verið að ræða.

Það sem við erum að fjalla um nú mætti e.t.v. kalla launþegaskattana fyrst og fremst en við Alþýðuflokksmenn höfum sagt að það þurfi að endurskoða skattkerfið frá grunni vegna þess að það er ónýtt og götótt. Undir þetta taka nú æ fleiri, þeirra á meðal hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. Það sem við erum að gera núna tekur aðeins til hluta af þessu gallaða skattkerfi og það er gott svo langt sem það nær. En við erum þeirrar skoðunar að það verði mjög fljótlega að liggja fyrir upplýsingar og helst skýr og bindandi stefnumörkun um það hvernig farið skuli með sjálfstæða atvinnurekendur, hvernig farið skuli með fjármagnstekjur, eignatekjur og fyrirtækjaskatta. Allt þetta var jú á verkefnalista þeirrar nefndar sem hér hefur unnið að, en hún hefur ekki lokið nema hluta af sínu starfi. Á þessu stigi eru því spurningarmerkin býsna mörg, t.d. að því er varðar stöðu og hlut sveitarfélaganna.

Ég fæ ekki betur séð en að samþykkt þessara frumvarpa hafi í för með sér nokkra skerðingu á sjálfsforræði ýmissa sveitarfélaga, einkum hinna minni. Og ég vil leggja mjög ríka áherslu á að það gengur þvert á stefnu okkar Alþýðuflokksmanna, þ.e. um að auka sjálfsforræði sveitarfélaganna, vinna að aukinni valddreifingu í landinu, ekki aukinni miðstýringu, og færa aukin völd heim í hérað. Á það hefur verið bent með nokkrum rökum, og býsna sterkum rökum að ég hygg, að með þessu kerfi gæti orðið um eins konar lögbundinn skyldusparnað að ræða, tímabundinn, á minni sveitarfélögin a.m.k. og varla getur það hafa verið ætlunin.

Hver verður breytingin á skattbyrðinni? Mér finnst ég ekki hafa séð enn þá nægilega sannferðugar tölur um það. Það má vel vera að þessi fyrirkomulagsbreyting, sem nú er verið að fjalla um, valdi í rauninni ekki svo miklum breytingum hjá þorra launþega. Að vísu munu þeir nú greiða skatta í hverjum mánuði í stað þess að áður voru skattarnir aðeins teknir á 10 mánuðum og skattlausu mánuðirnir, sem svo hafa verið kallaðir, desember og júlí, sem mörgum hafa sj álfsagt komið vel, munu nú senn heyra sögunni til, en það er ekki meginatriði í þessu sambandi. Mjög margt sýnist mér enn vera óljóst varðandi sjálfstæða atvinnurekendur og svo ég nefni nokkur fleiri meginatriði, þá ættu líka, þegar verið er að afgreiða þessi mál, að liggja fyrir upplýsingar um óbeinu skattana. Ég held að ég muni það rétt að þegar hæstv. fjmrh. fylgdi fjárlagafrv. sínu úr hlaði hafi verið talað um upptöku virðisaukaskatts sem meginstefnumál stjórnarinnar, en hins vegar aðeins vikið að því svona í leiðinni að stefnt væri að því að taka upp staðgreiðslukerfi skatta. Hér hefur forgangsröðunin sem sagt snúist við. Við því er ekkert að segja. En það verða bara að liggja fyrir skýrari upplýsingar um fyrirætlanir stjórnvalda varðandi virðisaukaskattinn og framkvæmd hans. Þetta eru vissulega allt atriði sem skipta meginmáli.

Það er ýmislegt annað sem mætti minnast á hér í þessu sambandi. Það er gert ráð fyrir verulegri breytingu varðandi svokallaða bifreiðastyrki, dagpeninga og þvíumlíkar greiðslur. Komið hefur í ljós í skýrslu fjmrh. um störf nefndar sem kannaði umfang skattsvika að þessar greiðslur hafa hækkað mjög mikið á fáeinum árum og eru í skýrslunni allitarlegar tölur um það. Ef ég man rétt þá höfðu greiðslur vegna ökutækjastyrkja u.þ.b. þrefaldast á tveimur eða þremur árum. Það er sjálfsagt alveg óhætt að fullyrða að ekki hefur aksturinn vaxið svo mikið á svo skömmum tíma enda er það á allra vitorði að þetta hefur verið notað sem launahækkun. Og ef ég man rétt þá kemur líka fram í þessari skýrslu að jafnvel heilum launakerfum hafi verið breytt til þess að koma slíkum greiðslum fyrir. Hins vegar eru svo ýmsir aðilar í þjóðfélaginu sem fá slíkar greiðslur og hafa slíkan kostnað, þeir sem nota t.d. ökutæki í þágu atvinnurekenda og fá fyrir það greiðslur. Töluvert er um slíka samninga hjá hinu opinbera. Nú hefur maður séð í blöðum nú um helgina að ýmsum sýnist að eins og þetta lítur út eftir orðanna hljóðan gæti það beinlínis orðið til útgjaldaaukningar hjá hinu opinbera, þ.e. að hið opinbera hætti að njóta þeirra kjara að geta notað gegn ákveðnu gjaldi bíla starfsmanna sinna sem áreiðanlega er hagkvæmt í ýmsum tilvikum. Ég bendi bara á að halda þurfi þannig á þessum þætti að náð sé til þeirra tilvika þar sem þetta eru beinar launauppbætur, eins og örugglega er í ýmsum tilvikum, en hins vegar að gæta þess líka að þetta leiði ekki til þess að útgjöld ríkisins vaxi af þessum sökum úr öllu hófi. Ég held að þarna þurfi nokkurrar athugunar við.

Það eru fjölmörg atriði í þessum frumvörpum sem vissulega mætti minna á og tala kannske langt mál um, t.d. það að nú á að fara að staðgreiða þá skatta sem eitt sinn var lofað að afnema. Ég ætla ekki að fara út í þær hártoganir í þessum umræðum, ég sé enga ástæðu til þess, en það er mjög brýnt og brýnast af öllu í þessu sambandi að fyrir liggi upplýsingar um fleiri atriði en nú eru þegar ljós. Spurningarmerkin eru of mörg enn þá, spurningarnar sem er ósvarað eru of margar.

Þetta mál mun örugglega fá vandlega athugun í nefnd. Raunar vaknar líka sú spurning hvers vegna þetta er keyrt af slíku offorsi nú og ekki gefinn örlítið betri tími til athugunar og þá hefur mest borið á því að það hefur verið talað um skattlaust ár. Auðvitað er allt slíkt tal hreinar blekkingar, auðvitað er það rangt. Það er ekkert skattlaust ár. Menn munu alltaf halda áfram að borga sína skatta þó að þessi kerfisbreyting verði á ákveðnum punkti í tímanum þannig að þá breytist tímabilið, þ.e. menn byrja að staðgreiða en menn lifa ekkert skattlaust ár. Ég held að mjög mikil hætta sé á því að margir hafi misskilið þetta vegna þess að mér finnst að þetta hafi verið rangt sett fram og til þess fallið að valda misskilningi.

Meðal þeirra spurninga sem vakna líka er: Hverjir verða beinlínis verr settir eftir upptöku þessa kerfis? Mér sýnist liggja beint við að t.d. þeir sem koma heim frá námi eða hefja störf að loknu námi muni verða lakar settir en þeir voru. Mér sýnist það gefa auga leið. Hvað með aldraða sem eru að hætta störfum og hafa nýtt sér heimildir skattalaga til þess að hafa skattfrítt ár, eins og það heitir þar, þ.e. til að losna við skatta af tekjum eins árs við starfslok? Hvernig snerta þessar breytingar þá einstaklinga? Það er ein af þeim spurningum sem er ósvarað.

Ég endurtek það að varðandi fyrirtækin, fjármagnseigendurna og sjálfstæða atvinnurekendur er margt óljóst. Það er verið að loka smugunum, og því ber að fagna, t.d. í sambandi við bifreiðastyrkina sem ég minntist á áðan, en ég held að smugurnar hjá fyrirtækjunum og fjármagnseigendunum séu miklu, miklu fleiri og raunar rangnefni að kalla það smugur. Það eru miklu frekar gloppur og göt.

Vegna þess að nú eiga þessi mál eftir að vera nokkurn tíma í umfjöllun Alþingis, enda þótt ekki sé mjög langur tími til stefnu, þá held ég að það sé nauðsynlegt að við fáum frekari upplýsingar um þau atriði sem ég hef nefnt. Ríkisstjórnin hefur í valdatíð sinni opnað ýmsar frádráttarheimildir fyrir fyrirtækin og fjármagnseigendur, t.d. framlögin í varasjóð og fjárfestingarframlög sem eru dregin frá skatti hjá fyrirtækjunum og ég held að hafi numið 900 millj. kr. á s.l. ári. Á sama tíma sem það er staðreynd að svona mjúkum höndum er farið um fyrirtækin, þá lesum við það í blöðunum að gerð er úttekt á Ísafirði á sköttum 12 einstæðra mæðra sem greiddu á s.l. ári 986 þús. kr. í opinber gjöld á meðan sjálfstæðir atvinnurekendur greiddu 42 þús. kr.

Það er líka áreiðanlega eitthvað meira en lítið bogið við skattkerfi þar sem 80 einstaklingar eiga eignir upp á 30 millj. hver og 28 þeirra greiða engan tekjuskatt. Þess vegna er ekki vanþörf á að taka til hendinni við að laga þetta. En ég ítreka að það verður að gera fleira en að snúa sér bara að launþegasköttunum, hæstv. fjmrh. Það hlýtur að vera eitthvað meira en lítið að þegar 75% fyrirtækja eru tekjuskattslaus og af 22 þúsund sjálfstæðum atvinnurekendum greiða einungis 13 þúsund tekjuskatt.

Ég minni hæstv. fjmrh. líka á, sem ætti raunar ekki að þurfa, þær tillögur sem Alþfl. hefur flutt varðandi rannsókn skattsvikamála og úrbætur í þeim efnum og skýrsluna, sem lögð var fyrir Alþingi 18. apríl s.l., skýrslu nefndar sem fjmrh., fyrirrennari hæstv. núv. fjmrh., skipaði á sínum tíma, þar sem er að finna ótal beinar tillögur um úrbætur á skattkerfinu. Satt best að segja er það staðreynd að tiltölulega mjög fáar, afar fáar af þessum tillögum hafa enn komið til framkvæmda. En þetta þarf að vera liður í endurskoðun skattkerfisins meðan svo horfir að tap hins opinbera vegna vangoldinna beinna skatta og söluskatts er áætlað 2,5-3 milljarðar kr. árið 1985, það er sjálfsagt óhætt að færa þá tölu töluvert upp fyrir árið 1986, og raunar mundi þetta hafa dugað til að brúa hallareksturinn á ríkissjóði ef fylgt hefði verið eftir. En stundum finnst manni eins og það skorti á þann pólitíska vilja sem er nauðsynlegur til þess að taka þessi mál þeim tökum sem þarf.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að tala um þetta mjög langt mál nú við þessa umræðu. Hér er vissulega verið að stíga skref til að einfalda skattkerfið sem er flókið og torskilið. Það er sannarlega af hinu góða og það ber að greiða fyrir því að þetta mál fái góða athugun og greiðan gang hér í gegnum þessa hv. deild. Og ég ítreka það af hálfu okkar Alþýðuflokksmanna enn einu sinni, þannig að ekki komi til neins misskilnings í þeim efnum, að við munum vinna að þessu máli og greiða götu þess í gegnum þingið. En við leggjum áherslu á að enn liggja ekki fyrir skýrar upplýsingar, það verður vonandi við meðferð málsins sem þær koma fram, þannig að fyrir liggi fastmótuð stefna um það hvernig tekið verði á öðrum þáttum skattkerfisins, þeim sem þessi frumvörp taka ekki til. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það er ekki ráðrúm og ekki unnt tæknilega og vinnulega að leggja fyrir þetta þing slík frumvörp. En mér finnst það lágmark að fyrir lægi hugsanlega í þeim frumvörpum, sem nú er verið að samþykkja eða kannske enn þá betra í þáltill. sem væri afgreidd hér fyrir lok þings, yfirlýsing um þá stefnu sem hæstv. ráðh. og ríkisstjórn og væntanlega og vonandi sem flestir hér á hinu háa Alþingi gætu sameinast um að því er varðar aðra þætti skattkerfisins sem bíða og sem eru óljósir. Þar hefur ekki verið fyllt út í myndina. Ef ekki næst samstaða um slíka tillögu þá lægi a.m.k. fyrir yfirlýsing frá hæstv. fjmrh. um stefnuna að því er varðar fyrirtækin, fjármagnseigendurna, sjálfstæða atvinnurekendur og þau meginatriði skattkerfisins önnur sem ekki er tekið tillit til hér. Í slíkri tillögu eða yfirlýsingu þyrfti sem sagt að vera ákvæði um nýtt skattakerfi fyrirtækja, skattmeðferð fjármagns og eignatekna, skattmeðferð sjálfstæðra atvinnurekenda. Þetta eru meginatriði.

Ég ítreka að lokum, virðulegi forseti, að Alþfl. styður þetta mál svo langt sem það nær og fagnar því að verkalýðshreyfingin skuli með atbeina sínum og atfylgi og samvinnu við hæstv. ríkisstjórn hafa áorkað því að koma þessu máli svo langt sem raun ber nú vitni vegna þess að í áratugi hefur verið talað um að koma á staðgreiðslukerfi skatta. Fólk bindur við það miklar vonir. Enda þótt það breyti kannske ekki mjög miklu hjá þorra fólks var það orðið tímabært að menn rækju af sér slyðruorðið og settu þetta mál fram. Það ber að þakka. Þetta hefur verið í umræðunni, eins og ég segi, í tvo áratugi. Ég minnist þess frá því að ég starfaði við fjölmiðlun að þá var þetta hin sígilda spurning þegar rætt var árlega við ríkisskattstjóra og embættismenn skattkerfisins hvenær yrði tekið upp staðgreiðslukerfi skatta. Og ég held að svörin hafi verið ósköp álíka sígild og spurningin, að þetta væri nú alveg á næsta leiti. En nú er þetta næsta leiti hér og því ber að fagna.