16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3068 í B-deild Alþingistíðinda. (2782)

340. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Umræða hér á landi um staðgreiðslukerfi skatta er ekki ný af nálinni. Það ber að fagna því að þetta mál er nú komið á skrið. Ég er þeirrar skoðunar og þingflokkur Framsfl. að hér sé um gott mál að ræða og munum við hér í þessari hv. deild og í meðförum Alþingis stuðla að því að þetta mál fái framgang. Hitt er svo annað mál að það gafst ekki langur tími til þess að fjalla um þetta frv. áður en það var lagt fram hér á hv. Alþingi. Þingflokkur Framsfl. var þeirrar skoðunar að frv. þyrfti að koma fram sem allra fyrst en einstakir þm. áskilja sér rétt til þess að hafa fyrirvara um ýmsar lagfæringar sem fram kunna að koma í meðförum nefnda hér í Alþingi.

Mér finnst ástæðulaust að hafa ýkjalangt mál um þetta frv. hér við 1. umr. málsins. Ég á sæti í fjh.- og viðskn. Ed. og fæ þar tækifæri til að kalla aðila fyrir um ýmis atriði frv. til nánara skrafs og ráðagerða og fá útreikninga á þeim atriðum sem þurfa þykir. Með þessu er ég ekki að segja að ég eða aðrir þm. Framsfl. viljum tefja þetta frv. á nokkurn hátt og ég veit að fjh.- og viðskn. mun ekki liggja á liði sínu að hér verði vel að unnið.

Það eru nokkur atriði sem við teljum að þurfi að skoða sérstaklega vel í þessu sambandi. T.d. er gert ráð fyrir því í frv. að eitt skatthlutfall verði og mér finnst nauðsynlegt að gera sér sem gleggsta grein fyrir því hvaða áhrif þetta atriði hefur á skatta þeirra sem hæstar tekjur hafa. Mér finnst einnig nauðsynlegt að gera sér sem gleggsta grein fyrir áhrifunum á innheimtu tekna sveitarfélaga og því samhengi sem þar er á milli, og með hverjum hætti á að tryggja fámennustu sveitarfélögunum tekjur samkvæmt þessu nýja kerfi. Þessi mál veit ég að verða rædd í meðförum fjh.- og viðskn. Ed. og mun ég ekki orðlengja meir um þau við þessa umræðu málsins. Þá finnst mér einnig nauðsynlegt að gera sér gleggri grein fyrir áhrifum húsnæðis- og vaxtafrádráttar, áhrifum þeirra á skattgreiðslur einstaklinga.

Við þessa umræðu vil ég með örfáum orðum koma inn á framkvæmd þessara laga og skatteftirlit í kjölfar þeirra. Það er nauðsynlegt að framkvæmd þessarar kerfisbreytingar spilli ekki góðu máli, jafngóðu máli og ég tel þetta vera, því staðgreiðslukerfi skatta, eins og hér hefur komið fram hjá öðrum ræðumönnum sem talað hafa við þessa umræðu, tryggir skattgreiðendum jafnari greiðslur, það dregur úr launasveiflum þannig að ég tel þetta kerfi vera betra en það sem við höfum í gildi núna. Ég held að það sé nauðsynlegt að herða skatteftirlit og vil gjalda varhug við því að halda að málið leysist sjálfkrafa með nýrri lagasetningu. Það er eftirlitið og framkvæmd laganna sem skiptir mestu máli.

Eitt ákvæði þessara laga er að nú á að skattleggja bílastyrki og dagpeninga og er það um 1,4 milljarðar kr. sem menn ætla að ná til með þessum hætti og skattstofn upp á um 900 millj. kr. Ákvæði um skattlagningu bílastyrkja og dagpeninga eru í núverandi skattalögum en framkvæmdin á þeim lögum hefur ekki verið sem skyldi og þessum ákvæðum hefur ekki verið framfylgt. Þess vegna vil ég við þessa umræðu beina þeirri spurningu til fjmrh. hvort það hafi verið athugað með hverjum hætti á að tryggja betri framkvæmd þessara nýju skattalaga. Og hvort fjmrn. álíti að embætti ríkisskattstjóra og skattstofurnar ráði við þessa kerfisbreytingu á þeim stutta tíma sem til er ætlast. Ef svo væri ekki þá er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að styrkja þessar stofnanir og gera þeim kleift með auknu starfsliði að koma þessari breytingu í kring þannig að tryggt sé að hún takist sem allra best og sú styrking leiði til þess að virkara skatteftirlit fylgi í kjölfar þessarar nýju lagasetningar.

Það kerfi sem hér er komið á er einfalt í sniðum, og það er vel, en eigi að síður er nauðsynlegt að í kjölfarið fylgi virkara skatteftirlit. Ég held að það fylgi ekki nema þær stofnanir, sem eiga að sjá um framkvæmd þessara laga og eftirlit, séu efldar þannig að skattheimtan verði réttlátari en ella.

Ég vildi láta þetta koma fram við 1. umr. málsins. Ég tel ekki ástæðu til að vera að lengja mál mitt öllu meira við þessa 1. umr. Málið fær vandlega athugun í fjh.- og viðskn. Ed. Ég veit að gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að þar verði skarplega unnið að því og mun ekki liggja á liði mínu til þess að þetta mál fái skjótan framgang því ég tel hér um gott mál að ræða. En ég vildi mæla þessi varnaðarorð um kerfisbreytinguna sjálfa og það skatteftirlit sem þarf til þess að tryggja réttláta skattheimtu. Því það hlýtur einmitt að vera það sem við stefnum að.